Hamingjusamasta þjóð í heimi með námskeið í hamingju

Finnland, hamingjusamasta þjóð í heimi.
Finnland, hamingjusamasta þjóð í heimi. Samsett mynd

Finnland sem hefur ítrekað hlotið titilinn „hamingjusamasta þjóð í heimi“ ætlar að dreifa hamingjufræjum sínum og deila uppskriftinni sem liggur á bakvið þetta ljúfa líferni. Það ætla þau að gera í gegnum námskeið sem þau kalla „Masterclass of Happiness.“ 

Tíu heppnir ferðamenn munu fá tækifæri til þess að ferðast til landsins og fá kennslu og þjálfun í því hvernig eigi að uppgötva og losa um eigin hamingju. Þjálfunin fer fram í júní og verður kennt yfir fjóra daga á Kuru Resort á finnska Lakeland–svæðinu. 

Náið samband við náttúruna

„Við trúum því að hamingja Finna stafi af nánu sambandi við náttúruna og jarðbundinn lífstíl okkar,“ sagði Heli Jimenez, yfirmaður alþjóðlegrar markaðssetningar hjá Business Finland. „Við viljum hjálpa fólki að finna sinn innri Finna og ná tökum á finnska hugarástandinu. Fyrir Masterclass–námskeiðið höfum við valið bestu þjálfarana, einn af þeim mest hrífandi stöðum í Finnlandi og þann tíma ársins þar sem maður er umkringdur því stórkostlega útsýni sem fyrirfinnst í finnskri náttúru. Okkur finnst þetta því alveg einstakt tækifæri til að uppgötva eitthvað dásamlegt og dýrmætt.“

Ert þú Finni, innst inni?

Til þess að vera gjaldgengur umsækjandi á námskeiðið þurfa áhugasamir að skrá sig á netinu og klára samfélagsmiðlaáskorun á Instagram eða TikTok. Áskorunin snýst út á það að búa til sitt eigið myndband sem lýsir því hvers vegna viðkomandi vill taka þátt og einnig á að koma því í orð, „hvaða hlutir eru það sem fá þig til að trúa því að þú gætir verið Finni innst inni?“

Umsóknarfrestur er 2. apríl næstkomandi og verða hinir heppnu tilkynntir á Instagram–síðu og TikTok–rás Visit Finland. Þeir sem komast ekki að í þetta skiptið fá þó tækifæri til að læra að upplifa finnsku hamingjuna þar sem Masterclass–námskeiðið verður aðgengilegt á netinu í sumar. 

Finnland hefur setið í efsta sætinu yfir hamingjusömustu þjóðirnar undanfarin fjögur ár samkvæmt World Happiness Report. Í skýrslu þeirra er lagt mat á nokkra þætti og má þar nefna örlæti, samúð, félagslegan stuðning og lífslíkur. 

Visit Finland - sækja um

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert