Teygjan slitnaði í teygjustökki

Karlmaðurinn lifði fallið af.
Karlmaðurinn lifði fallið af. Skjáskot

Betur fór en áhorfðist þegar teygja slitnaði í teygjustökki á vinsælum ferðamannastað í Taílandi í janúar. Karlmaðurinn sem lenti í atvikinu er ekki lífshættulega slasaður og segir í viðtali við CNN Travel að það líti frekar út eins og hann hafi lent í slæmum slagsmálum. 

Atvikið átti sér stað í Changthai Tappraya ævintýragarðinum í norðvesturhluta Pattaya. Stökk hann af palli sem er jafn hár og tíu hæða hús. Sem betur fer var pallurinn yfir vatni en teygjan slitnaði þegar hann var rétt fyrir ofan vatnið og skall hann af fullum þunga ofan í það. 

Myndband náðist af atvikinu og vakti mikla athygli. Karlmaðurinn er 39 ára og frá Hong Kong en kom fram undir nafninu Mike í viðtali við CNN Travel. 

„Ég lenti á vintri hliðinni, þannig áverkarnir voru aðallega þeim megin. Það var eins og einhver hefði gengið í skrokk á mér,“ sagði Mike. Hann segist upprunalega bara hafa farið í garðinn til að prófa að skjóta af byssu, hann ætlaði ekki að fara í teygjustökk. 

Hann endaði hins vegar á að finna hugrekkið til þess. „Þetta var rosalega hátt uppi, þannig að ég lokaði augunum. Ég ætlaði að opna augun aftur þegar ég myndi skoppa aftur upp. Ég fattaði að teygjan hefði slitnað þegar ég opnaði augun í vatninu,“ sagði Mike. 

Hann náði að komast upp á yfirborðið og synda þrátt fyrir að fætur hans væru enn bundnar. „Ef manneskjan hefði ekki kunnað að synda hefði hún verið í miklum vandræðum,“ sagði Mike. 

Hann segir garðinn hafa endurgreitt honum fyrir aðgangsmiðann og einnig greitt fyrir röntgenmyndatöku í Taílandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert