„Þetta er svona litla Kanarí“

Elsa Pétursdóttir fer alltaf á Löngumýri á sumrin
Elsa Pétursdóttir fer alltaf á Löngumýri á sumrin mbl.is/Árni Sæberg

Elsa Pétursdóttir byrjaði að fara í Orlofsbúðir eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði fyrir rúmlega áratug. Hún hefur sterka tengingu við Löngumýri en þangað fór hún í sveit þegar hún var 11 ára gömul og hafði mikla ánægju af því.

„Þessi sveitadvöl á Löngumýri hafði mikil áhrif á mig, því þar var svo gott að vera og góð umönnun. Ég hef alltaf hugsað hlýtt til sumarsins 1947,“ segir Elsa. Það kom henni skemmtilega á óvart þegar hún frétti fyrir um 15 árum að það væru starfræktar sumarbúðir fyrir aldraða á sama stað og hún hafði verið í sveit.

„Ég er búin að vera á Löngumýri meira og minna síðustu tíu til tólf sumur. Ég passa alltaf að skrá mig,“ segir Elsa. Fyrstu tvö árin fóru Elsa og maðurinn hennar með vinahjónum sínum. Eftir að mennirnir þeirra féllu frá fóru vinkonurnar saman en Elsa segir einnig að fleiri vinkonur hafi farið í kjölfarið. Elsa hefur líka prófað að fara ein og segir það ágætt. Sérstaklega vel er haldið utan um alla og mikið er lagt upp úr vináttu og passað að gestir einangrist ekki.

Gott að komast í sveitasæluna

„Það er mikið atriði að komast út úr bænum og komast út í sveit í öryggi. Staðsetningin á Löngumýri er svo falleg. Fjallasýn til allra átta á staðnum og í nærumhverfinu er allur nýi og gamli trjágróðurinn. Bara það að eiga nokkra daga í sveitinni, það er mikil upplifun,“ segir hún. Gott aðgengi er fyrir alla en fólk þarf að vera nokkuð sjálfbjarga.

Ljósmynd/Aðsend

Elsa segir eitt það besta við dvölina á Löngumýri vera það að það sé alltaf heitt á könnunni og alltaf eitthvað um að vera þótt rólegheitin séu í fyririrúmi. Hægt er að fara niður í fallegu dagstofuna með handavinnuna, kíkja í stóra bókaskápinn eða bara spjalla.

„Allir hópar fara í eina lista- og menningarferð sem er ofboðslega spennandi. Við höfum til dæmis farið í Hólakirkju, skoðað hana og fengið umfjöllun um kirkjuna. Einu sinni keyrðum við um Akureyri og fórum í Lystigarðinn og á kaffihús. Eins höfum farið á Sýndarveruleikasafnið á Sauðárkróki, það var mikil upplifun fyrir okkur. Og einnig höfum við skoðað Kakalasafnið sem var mjög fróðlegt,“ segir Elsa.

Ljósmynd/Aðsend

Allt svo heimilislegt

Eftir morgunmat förum við í litlu kapelluna í smástund og hlustum á falleg orð. Þar á eftir gerum við leikfimisæfingar og förum í léttar göngur fyrir utan hjá okkur. Þátttaka í allri dagskrá er valfrjáls og engin kvöð að taka þátt. Einnig er lítil sundlaug og heitur pottur sem er mjög vinsæll og góður.“

Er þetta bara eins og að fara til Kanarí?

„Í rauninni. Nema maður er ekki eins öruggur með veðrið. Þetta er svona litla Kanarí,“ segir Elsa, sem lofar heimalagaða matinn og bakkelsið sem boðið er upp á og er alltaf nóg af. Hún segir starfsfólk eldhússins vera heimafólk og það eigi stóran þátt í að gera dvölina heimilislega og notalega.

Ljósmynd/Aðsend

Ætlar þú aftur í sumar?

„Já alveg örugglega, að öllu óbreyttu. Ég hef heyrt frá fólki að það vilji alltaf fara á sama tíma en ég hef ekki gert það. Ég vel tíma eftir hvernig maður er og hvað annað er á döfinni,“ segir Elsa sem er sérstaklega ánægð með sumarbúðirnar sem eru reknar af íslensku þjóðkirkjunni og eru í boði fyrir fólk frá öllum landshlutum.

Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »