Ætlar að vera 100 daga neðansjávar

Dr. Deepsea
Dr. Deepsea Skjáskot/Instagram

Prófessor við Háskólann í Suður-Flórída hefur byrjað heldur sérkennilega tilraun. „Dr. Deepsea“ eða Joseph Dituri er fluttur neðansjávar og ætlar sér að vera þar í 100 daga til þess að skoða hvernig líkaminn ræður við langtímaáhrif þess að vera í miklum þrýstingi. Hann byrjaði rannsóknina þann 1. mars síðastliðinn og er hann því búinn að vera 19 daga neðansjávar.

Neðansjávarsjálfa.
Neðansjávarsjálfa. Skjáskot/Instagram

Dituri hefur komið sér fyrir á Jules Undersea Lodge og hefur þar 100 fermetra svæði fyrir sig sem er á 30 feta dýpi. 

„Neðansjávarsvæðið mitt næstu 100 dagana,“ tilkynnti Dituri ákaft í Instagram-myndbandi þegar hann hóf ferðalagið. 

View this post on Instagram

A post shared by Joe Dituri (@drdeepsea)

Á meðan leiðangri hans stendur mun læknateymi sem inniheldur bæði bráðalækna, sérfræðinga í hjartalækningum og sálfræðinga kafa niður til hans reglulega og athuga heilsu hins 55 ára gamla prófessors. 

„Aukið langlífi sem og komið í veg fyrir sjúkdóma er tengjast öldrun“

„Mannslíkaminn hefur aldrei verið svona lengi neðansjávar, svo það verður fylgst náið með mér,“ sagði Dituri í yfirlýsingu. „Þessi rannsókn mun skoða allar þær leiðir sem þetta ferðalag hefur áhrif á líkama minn, en mín tillaga er sú að þær verði heilsubætandi vegna aukins þrýstings.“

Háskólinn segir að þar sem Dituri mun búa við aukinn þrýsting í þetta langan tíma eru líkur á því að það gæti aukið langlífi sem og komið í veg fyrir sjúkdóma er tengjast öldrun. 

Þessar aðstæður eru ekki nýjar fyrir Dituri en hann starfaði sem yfirmaður hjá mettunarköfunardeild bandaríska sjóhersins í 28 ár og á hann því von á að slá heimsmetið frá árinu 2014 sem eru 73 dagar.

mbl.is