Guðrún selur draumabílinn og eltir næsta draum

Guðrún Helga Sigurðardóttir hefur sett húsbílinn glæsilega á sölu.
Guðrún Helga Sigurðardóttir hefur sett húsbílinn glæsilega á sölu. Samsett mynd

Guðrún Helga Sigurðardóttir, kennari og ævintýrakona með meiru, hefur sett húsbíl sinn, sérinnréttaðan Ford Transit, á sölu. Bíllinn á skemmtilega sögu en vinahjón Guðrúnar innréttuðu hann eftir að þau misstu vinnuna í heimsfaraldrinum. 

Guðrún hefur átt yndislega tíma á flakki um landið í bílnum en nú ætlar hún að láta gott heita í bili. Bílinn auglýsti hún á Facebook og hefur hún fundið fyrir miklum áhuga. 

„Ég tók smá U-beygju í lífinu og var lengi búin að fylgjast með húsbílalífi í gegnum samfélagsmiðla. Bara svona ákveðnu fólki úti í heimi. Svo kemur Covid og ég læt bara slag standa. Spurði bara hvort þau væru til í þetta og þau voru það,“ segir Guðrún. „Ég ætla að fara að gera annað. Núna er draumurinn svona „tinyhome“,“ segir Guðrún. 

Bíllinn er ansi hugglega innréttaður.
Bíllinn er ansi hugglega innréttaður.

Besti ferðamátinn á Íslandi

Smáhýsi hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum líkt og húsbílalífstíllinn, en í því felst að eiga sem minnst og búa sem hagkvæmast. En aftur að bílnum. Bíllinn er árgerð 2013 og beinskiptur. Keyrður um 160 þúsund kílómetra. 

Síðustu sumur hefur Guðrún farið á honum um allt landið, austur, vestur, norður og suður og segir hann algjörlega fullkominn. Glæsileg græn innrétting er í honum og það er ísskápur, vaskur, tengi fyrir vatn, klósett og rúmgott geymslupláss undir rúminu. Svo er líka tengi fyrir 220 volta rafmagn. „Þetta er bara geggjað. Það er geggjað að ferðast um í svona bíl,“ segir Guðrún sem segist þekkja landið mun betur eftir öll ferðalögin.

„Ég er búin að velta þessu fyrir mér í vetur. Ég er komin með augastað á næsta draum. Ég er voða hrifin af svonaminimalískum lífsstíl. Við þurfum svo lítið. Ég hef prófað að eiga einbýlishús. Ég er ein í dag, á einn uppkominn son. Þannig ég er aðeins að fóta mig í lífinu,“ segir Guðrún. 

Fordinn er glæsilegur.
Fordinn er glæsilegur.

Geggjað tækifæri fyrir aðra

Guðrún segist ekki bindast veraldlegum hlutum mjög sterkum böndum. „Mér fyndist bara geggjað fyrir ungt fólk að eignast þennan bíl. Og líka fyrir fólk sem á ekki heimili. Það getur farið vel um einstakling í þessum bíl, þarna geturðu bara átt hlýtt og gott heimili. Þetta er bara geggjað tækifæri fyrir aðra,“ segir Guðrún. 

Draumurinn um smáhýsi er næst á dagskrá hjá Guðrúnu en hún sér þó alveg fyrir sér að leigja einhvern tíman húsbíl og fara yfir til Evrópu og keyra hana þvera og endilanga, enda orðin sjóuð í húsbílalífsstílnum. 

Guðrún hefur ferðast um allt landið á bílnum.
Guðrún hefur ferðast um allt landið á bílnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert