Sekta ferðamenn á Ítalíu sem taka sjálfsmyndir

Nýjar reglur voru kynntar á dögunum í Positano á Ítalíu.
Nýjar reglur voru kynntar á dögunum í Positano á Ítalíu. Ljósmynd/Unsplash/Dimitry B

Bæjarstjórinn í Positano á Ítalíu kynnti á dögunum nýjar reglur sem gætu gert það að verkum að ferðalangar verði sektaðir fyrir að taka sjálfsmyndir (e. selfies) á ákveðnum stöðum í bænum.

Positano er á Amalfi-ströndinni og hefur lengi fangað auga ferðamanna, enda hafa pastellituð húsin fest sess í listum, bókmenntum og kvikmyndum í gegnum aldirnar. Milljónir gesta flykkjast á ítölsku strendurnar á ári hverju og marga dreymir um að ná hinni fullkomnu sjálfsmynd með einn fegursta stað heims í bakgrunn.

Positano þykir sérlega fallegur og töfrandi áfangastaður.
Positano þykir sérlega fallegur og töfrandi áfangastaður. Ljósmynd/Unsplash/Sergio Otoya

Gætu fengið rúmlega 41 þúsund króna sekt

Hins vegar gætu ferðalangar lent í vandræðum í sumar, en samkvæmt ítalska fréttamiðlinum Il Post hefur bæjarstjórinn í Positano bannað ferðamönnum að dvelja lengi á tveimur af fjölsóttustu stöðum bæjarins. 

Með þessum nýju reglum vonast hann til að takmarka umferðarteppur sem myndast þegar ferðamenn stoppa til að taka myndir, en fram kemur að þeir ferðamenn sem virða ekki reglurnar geti fengið sekt upp á 275 evrur, eða sem nemur rúmlega 41 þúsund krónum á gengi dagsins í dag.

Eins og er þá geta ferðamenn fengið sekt á tveimur stöðum í miðbæ Portofinu, annars vegar á svæðinu milli Piazza Martiti dell'Olivetta og Calata Marconi-bryggjunnar, og hins vegar á svæðinu milli torgsins og almenningssalerna á Umberto I-bryggjunni í suðri. Þessar takmarkanir eru í gildi á milli klukkan 10:30 og 18:00.

mbl.is