Aldrei flogið til fleiri áfangastaða yfir vetur

Icelandair flýgur til 36 áfangastaða næsta vetur.
Icelandair flýgur til 36 áfangastaða næsta vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Icelandair flýgur til alls 36 áfangastaða veturinn 2023-2024. Er þetta umfangsmesta vetraráætlun félagsins frá upphafi. 

Þá nemur aukning á áætluðu sætaframboði á tímabilinu nóvember til febrúar 20-25% í samanburði við vetraráætlun 2022-2023.

Tíðni til fjölda áfangastaða hefur verið aukin og fimm áfangastaðir sem flogið hefur verið til hluta úr ári verða nú heilsársáfangastaðir.

Að auki verður nú í fyrsta sinn boðið upp á dagflug til New York og Boston yfir vetrartímann og verður því flogið allt að 11 sinnum í viku til Boston og 21 sinni í viku til New York í vetur.

„Vetraráætlun okkar hefur aldrei verið umfangsmeiri og það er mjög gleðilegt og til marks um sterka eftirspurn og metnaðarfulla þróun á leiðakerfi félagsins. Icelandair hefur um árabil lagt áherslu á að efla tengingar við Ísland yfir vetrartímann enda er það mikið hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu og atvinnulíf, auk þess sem það gerir okkur kleift að nýta okkar innviði og flugflota betur.

Við erum þess fullviss að farþegar okkar munu taka nýjungum eins og dagflugi til Bandaríkjanna allt árið fagnandi enda gefa þau kost á þægilegum ferðatíma og ótal tengingum út um öll Bandaríkin með samstarfsaðila okkar, JetBlue. Að sama skapi gerum við ráð fyrir að flug til Rómar og Barcelona verði sérstaklega vinsæl í haust og vetur hjá farþegum til og frá Íslandi sem og tengifarþegum yfir hafið,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu, í tilkynningu.

mbl.is