Stundum er ekki gott að fá ráð frá heimamanni

Pítsan í Napólí er sögð frábær.
Pítsan í Napólí er sögð frábær. Ljósmynd/Colourbox

Á ferðalagi vill maður kynnast áfangastaðnum vel og vandlega og leitar því ráða hjá heimamönnum um bestu staðina. Það getur hins vegar í sumum tilfellum reynst illa eins og ferðablaðamaður komst að sjálfur.

Enn ein túristagildran

„Ég var á ferðalagi um Napólí og spurði nokkra heimamenn um besta staðinn til að fá sér pítsu. Spurningin vatt upp á sig og enginn var sammála um hvert ætti að senda mig til þess að borða pítsu. Loks nefndi einn L'antico Pizzeria da Michele,“ segir Ben Groundwater.

„Frábært! Ég punktaði þetta hjá mér og var viss um að ég ætti von á góðu. Enda ráð frá heimamanni. En þegar ég mætti þangað rann upp fyrir mér ljós. Þetta var bara enn ein túristagildran. Þarna var heilmikil röð og bara ferðamenn. Ég fletti staðnum upp á Google og komst að því að staðurinn var með yfir 30 þúsund umsagnir og er í öllum helstu ferðabæklingum.“

Heimamenn vita ekki allt

„Þetta er góð áminning um að heimamenn vita ekki alltaf hvað sé best. Jafnvel þó þeir viti hvar bestu pítsurnar leynast þá eru þeir ekki endilega að fara að segja þér það!“

„Okkur er kennt að lofsyngja ráð og þekkingu heimamanna en stundum vita þeir bara ekki neitt betur en það sem stendur í ferðabókunum. Fólk er allt af vilja gert til þess að hjálpa og finnst dónalegt að hjálpa ekki ferðamönnum.“

Sumir hafa hræðilegan smekk

„Heimamenn eru ekki túristar. Sumir hafa góða innsýn í það sem ferðamaðurinn vill sjá og upplifa, aðrir ekki. Og hafa skal það í huga að það að vera heimamaður felur í sér að fara út með ruslið og mæta í vinnuna. Ekki að hanga á flottum börum og skoða eitthvað spennandi.“

„Staðreyndin er sú að maður hefur oftast ekki hugmynd hvort heimamaðurinn viti nokkuð t.d. um mat. Sumir hafa hræðilegan matarsmekk. Bara þó einhver búi á stað sem er þekktur fyrir góðar pítsur þá þýðir það ekki að hann sjálfur hafi góðan smekk á pítsum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert