Vann í sex vikur í eina sérskóla Úganda

Sjúkraþjálfunarneminn Eva Kolbrún Kolbeins í Úganda.
Sjúkraþjálfunarneminn Eva Kolbrún Kolbeins í Úganda. Ljósmynd/Aðsend

Sjúkraþjálfunarneminn Eva Kolbrún Kolbeins ákvað að stökkva til er tækifærið gafst og fara í starfsnám til Úganda í febrúar á þessu ári. Eva vann við eina sérskólann í landinu fyrir börn með fötlun og segir það vera aðdáunarvert hversu sjálfbjarga börnin eru. Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til Evu sem stundar nám í Danmörku.  

Eva lýkur námi sínu í sjúkraþjálfun í Álaborg í sumar. Á síðustu önninni stóð til boða að fara í starfsnámið. „Ég held það hafi verið ævintýraþrá sem að sagði mér að ég yrði að nýta tækifærið til þess að fara eitthvert erlendis og prófa eitthvað nýtt,“ segir Eva en hún hafði aldrei áður komið til Afríku.

Í byrjun febrúar var förinni því heitið til höfuðborgar Úganda, Kampala.

Eva fór til Úganda ásamt þremur öðrum nemum.
Eva fór til Úganda ásamt þremur öðrum nemum. Ljósmynd/Aðsend

Eva fór ásamt þremur öðrum nemum. Í Kampala tók dönsk kona við þeim sem aðstoðar nema sem ætla í starfsnám í landinu.

„Það var ansi margt sem var nýtt og kom á óvart,“ segir hún og bætir við að hún hafi orðið fyrir ákveðnu menningarsjokki.

Í því samhengi minnist hún á að Kampala sé mjög fjölbreytt borg. „Sums staðar í borginni var þetta mjög líkt því sem maður þekkir í vestrænum borgum, og svo labbarðu yfir götuna og þá er algjör andstæða,“ segir Eva og bætir við að hún hafi einnig verið mjög meðvituð um eigin fordóma.

Eini sérskólinn í landinu 

Skólinn sem Eva starfaði við heitir Kampala School for Physically Handicapped, eða Kampala skóli fyrir börn með líkamlega fötlun. Skólinn er eini sérskólinn fyrir börn með fötlun í landinu og stunda þar um 100 börn nám. Þá er skólinn einnig með heimavist.

Fötlunin sem börnin eru með er margvísleg en flest eru …
Fötlunin sem börnin eru með er margvísleg en flest eru með meðfædda heilalömun (e. Cerebral palsy). Ljósmynd/Aðsend

Í skólanum er aðstaða fyrir sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun og þá er einnig hjúkrunarfræðingur á svæðinu.

Fötlunin sem börnin eru með er margvísleg en flest eru með meðfædda heilalömun (e. Cerebral palsy).

Í þær sex vikur sem Eva starfaði við skólann sá hún um meðhöndlun níu barna. Vinnudagurinn var frá 9-16 en að sögn Evu byrjaði hann oft síðar þar sem umferðin í Kampala er mjög óútreiknanleg.

Vinnudagurinn var frá 9-16 en að sögn Evu byrjaði hann …
Vinnudagurinn var frá 9-16 en að sögn Evu byrjaði hann oft síðar þar sem umferðin í Kampala er mjög óútreiknanleg. Ljósmynd/Aðsend

Aðdáunarvert hvað börnin eru sjálfstæð 

Hún segir að það sé aðdáunarvert hvað börnin eru sjálfstæð og dugleg að hjálpa hvort öðru. „Ég held að það sé það sem sitji mest eftir, hvað börnin eru dugleg að aðstoða hvert annað.“

Eva segir það hafa verið mjög mismunandi hversu mikið börnin gátu tjáð sig á ensku.

„Stundum var það ansi flókið að reyna að eiga í samskiptum við börnin,“ segir hún og bætir við að þá hafi langoftast einhver annar sem skildi ensku hjálpað til.

Eva segir það hafa verið mjög mismunandi hversu mikið börnin …
Eva segir það hafa verið mjög mismunandi hversu mikið börnin gátu tjáð sig á ensku. Ljósmynd/Aðsend

Í návígi við fjallagórillur 

Eva segist hafa reynt að nýta tímann einnig eins og hún gat til að ferðast og skoða Úganda. Meðal annars ferðaðist hún norður til þess að skoða Murchison-fossanna sem eru einir kraftmestu fossar heims. Þar fór hún einnig í safari og sá fjóra af hinum fimm stóru, svokölluðu.

„Það var magnað að komast í svona mikið návígi við dýrin,“ segir Eva og minnist á að bíllinn hafi þurft að bíða þegar fílahjörð.

Þá fór hún einnig að skoða fjallagórillurnar í  Bwindi Impenetrable-þjóðgarðinum í  suðurhluta Úganda. Eva segir það hafa verið magnað að sjá skepnur sem eru að hluta til svo líkar mannfólkinu en lifa í allt öðru umhverfi.

Eva skoðaði fjallagórillurnar í Bwindi Impenetrable-þjóðgarðinum í suðurhluta Úganda.
Eva skoðaði fjallagórillurnar í Bwindi Impenetrable-þjóðgarðinum í suðurhluta Úganda. Ljósmynd/Aðsend

„Lífið snýst bara um að borða, hvíla sig og vera í návígi við fjölskylduna. Ekkert stress,“ segir hún og bætir við að górillurnar væru ekkert að kippa sér upp við að mannfólkið væri að fylgjast með þeim. „Þær létu bara eins og ekkert væri.“

Að skoða fjallagórillurnar er kostnaðarsamt og segir Eva góða skýringu vera á því þar sem mikið sé lagt upp úr að vernda dýrin og raska sem minnst heimkynnum þeirra. Þá séu ýmsar reglur sem ferðamenn þurfa að fylgja svo sem að bera grímur til þess að koma í veg fyrir að smita dýrin og þá verður fólk að passa að sýna sem minnsta mannlega hegðun, svo sem að borða eða róta í bakpokum. „Maður á bara að standa og fylgjast með. Ekki trufla þeirra hegðun.“

Sem betur fer má þó taka myndir og segist Eva …
Sem betur fer má þó taka myndir og segist Eva vera með fullan síma af myndum og myndskeiðum. Ljósmynd/Aðsend

Sem betur fer má þó taka myndir og segist Eva vera með fullan síma af myndum og myndskeiðum.

Forvitni blaðamanns á fjallagórillunum leynir sér ekki og segist Eva skilja það vel. Spurð hvað skuli gera ef górillurnar sýna ógnandi hegðun segir Eva að þeim hafi verið ráðlagt að gera sig lítil til að sýna undirgefni. „Alls ekki að berja í brjóstkassann og vera eitthvað að djóka með það eins og Tarsan. Það kallar bara á slag,“ segir Eva og hlær.

Þá minnist hún á að á einum tímapunkti byrjuðu allar górillurnar að hreyfa sig. Leiðsögumaðurinn hafi þá leiðbeint hópnum að vera alveg kyrr.

Ljósmynd/Aðsend

„Maður stífnar allur upp af því maður hugsar hvað gerist nú?“ Górillurnar voru hins vegar bara að færa sig en górillan sem var fremst í ákvað að taka aðeins í annan fótinn á leiðsögumanninum og ýta honum frá. Eva segir að ef hún hefði sett höndina fram hefði hún getað snert górilluna. „En ég auðvitað stóð bara og hélt niðri í mér andanum.“

Fyrstu vikurnar erfiðar

Talið berst aftur að starfsnáminu.

Spurð hvort það hafi ekki verið erfitt að sjá aðstæður barnanna og fara í ósjálfráðan samanburð segir Eva að fyrstu vikurnar hafi það verið mjög erfitt.

„Við töluðum við eina sem býr þarna úti og hún útskýrði fyrir okkur að þú eiginlega getur ekki borið saman hvernig samfélagið er á Vesturlöndum og hvernig samfélagið er þarna og ætla bera saman aðstæður barnanna,“ segir Eva og bendir á að svona sé heimur þessarra barna og það sem þau eru vön. Það sé gott að börnin fái að stunda nám við skólann og fái þar aðstoð.

Spurð hvort það hafi ekki verið erfitt að sjá aðstæður …
Spurð hvort það hafi ekki verið erfitt að sjá aðstæður barnanna og fara í ósjálfráðan samanburð segir Eva að fyrstu vikurnar hafi það verið mjög erfitt. Ljósmynd/Aðsend

Hún minnist þó á að meðhöndlun sem börnin fá í skólanum nái aldrei viðmiðum Dana er kemur að meðhöndlun barna sem eru með meðfædda heilalömun. Einungis einn sjúkraþjálfari og einn iðjuþjálfari eru starfandi við skólann og sjá því um 100 börn. Eva nefnir þó að skólinn reiði sig mikið á sjálfboðaliða og nema eins og hana í starfsnámi til þess að halda allri þjálfun og endurhæfingu gangandi.

Eva segist því hafa fundið fyrir gríðarlegu þakklæti á meðan hún vann við skólann. Þá séu Úgandamenn almennt mjög vingjarnlegir og tóku á móti henni brosandi hvert sem hún kom.

„Meðhöndlun og þær leiðir til endurhæfingar sem voru notaðar eru ekki endilega það sem hefur verið mest kennt í skólanum mínum í Danmörku,“ segir Eva og bætir við að nýjasta tækni hafi ekki verið í boði

„Ég mæli með því að fólk prófi að heimsækja aðra …
„Ég mæli með því að fólk prófi að heimsækja aðra menningarheima. Bæði til þess að átta sig á eigin fordómum og forréttindum,“ segir sjúkraþjálfaraneminn Eva að lokum. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir komandi starf lærir maður því að þú þarft kannski ekki alltaf bestu tæknina og bestu græjurnar. Í rauninni þá snýst þetta um að vera í nálægð við einstaklinginn sem þú ert að þjálfa og vera skapandi og finna út úr því hvað það sé sem að maður getur nýtt til þess að aðstoða barnið, og hvað er það sem er mikilvægast fyrir þau,“ segir hún og mikilvægt sé að hjálpa börnunum að verða sjálfstæð í sínum daglegu athöfnum.

„Ég mæli með því að fólk prófi að heimsækja aðra menningarheima. Bæði til þess að átta sig á eigin fordómum og forréttindum,“ segir sjúkraþjálfaraneminn Eva að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert