Vinsæl afþreying ferðamanna veldur miklum skaða

Skoðunarferðir sniðnar að ferðamönnum þar sem þeir sitja á fílsbökum …
Skoðunarferðir sniðnar að ferðamönnum þar sem þeir sitja á fílsbökum og taka inn útsýnið hefur slæm áhrif á heilsu fílanna. AFP

Fílar eru ef til vill þekktir fyrir stærð sína og styrk enda sterkustu spen- og landdýr í heimi. Vinsæl ferðamannaþjónusta í Suðaustur–Asíu hefur þó verið að valda þessari stórkostlegu skepnu miklum skaða á undanförnum árum.

Fílaferðir, skoðunarferðir sniðnar að ferðamönnum þar sem þeir sitja á fílsbökum og taka inn útsýnið, hefur hægt og bítandi afmyndað hryggi dýranna. Myndband frá Wildlife Friends Foundation í Taílandi (WFFT) hefur vakið athygli, en þar má sjá Pai Lin sem er 71 árs gamall fíll.

Hryggur hennar hefur afmyndast hægt og bítandi eftir 25 ára starf í ferðaþjónustu þar sem hún neyddist til að flytja allt að sex ferðamenn á klukkutíma. „Bakið á Pai Lin er enn með sýnileg ör eftir gamla þrýstipunkta. Þessi stöðugi þrýstingur á líkama fíla getur rýrt vef og bein á baki þeirra og valdið óafturkræfum líkamlegum skaða á hryggnum,“ sagði hópurinn.

Vinsælt en skaðsamt

Þessi vinsæla starfsemi miðuð að ferðamönnum víðsvegar um Suðaustur–Asíu hefur valdið aðgerðarsinnum miklum áhyggjum enda eru flestir þeirra á því að um dýraníð sé að ræða þar sem líkami fíla sé ekki gerður fyrir þetta. 

„Pai Lin kom til athvarfsins árið 2006 eftir að hafa starfað í tælenskri ferðaþjónustu,“ sagði Edwin Wiek, forstjóri og stofnandi WTTF, við CNN. „Hún var gefin til okkar af fyrrum eiganda sínum sem fannst hún vera orðin of hægfara og alltaf með verki og gæti þar af leiðandi ekki sinnt starfi sinu vel lengur,“ bætti hann við.

Tom Taylor, verkefnastjóri hópsins, bætti við að bak fíla væri ekki hannað til þess að bera mikinn þunga. „Hryggir þeirra teygja sig upp á við. Stöðugur þrýstingur á hyggjarliðina frá ferðamönnum getur valdið varanlegum líkamlegum skaða eins og sést hjá Pai Lin,“ sagði Taylor.

Saga Pai Lin er mikilvæg!

Wiek sagði að hópurinn væri að deila sögu Pai Lin til þess að vekja athygli á þeirri grimmd sem fílar verða fyrir og minna fólk á að styðja ekki við þessa ferðamannaþjónustu. „Það er mikilvægt að skilja að fílar, ólíkt hestum, eru ekki ræktaðir til að láta ferðast á sér. Þeir eru ekki gæludýr, heldur teknir úr sínum náttúrulegu heimkynnum og haldið við hræðilegar aðstæður,“ sagði hann. 

Síðan Pai Lin fór á athvarfið hefur hún sýnt fram á líkamlegar og andlegar framfarir. „Hún er feitari en þegar hún kom til okkar fyrst,“ sagði Wiek. „En þú getur samt séð lögun hryggjarins mjög greinilega, þetta er líkamleg aflögun sem hún þarf að lifa með, en henni gengur vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert