Sagði farþega með „heimskulegt andlit“

Karlmaður í Bandaríkjunum segir flugfreyju Delta Airlines hafa hótað honum …
Karlmaður í Bandaríkjunum segir flugfreyju Delta Airlines hafa hótað honum og eiginkonu hans. AFP

Karlmaður í Bandaríkjunum hefur sakað flugfreyju Delta Airlines um að hafa hótað honum og eiginkonu hans áður en þeim var að eigin sögn ranglega vísað frá borði. Segir maðurinn einnig að flugfreyjan hafi sagt að andlit konu hans væri heimskulegt.

Hið meinta atvik átti sér stað fyrir flug Delta frá Orlando til New York í nóvember á síðasta ári.

Hjónin segja að þeim hafi verið vísað frá borði eftir að þau ætluðu að setja handfarangur sinn í farangurgeymsluna á fyrsta farrými, þrátt fyrir að eiga ekki miða á því farrými.

Maðurinn, sem heitir Thomas Todd. deildi sögu þeirra á Twitter og deildi einnig myndbandi af flugfreyjunni. Skömmu áður en upptaka hófst segir Todd að flugfreyjan hafi sagt við konu hans að hún væri með „heimskulegt andlit“. Á upptökunni heyrist hún segja að henni sé alveg sama að hann ætti upptöku af henni segja að kona hans væri með heimskulegt andlit.

Todd segir að þau hjónin hafi talið sig hafa verið vísað ranglega frá borði og hafa krafist skaðabóta vegna þess. Þau hafi hins vegar aldrei fengið bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert