Gáttaður á 4.300 króna vatnsflösku

Benedict Brook var hissa á verðmiðanum á titraranum, smokkunum og …
Benedict Brook var hissa á verðmiðanum á titraranum, smokkunum og sleipiefninu en einnig vatnsflöskunni sem kostaði 4.300 krónur.

Ferðablaðamaðurinn Benedict Brook gapti af undrun þegar hann kynnti sér minibar á hóteli nokkru sem hann dvaldi á í Las Vegas í Bandaríkjunum á dögunum. Í minibarnum fann hann vatnsflösku sem kostaði 31 bandaríkjadal eða um 4.300 krónur og einnig titrara, smokka og sleipiefni sem kostuðu sannarlega skildinginn.

Brook fjallaði um veru sína á hóteli við aðalgötu Las Vegas fyrir ástralska miðilinn News.com.au.

„Að minibar sé á hótelherberginu þínu er farið að verða æ sjaldgæfara. Jafnvel þó það sé minibar þá er yfirleitt fátt um fína drætti í honum og jafnvel bara nokkrar einingar af G-mjólk í plastpakkningu, sem gæti örugglega staðið í hillu í sánaklefa í viku yfir sumarið og ekki súrnað. En í Las Vegas, þar lifir minibarinn sínu besta lífi,“ skrifar Brook í upphafi umfjöllunar sinnar.

Sex tegundir af bjór

Minibarinn á herbergi hans var troðfullur. Það var vatn, kók, og líka sex tegundir af bjór. Þar var einnig vín, en líka flaska af kampavíninu Veuve Clicquot sem nýtur einmitt vinsælda hér á Íslandi. „Það var vodka, gin, þrjár tegundir af rommi, Jack Daniels, og viskí með kanilbragði. Það var meira að segja ákaflega krúttleg flaska af Patron tekíla,“ skrifar Brook.

Í minibarnum var einnig bleik og sæt dós, sem hann taldi vera vatn með bragði, mögulega hindberja bragði. Þegar hann fór hins vegar að skoða hana betur komst hann að því að merkið væri Lovebox og í dósinni væri titrari, smokkar og sleipiefni. „Það sem gerist í Vegas, bla, bla, bla. Það sem var klikkað við þetta, var verðmiðinn á umræddri dós. Þessi dós kostaði eina 50 bandaríkjadali,“ skrifar Brook.

„Að hlutirnir kosti meira á minibar á hóteli er ekkert nýtt. En þetta er komið fram úr öllu valdi í Las Vegas, jafnvel svo að manni langar að grípa í vatnsflösku til að ná sér niður. Þar að segja ef eins lítra vatnsflaska kostaði ekki 31 bandaríkjadal, sem er nóg til að maður falli í yfirlið,“ skrifar Brook og tekur dæmi um að einn lítri af vatni kostar um þrjá dali í matvöruverslun í sömu borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert