„Orðin of miðaldra til að halda í við dauðadrukkna Breta á djamminu“

Snæfríður Ingadóttir hefur skrifað bók um Costa Blanca svæðið á …
Snæfríður Ingadóttir hefur skrifað bók um Costa Blanca svæðið á Spáni. Ljósmynd/Samsett

Snæfríður Ingadóttir rithöfundur og blaðamaður er höfundur bókarinnar Costa Blanca  Lifa og njóta. Spánn hitti hana í hjartastað og síðan þá hefur hún ferðast víðsvegar um landið ásamt eiginmanni sínum og dætrum þeirra þremur. Á dögunum festi hún kaup á húsi á Tenerife sem hún hyggst gera upp. 

Upphaflega langaði mig til þess að skrifa ferðahandbækur um vinsælustu sólaráfangastaði Íslendinga. Ég hef áður skrifað álíka bækur um Gran Canaria og Tenerife og loka hér með hringnum með þessari bók. Meginmarkmið þessara þriggja bóka er að gefa fólki hugmyndir og innblástur að ýmsu áhugaverðu til að skoða, smakka og upplifa á ferðalaginu, eitthvað annað en bara sundlaugarbakkann og ströndina. Í Costa Blanca-bókinni er til dæmis fjallað um alla hina fjölbreyttu skemmtigarða á svæðinu, bent á áhugaverðar gönguleiðir og fjallað um mat sem gaman er að smakka,“ segir Snæfríður. 

Matthías Kristjánsson og Snæfríður Ingadóttir með dæturnar þrjár þær Ragnheiði …
Matthías Kristjánsson og Snæfríður Ingadóttir með dæturnar þrjár þær Ragnheiði Ingu, Bryndísi og Margréti.

Hvað kom á óvart þegar þú fórst að ferðast um svæðið?

„Það sem kom mér mest á óvart er hversu  gríðarlega fjölbreytt svæðið er. Torrevieja og Orihuela Costa hafa verið í miklu uppáhaldi hjá Íslendingum en Costa Blanca er svo miklu meira en bara það. Ef maður er með bíl þá er til dæmis hægt að fá sér bíltúr í falleg fjallaþorp eða víkur við sjóinn, skoða ævintýralega hella og fara á frábæra flóamarkaði. Það er stutt í fallega náttúru á þessu svæði og gönguleiðir vel merktar. Þá er gríðarlega mikil og góð afþreying í boði fyrir barnafjölskyldur á Costa Blanca-svæðinu

Í samanburði við kanarísku eyjarnar þá er yfirleitt ódýrara að fljúga til Alicante. Þá virðist ýmislegt vera hagstæðara á meginlandinu en á kanarísku eyjunum, til dæmis leiguverð. Þá hefur á suðurhluta Costa Blanca byggst upp fjölbreytt alþjóðleg þjónusta sem gerir svæðið ákjósanlegt fyrir fólk sem hyggur á lengri dvöl á Spáni.“

Fjölskyldan heimsótti nánast alla skemmtigarða á svæðinu og gerði úttekt …
Fjölskyldan heimsótti nánast alla skemmtigarða á svæðinu og gerði úttekt á þeim í bókinni. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Spánn hefur augljóslega hitt þig í hjartastað. Hvers vegna?

„Eins og flestir Íslendingar fór ég upphaflega til Spánar vegna sólarinnar og verðlagsins, en Spánn er svo miklu meira en sól, strönd og ódýr bjór. Ég er einfaldlega fallin fyrir spænska taktinum og lífsstílnum. Ég þarf ekki að þeysast um allan heiminn heldur vil frekar ferðast á dýptina og skilja spænsku menninguna betur.“

Hvað hefur Spánn fram yfir Ísland?

„Báðir staðir hafa sína kosti og galla. Það er ekki allt betra í sólinni, ég hef kynnst því á langdvölum okkar á Spáni. Það er tilbreytingin sem gerir öll ferðalög skemmtileg. Að fara frá Íslandi til Spánar þá er það auðvitað veðráttan fyrst og fremst sem Spánn hefur fram yfir Ísland en síðan er það fjölbreytt fersk matvara og skemmtileg menning í kringum vín og mat.“ 

Það sem Spánn hefur fram yfir Ísland er að þar …
Það sem Spánn hefur fram yfir Ísland er að þar er hlýrra og sólríkara. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Snæfríður hefur ferðast mikið um Spán og líka um eyjarnar sem tilheyra landinu. Í þessum ferðalögum hafa dætur hennar þrjár verið meðferðis. Þegar Snæfríður er spurð hvort börnunum leiðist aldrei og hvort það sé ekki erfitt að hafa ofan af fyrir þeim segir hún svo ekki vera.  

„Mér finnst reyndar allt í lagi að börnum leiðist, hvort sem er í daglega lífinu eða á ferðalögum. Það þarf ekki alltaf að vera standandi skemmtidagskrá. Börn verða að læra að hafa ofan af fyrir sér sjálf. Á okkar ferðalögum höfum við innrætt dætrum okkar að þar sem við erum fjölskylda á ferð þá þurfi þær líka að koma með okkur foreldrunum í fjallgöngur, smakka skrítinn mat og fleira sem okkur hjónunum finnst skemmtilegt, alveg eins og við förum með þær í skemmtigarða, á ströndina og það sem þær hafa gaman af. Við reynum að hafa jafnvægi á milli þessara hluta.“

Snæfríður og dæturnar þrjár.
Snæfríður og dæturnar þrjár. Ljósmynd/Matthías Kristjánsson

Foreldrar kannast við það að börn spyrja mikið um það hvað gerist næst. Hvernig má koma í veg fyrir þetta?

„Við höfum reynt að kenna dætrunum að hafa gaman af því sem er að gerast núna en ekki bara því sem gerist næst, þó það sé gaman að láta sig hlakka til.“

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Costa Blanca-svæðinu? 

„Ég er mjög hrifin af norðurhluta Costa Blanca og hef í raun dvalið meira þar en á suðurhluta svæðisins, einfaldlega vegna þess að þar er stutt í fjölda skemmtilegra gönguleiða. Þá finnst mér margir skemmtilegir strandbæir á norðurhlutanum sem byggðir eru á gömlum grunni. Ég gerði til dæmis einu sinni íbúðaskipti í Javéa með fjölskyldunni og sá bær kom skemmtilega á óvart. Þá verð ég líka að nefna Benidorm, sem er fallegt, vel skipulagt og fjölbreytt ferðamannasvæði.“

Hvað myndir þú helst ekki gera á ferðalagi á þessum slóðum? 

„Við gerð bókarinnar prófuðum við fjölskyldan alla skemmtigarða á Costa Blanca-svæðinu og það var hreinlega of mikið af því góða. Ég þarf því ekki að fara í fleiri skemmtigarða þar, né eiginlega fyrir lífstíð. Ég einfaldlega „skemmtigarðaði“ yfir mig! Þá myndi ég helst ekki bóka gistingu við Levante-ströndina á Benidorm, ég er orðin of miðaldra til að halda í við dauðadrukkna Breta á djamminu.“

Costa Blanca - Lifa og njóta er þriðja ferðabókin sem …
Costa Blanca - Lifa og njóta er þriðja ferðabókin sem Snæfríður skrifar um Spán. Hinar tvær fjölluðu um eyjarnar Gran Canaria og Tenerife.

Nú eruð þið hjónin búin að festa kaup á húsi á Tenerife. Er planið að flytja þangað?

„Það er er nú nokkuð langt í að hægt sé að flytja inn í þetta hús, það þarf að taka það algjörlega í gegn. Hins vegar reikna ég með því að eftir því sem skuldbindingum okkar á Íslandi fækkar munum við hjónin eyða meiri og meiri tíma í sólinni. Ég hef oft sagt að ég hafi fæðst á röngum stað, það kraumar eitthvert suðrænt blóð í mér,“ segir Snæfríður.

Hér slakar Snæfríður á í sól og hita.
Hér slakar Snæfríður á í sól og hita.
Margrét, Ragnheiður Inga og Bryndís með suðræna drykki í hönd.
Margrét, Ragnheiður Inga og Bryndís með suðræna drykki í hönd. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Í bókinni skrifar Snæfríður um áhugaverðar gönguleiðir á Costa Blanca …
Í bókinni skrifar Snæfríður um áhugaverðar gönguleiðir á Costa Blanca svæðinu. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Á svæðinu eru ævintýralegir hellar.
Á svæðinu eru ævintýralegir hellar. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson.
Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert