Hélt útiveislu í Danmörku í sól og góðu veðri

Alexandra Ósk kaus að fermast að fermast í íslensku kirkjunni …
Alexandra Ósk kaus að fermast að fermast í íslensku kirkjunni í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Hin 14 ára gamla Alexandra Ósk Freysdóttir valdi að fermast að íslenskum sið í fyrra en hún býr á Norður-Sjálandi í Danmörku. Erla Súsanna Þórisdóttir, móðir Alexöndru Óskar, segir veisluna hafa verið mjög íslenska þó svo að ákveðinna danskra áhrifa hafi gætt á sólríkum fermingardeginum.

Af hverju valdir þú að fermast í íslensku kirkjunni í Kaupmannahöfn?

„Af því að ég vildi ekki fermast ári seinna eins og bekkjarfélagar mínir í Danmörku. Mig langaði að fermast á íslenskan máta með íslenskum presti og íslenskum krökkum,“ segir Alexandra Ósk sem hefur búið í Danmörku í eitt og hálft ár.

Hvað var skemmtilegast við fermingarfræðsluna?

„Við fórum í tvær fermingarferðir til Svíþjóðar, eina að hausti og eina að vori þar sem við vorum í fermingarfræðslu og hópefli. Við fórum síðan nokkrum sinnum í messu og fræðslu hjá prestinum. Það var skemmtilegast að fara í ferðirnar til Svíþjóðar og eignast nýja vini. Ég þekkti engan fyrir og ég kynntist fullt af íslenskum krökkum sem búa í Danmörku og Svíþjóð. Það var ótrúlega gaman og hópurinn frá Danmörku er mjög samheldinn og við hittumst enn þá og gerum eitthvað saman. Ég eignaðist því góðar vinkonur og við tölum saman á hverjum degi.“

Það var gott veður og hægt að nýta stóran garðinn.
Það var gott veður og hægt að nýta stóran garðinn. Ljósmynd/Aðsend

Skreyttu pallinn með blómum

Hvernig var fermingardagurinn þinn?

„Hann var mjög skemmtilegur og gaman að hitta fjölskyldu og vini. Það var gaman að fermast loksins en ég var búin að bíða lengi eftir því. Ég fermdist í fallegri kirkju í Kaupmannahöfn og athöfnin var persónuleg og skemmtileg. Eftir ferminguna var veisla heima hjá mér. Það var rigning um morguninn en síðan kom sólin og gestirnir gátu setið úti og borðað góðan mat og notið sólarinnar. Það komu frekar margir frá Íslandi en síðan á ég frekar stóra fjölskyldu sem býr í Danmörku sem kom að fagna með mér. Við erum með stóran garð og við skreyttum pallinn með blómum. Gestirnir gátu verið úti þar sem það var frábært veður. Við vorum með heitan og kaldan mat og Oreo-köku í eftirmat.“

Alexandra opnaði pakkana um kvöldið en hún fékk margar fallegar gjafir í fermingargjöf. „Ég fékk ferð til London frá mömmu og pabba. Ég fór með mömmu og bestu vinkonu minni og mömmu hennar til London í september. Ég fékk rosalega margar fallegar gjafir. Ég fékk meðal annars iPad, pening, hálsmen, bækur, hring og armband.“

Hvað stóð upp úr á fermingardaginn þinn?

„Að hitta alla og tala við fólk sem ég hafði ekki hitt lengi. Það var líka mjög gaman að fá gjafir.“

Í hvernig fötum varstu?

„Ég var í fallegum hvítum hlýralausum blúndukjól. Ég var bæði með hælaskó og Nike-strigaskó.“

Íslenski fáninn fékk að njóta sín á veisluborðinu.
Íslenski fáninn fékk að njóta sín á veisluborðinu. Ljósmynd/Aðsend

Nokkrir komu alla leið frá Íslandi

Erla Súsanna segir að það hafi ekkert annað komið til greina en að halda fermingarveislu fyrir dóttur sína Alexöndru Ósk. „Hins vegar vorum við tvístígandi hvort hún yrði á Íslandi eða í Danmörku. Við ákváðum að halda hana í Danmörku þar sem við höfum frábæra aðstöðu til að halda veislu, meðal annars með stóran garð og við vorum nokkuð bjartsýn á gott veður í byrjun júní og okkur fannst hugmyndin um fermingarveislu á sólríkum degi í Danmörku hljóma mjög vel.“

Voruð þið með hefðbundna íslenska fermingarveislu?

„Ég myndi segja að hún hafi verið mjög íslensk, það eina sem var kannski danskt við hana var að það var boðið upp á léttvín og bjór. Við reyndar höfðum svokallað „natmad“ sem Danir hafa mikið í veislum en pabbinn grillaði hinar víðfrægu Lyngby-pylsur. Ég veit að Danir syngja mikið og það er mikið um ræðuhöld en við foreldrarnir héldum stutta ræðu en annars var bara létt og skemmtileg stemning.“

Hverjum var boðið í veisluna?

„Það var blanda af fólki sem býr í Danmörku og Íslandi. Það eru frekar margir úr ættinni sem búa í Danmörku sem komu og sumir þeirra eiga danska maka. Það komu þó nokkrir frá Íslandi sem var sérstaklega gaman, meðal annars besta vinkonan og fjölskylda hennar. Það komu nokkrar bekkjarsystur stelpunnar úr danska bekknum.“

Er Alexandra fyrsta fermingarbarnið á heimilinu?

„Alexandra er frumburðurinn og því fyrsta fermingarbarnið. Það var áfangi að ferma fyrsta barnið og mjög skemmtileg stund. Það er stór stund þegar fyrsta barnið fermist og svolítið fullorðins þar sem mér finnst svo stutt síðan ég fermdist.“

Íslensk fermingarveisla í Danmörku.
Íslensk fermingarveisla í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta reddast“

Var eitthvað stressandi við fermingardaginn?

„Við ákváðum nokkrum dögum fyrir fermingu að panta veisluþjónustu og það var góð ákvörðun. Föðuramma og maðurinn hennar voru búin að vera hjá okkur í nokkra daga og hjálpuðu mikið til við undirbúning. Ég myndi segja að það hafi verið frekar afslöppuð stemning á fermingardaginn en við urðum örlítið stressuð í aðdragandanum þegar við sáum veðurspána en héldum í vonina og þetta íslenska hugarfar „þetta reddast“. Við vorum nefnilega búin að gera ráð fyrir að fólk gæti setið úti og borðað. Við vöknuðum síðan við rigningu en sólin kom svo að lokum.“

Hvað er gott fyrir fermingarforeldra að hafa í huga?

„Satt best að segja þá vorum við frekar afslöppuð og vorum til dæmis ekki búin að ákveða hvað við ætluðum að hafa á boðstólum liggur við viku fyrir fermingu og tókum skyndiákvörðun að panta mat nokkrum dögum fyrir fermingu. Ég mæli hiklaust með veisluþjónustu. Við vorum ekki þau skipulögðustu í öllu ferlinu en þetta hafðist allt að lokum svo dass af kæruleysi er ekki slæmt veganesti svona með öllu hinu en við hefðum alveg mátt vera skipulagðari. Okkur fannst skipta mestu máli að fólki liði vel og að fermingarbarnið myndi njóta sín. Það sem skiptir mestu máli er samveran, afslappað andrúmsloft og gleði. Ytri umgjörð skiptir ekki öllu máli þegar upp er staðið og oft er kannski fólk að verja orkunni sinni og peningum í eitthvað sem skiptir engu máli. Við ræddum líka við dóttur okkar og fengum að heyra hennar óskir sem voru í raun ekki margar enda með eindæmum nægjusöm stelpa og síðan reyndum við okkar besta að gera daginn ógleymanlegan og fallegan.“

Hafið þið farið í danska fermingarveislu?

„Nei, við höfum ekki farið í danska fermingarveislu, ennþá. Ég er gamall dönskukennari og var alltaf með fermingarþema með nemendum mínum og út frá því sem við kynntum okkur eru þær að mörgu leyti ólíkar. Það er til dæmis ein hefð hér sem er frábrugðin en sum fermingarbörn eru sótt í svakalega flottum sportbílum í kirkjuna. Það er meira um ræðuhöld og söngva og leiki. Ég held að fermingarbarnið haldi alltaf ræðu. Oft sitja allir við langborð og borða saman. Það er kannski minna um hlaðborð og veislurnar eru að ég held lengri enda oft haldnar að vori þegar það er gott veður. Það er alltaf boðið upp á áfengi og ég hef heyrt að fermingarbörnin fái stundum í fyrsta sinn að smakka áfengi, það er skála í kampavíni eða eitthvað slíkt en kannski hefur þetta breyst. Ég held að gjafirnar séu látlausari og að börn fái ekki svona háar peningaupphæðir eins og íslensku krakkarnir fá oft en þetta er allt eitthvað sem ég hef heyrt út undan mér og jafnvel hefur einhver breyting orðið þar á,“ segir Erla Súsanna.

Alexandra Ósk ánægð á fermingardaginn í fyrra.
Alexandra Ósk ánægð á fermingardaginn í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert