„Canon-stelpa með vestfirskt hjarta“

Ljósmyndarinn Rán Bjargardóttir við fossinn Dynjanda.
Ljósmyndarinn Rán Bjargardóttir við fossinn Dynjanda. Ljósmynd/Rán Bjargar

Rán Bjargardóttir, ljósmyndari og ævintýrakona, er mörgum kunn enda einn fremsti ljósmyndari okkar Íslendinga. Hún útskrifaðist sem slíkur frá Tækniskólanum árið 2017 en hefur ferðast víða um heim og sótt ýmis námskeið til þess að styrkja kunnáttu sína.  

Rán er fædd í Reykjavík en eyddi stærstum hluta æskuáranna á Barðaströnd og nýtir hvert tækifæri til þess að komast út úr borginni og á sínar upprunaslóðir á Vestfjörðum. Hún er nýlega komin heim úr einu slíku ferðalagi og fengum við að forvitnast um ferðina og konuna á bakvið myndavélina.  

Hver er þinn eftirlætisstaður á Íslandi og af hverju?  

„Vestfirðir. Er ættuð þaðan og hef því eytt stórum hluta ævinnar þar, bæði sem barn og fullorðin. Þangað liggja rætur mínar og mér líður hvergi betur en í sveitinni með fólkinu mínu, náttúrunni og kyrrðinni sem þar er. Svo ég tali nú ekki um fegurðina og náttúruperlurnar. Það er mjög gefandi og gott að vera fyrir vestan. Sérstaklega fyrir ljósmyndara.“ 

Logn og stilla við Arnarfjörð.
Logn og stilla við Arnarfjörð. Ljósmynd/Rán Bjargar

„Amma mín og afi, Kristín Ingunn Haraldsdóttir og Bjarni Símonarson Hákonarson, voru bændur á Barðaströnd á bæ sínum Haga. Þar ráku þau stóran búskap og þegar ég var stelpa eyddi ég sumrunum hjá þeim og vann í fjósinu, stundaði heyskap og hljóp um túnin, langt fram eftir kvöldi. Öll mín bestu augnablik úr bernsku eru þaðan.“

„Foreldrar mínir, Björg Bjarnadóttir og Eiríkur Jónsson, eiga einnig hús á Barðaströnd sem heitir Grænhóll og Edda systir mín býr í Grjóthólum, sem er í næsta húsi við þeirra. Ég get því farið þangað hvenær sem er og verið í góðu yfirlæti hjá þeim. Við fjölskyldan erum mjög mikið þar á sumrin.“

Ketildalir í Arnarfirði.
Ketildalir í Arnarfirði. Ljósmynd/Rán Bjargar

„Ég hef ferðast vestur á hverju einasta ári og gert það síðan ég var barn, stundum oft á ári og verð aldrei þreytt á því. Ég finn mér alltaf eitthvað nýtt að gera eða skoða. Við hjónin höfum líka boðið vinum okkar að koma með okkur í sveitina og hafa fjölmargir vinahópar komið þangað með okkur og unað sér afar vel. Við systkinin og foreldrar okkar erum líka dugleg að finna okkur tíma til að vera þar með öll börnin okkar saman. Það er yndislegt og krakkarnir elska að vera í sveitinni.“

Litríkur Dynjandisvogur.
Litríkur Dynjandisvogur. Ljósmynd/Rán Bjargar

Hvers konar ferðalögum ertu hrifnust af? 

„Innanlandsferðalögum. Mér finnst Ísland alltaf best í heimi og ég á ennþá eftir að skoða svo margt. Ég kann ekki vel við mig í miklum hita svo kuldinn hérna heima hefur aldrei truflað mig neitt sérstaklega. Þó það sé alveg notalegt að skreppa til heitari landa og spóka sig um í stuttbuxum og hlýrabol þá finnst mér alltaf best að vera hér heima með húfuna mína. Ég er samt ekkert fyrir tjaldútilegur, skil það ekki. Það eru samt fullt af stöðum úti í hinum stóra heimi sem mig langar að skoða og ætla að skoða.“

„Ég verð hugmyndaríkari og fæ meiri innblástur þegar ég ferðast“

Hvað er best við að komast burt úr höfuðborginni?  

„Að komast frá áreitinu, umferðinni í borginni og stressinu. Ég næ einhverri slökun sem ég næ ekki á sama hátt í Reykjavík. Held það sé bara fjarlægðin frá norminu.  

Þegar ég fer úr bænum þá stillist ég bara á „out of office“ í höfðinu á mér. Ég rek lítið ljósmyndafyrirtæki og því fylgir stundum álag, þó ég elski vinnuna mína, ég vinn jú við áhugamálið mitt og kvarta ekki undan því. Það er samt alltaf gott að komast frá og geta sleppt því að skoða pósthólfið í nokkra daga.  

Það kveikir líka öðruvísi á kerfinu mínu að komast frá, ég verð hugmyndaríkari og fæ meiri innblástur þegar ég ferðast. Svo er bara gott fyrir alla að komast aðeins frá þessu daglega, sérstaklega ef maður rekur stórt heimili líka,“ segir Rán sem á þrjú börn, Unu, Ynju og Berg með eiginmanni sínum, Ásgeiri Frey Kristinssyni.

Horft yfir Arnarfjörð.
Horft yfir Arnarfjörð. Ljósmynd/Rán Bjargar

 „Það þurfa allir „breik“, sérstaklega á þessum tímum sem við lifum á núna. Það er einhvern veginn alltaf allt á fullu og svo miklar kröfur um að standa sig, vera dugleg, vera í formi, vera fyrirmynd, vera hitt og þetta. Ég set svona kröfur á sjálfa mig óhikað en gleymi líka stundum að vera bara smá sama og gera það sem ég vil, vera sú sem ég vil og fara þangað sem ég vil. Leyfa hinu bara aðeins að bíða.“

Hvert var ferðinni heitið? 

„Til Barðastrandar á Vestfjörðum, í sveitina mína. Ég er búin að koma þangað svo oft með fólki sem vill eðlilega sjá vinsælustu staðina eins og Rauðasand og Látrabjarg en í þetta sinn vildi ég fara á staði sem ég hef ekki heimsótt lengi eða bara aldrei komið á. Staði sem eru ekki þessir hefðbundnu ferðamannastaðir. Þó ég hafi nú líka tekið nokkra klassíska staði í leiðinni.“

Kofi í Vatnsdal á Patreksfirði.
Kofi í Vatnsdal á Patreksfirði. Ljósmynd/Rán Bjargar

„Í þetta sinn vildi ég vera ein í húsi foreldra minna, ferðast um og taka myndir“

Hverjir voru ferðafélagarnir? 

„Enginn. Ég hef oft farið ein áður og verið hjá systur minni, henni Eddu og hefur ferðin þá verið til þess gerð að eyða tíma með henni. Við systurnar erum mjög nánar. En í þetta sinn vildi ég vera ein í húsi foreldra minna, ferðast um og taka myndir. Það hefur samt ekkert með systur mína að gera“ segir hún og hlær.  

„Það var æðislegt að vera svona ein. Þó ég sé félagsvera almennt þá er ég líka algjör einfari á tímum. Ég held að það sé hollt fyrir alla að eiga stundum stund með sjálfum sér. Ég naut mín alla vega í botn. Lá í grasinu og andaði að mér ísköldu Vestfjarðalofti á milli þess sem ég myndaði, borðaði nesti í yfirgefnum kofum og þvoði mér um hendur í ánum.“

Loftmynd úr fjöru í Ketildölum.
Loftmynd úr fjöru í Ketildölum. Ljósmynd/Rán Bjargar

Var mikið um óvænt myndastopp? 

„Já, mjög mikið. Ég stoppaði meira en ég er vön því ég var alein á ferð. Yfirleitt er fjölskyldan með mér og ég legg það ekki á þau að vera alltaf að stoppa því þá kæmumst við sennilega aldrei á leiðarenda. Ég er líka nýbúin að fjárfesta í dróna svo ég var aðeins æstari en vanalega í að stoppa og prófa hann.“

Loftmynd af Garðari BA-64, elsta stálskipi á Íslandi.
Loftmynd af Garðari BA-64, elsta stálskipi á Íslandi. Ljósmynd/Rán Bjargar

Hvað er ómissandi fyrir ljósmyndara að taka með sér í ferðalagið? 

„Hlý föt, góðir skór, nesti fyrir langferðir og eitthvað heitt á brúsa. Svo auðvitað myndavélin, linsurnar, þrífótur, auka batterí og nóg af minniskortum. Regnhlíf getur líka komið sér vel í blautum veðrum.“

Hvað er það sem veitir þér innblástur? 

„Það getur verið nánast allt. Fólk og náttúran er auðvitað stór partur, en svo bara hlutir í lífinu, eins og missir og sorg eða gleði og hamingja. Ég get fengið innblástur út frá skemmtilegu húsgagni, sögu sem ég heyri eða kuðungum.“

Óborganlegt útsýni við Gögrafjall við Örlygshöfn í Patreksfirði.
Óborganlegt útsýni við Gögrafjall við Örlygshöfn í Patreksfirði. Ljósmynd/Rán Bjargar

Hvað fær þig til að fara út og mynda? 

„Það þarf sjaldan að selja mér hugmyndina um að fara út að mynda. Það er helst tímaleysið sem stoppar mann. Ég væri til í aðra 24 tíma í sólarhringinn. Stundum er það ákveðin lausn einhverra vandamála að ég fari út að mynda. Ég kem endurnærð til baka og í betra skapi. Ég reyni að mynda alltaf þegar færi gefst og sérstaklega undanfarið því ég tók ekki myndir fyrir mig í nokkur ár, heldur myndaði bara fyrir aðra og tók að mér of mikið af verkefnum. Þá var myndavélin mín bara atvinnutæki og ég hætti að taka hana með í ferðalög því mér fannst ég þurfa hvíld frá henni. Í dag er það er breytt.“

Fegurðin í Sauðlauksdal er óneitanleg.
Fegurðin í Sauðlauksdal er óneitanleg. Ljósmynd/Rán Bjargar

Hvað var skemmtilegast að mynda á ferðalaginu? 

 „Held ég verði að segja Örlygshöfn og Sauðlauksdalur. Ég fékk alveg fullkomið ljósmyndaveður og var þar í næstum heilan dag. Litirnir í sandinum og sjónum í Örlygshöfn voru ólýsanlega fallegir þennan dag og sandþúfurnar í Sauðlauksdal minna bara á aðra plánetu. Annars var allt í þessari ferð nokkuð fullkomið“.

Dynjandi og Strompur.
Dynjandi og Strompur. Ljósmynd/ Rán Bjargar

„Þetta var eins og atriði í bíómynd“

Hvað var það sem stóð upp úr, staður og stund?  

„Þegar ég fór að Dynjanda. Ég hef komið þangað oftar en ég get talið og ætlaði að sleppa því í þessari ferð, en af einhverjum ástæðum fór ég samt. Ég labbaði alveg upp að Dynjanda með myndavélina en ekki drónann, því það var of mikið rok til að geta flogið honum. En þegar ég kom á toppinn var alger stilla þar svo ég hljóp aftur niður fjallið, sótti drónann og náði svona draumamyndbandi af mér og fossinum“ segir Rán, sem var dugleg að deila myndum og myndböndum frá ferðalaginu á Instagram.

„Að vera efst í fjallinu með drunurnar frá Dynjanda í andlitið var rúmlega magnað. Ég var líka ein á svæðinu sem toppaði þessa upplifun.  

Á þessum árstíma er ekki eins mikið um ferðamenn fyrir vestan. Maður upplifir þetta öðruvísi þegar maður er einn á svona svæði. Ég átti greinilega bara að vera þarna á þessu augnabliki, því ekki var það á planinu.

Svo verð ég að nefna þegar ég hitti litlu stúlkuna sem býr í Fossfirði. Ég var þar að taka myndir þegar hún kom til mín og gaf sig á tal við mig, bláókunnuga manneskju sem hún þekkti ekki neitt. Við spjölluðum um sveitina og fegurðina áður en hún hljóp svo áfram í leik með hundunum sínum undir fossinum við bæinn sinn. Þetta var eins og atriði í bíómynd.  

Hún var frelsið og sakleysið uppmálað. Kurteis, brosmild, glöð og virkilega áhugasöm um þennan ljósmyndara sem var þarna á þvælingi í bakgarðinum hjá henni. Verst finnst mér að hafa gleymt að spyrja hana að nafni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert