Sjá ekki eftir því að hafa flutt til Danmerkur

Sigfús ásamt fjölskyldu sinni þegar yngsta dóttir hans fermdist í …
Sigfús ásamt fjölskyldu sinni þegar yngsta dóttir hans fermdist í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Sigfús Kristjánsson er prestur íslenska safnaðarins í Danmörku. Í ár eru 12 fermingarbörn hjá söfnuðinum. Fermingarbörnin hitta íslenska krakka sem búa í Noregi og Svíþjóð í fermingarfræðslunni.

„Þegar starfið hér í Danmörku losnaði fannst okkur það spennandi tækifæri fyrir fjölskylduna. Við höfum ekki séð eftir því og bæði við hjónin og dætur okkar höfum fundið góðan takt í lífinu hérna. Áður en við komum hingað leiddi ég fræðslu- og kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu og þar áður var ég prestur í Kópavogi í 15 ár,“ segir Sigfús um hvernig það kom til að hann sóttist eftir stöðunni en hann er með vinnuaðstöðu í sendiráði Íslands í Danmörku og hefur starfsskyldur gagnvart því.

„Starf prests hér er fjölbreytt og krefjandi, það felur í sér hefðbundið helgihald eins og messur, sunnudagaskóla og athafnir en einnig er mikið um viðtöl og heimsóknir til Íslendinga í ýmsum aðstæðum, til dæmis á spítala eða fangelsi. Til að nefna dæmi, þá komu um 30 Íslendingar til okkar á opna samveru eftir skotárásirnar í Fields síðasta sumar. Ég er eini starfsmaður safnaðarins og kirkjustarfið gengur vel þar sem við höfum frábæra sóknarnefnd og allir eru tilbúnir að gefa af tíma sínum,“ segir Sigfús.

Hér má sjá fermingarbörn á kvöldvöku í fermingarmóti.
Hér má sjá fermingarbörn á kvöldvöku í fermingarmóti. Ljósmynd/Aðsend

Fara í ferðalag til Svíþjóðar

Fermingarundirbúningurinn er að ákveðnu leyti frábrugðinn því sem börn eru vön á Íslandi. Stór þáttur í fermingarfræðslunni eru sérstakar fermingarbúðir í Svíþjóð.

„Við bjóðum upp á fermingarfræðslu fyrir Íslensk börn búsett í Danmörku. Nú eru tólf fermingarbörn hjá okkur en fjöldinn er misjafn eftir árum. Efni fræðslunnar er það sama og á Íslandi en fyrirkomulag fræðslunnar annað. Mest af fræðslunni fer fram í tveimur helgarferðum, önnur að hausti og hin að vori. Þá förum við með lest til staðar sem heitir Ah Stiftsgaard, sem er rétt hjá Gautaborg. Þar hittum við íslenska krakka sem eru í fermingarfræðslu í Noregi og Svíþjóð. Það myndast oftast frábær stemning á þessum fermingarmótum og við förum heim glöð og þreytt. Síðasta haust voru rúmlega 50 fermingarbörn á mótinu.“

Ferming í Esjas-kirkjunni í Kaupmannahöfn
Ferming í Esjas-kirkjunni í Kaupmannahöfn Ljósmynd/Aðsend

„Milli þessara ferðalaga hef ég fræðslustundir í Jónshúsi og býð upp á heimaverkefni. Við þurfum að vera nokkuð sveigjanleg þar sem öll Danmörk er undir og vegalengdir koma í veg fyrir að hægt sé að kalla hópinn saman. Við fræðumst um trú, en eigum líka samtöl um önnur verkefni lífsins. Þarna er hópur sem nýtur þess að hitta jafnaldra sína og tala saman á íslensku. Síðan ég kom hingað hef ég verið með frábæra fermingarhópa og nú í vor ætla nokkur af fermingarbörnum síðasta árs að koma með í ferðina okkar og hjálpa til sem ungleiðtogar.“

Sigfús segir misjafnt hvar börnin fermist. „Það er alltaf nokkur hluti fermingarbarna hér sem fermist á Íslandi og jafnvel nokkur sem fermast með skólafélögum í dönsku kirkjunni þótt þau vilji taka fræðsluna hjá okkur. Í ár ætlar um helmingur fermingarbarnanna að nýta fermingarmessuna okkar, sem verður á annan í hvítasunnu í Esajaskirkju í Kaupmannahöfn.

Fermingarfræðslan hjá dönsku kirkjunni er að mörgu leyti svipuð okkar en veislurnar oft lengri og mörgum Dönum þykir sjálfsagt að bjóða upp á vín í fermingarveislum, sem við erum ekki vön frá Íslandi,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »