Bestu heilsulindirnar í Amsterdam

Amsterdam býður upp á gott úrval heilsulinda.
Amsterdam býður upp á gott úrval heilsulinda. Pexels/Chait Goli

Amsterdam er vinsæll áfangastaður, þekkt fyrir síkin sín, gömlu húsin, hjólreiðar og frjálsræði. Hver kannast þó ekki við að langa til að fríska aðeins upp á sig á meðan á ferðalaginu stendur? 

Condé Nast tók saman bestu heilsulindirnar í Amsterdam sem er þess virði að heimsækja í næstu ferð ykkar til borgarinnar.

Na Thai, Jordaan

Nuddstofan Na Thai er falinn gimsteinn nálægt miðbænum. Stofan býður upp á ýmsar gerðir nudds, allt frá tælensku nuddi upp í djúpvefja- og íþróttanudd. Staðurinn er notalegur og ekki of íburðarmikill. Bekkirnir eru aðskildir með gardínum svo það getur verið einhver hávaði, en starfsfólkið er vingjarnlegt og nuddið er frábært.

Djúpvefjanuddið mun létta á öllum hnútum og spennu, á meðan heitsteinanuddið er sannkallað dekur. Að nuddi loknu er þér boðið upp á vatn eða te, sem þú getur notið í móttökunni á meðan þú tengist hversdagsleikanum á ný.

Ljósmynd/Na Thai

Sauna Deco, Herengracht Canal

Að utan ber ekki mikið á Sauna Deco en um leið og gengið er inn tekur við eins konar Art Deco paradís. Innréttingar voru áður í versluninni Au Bon Marché í París, en voru fluttar þaðan til Amsterdam eftir endurbætur á áttunda áratugnum.

Hér er að finna finnska sánu, infrarauða sánu, heitur pottur, gufubað og verönd þar sem þú getur slakað á. Í búningsklefunum má finna allt sem þú þarft, ásamt því að þar er lítið kaffihús sem býður upp á heimagerðar súpur, ferska safa og salöt.

Heilsulindin er fyrir öll kyn og leyfir ekki sundfatnað. Það eina sem þú tekur með þér er handklæði, sloppur og sandalar. Þú mátt því búast við því að vera nakin í kringum annað nakið fólk.

Ljósmynd/Sauna Deco

Nurian Brow Experts, Oud Zuid

Fallega augabrúnir móta og lífga upp á hvert andlit og er Nina Nurian ein sú besta í faginu í Amsterdam. Stofan býður upp á fjölbreyttar meðferðir, allt frá hefðbundinni litun og plokkun upp í varanlega förðun. Einnig er hægt að fá augnháralyftingu og svokallaða andlitsþræðingu, þar sem þræðir eru notaðir til að fjarlægja hár af andliti.

Í móttökunni eru gluggarnir í lofthæð sem leyfir birtunni að flæða um rýmið. Meðferðirnar fara fram á millihæðinni, þar sem tjöld umlykja hvern stól. Með því færðu það næði sem þarf án þess að missa af fallegri birtunni.

Ljósmynd/Nurian Brow Experts

Renessence, Zuidas

Renessence er vellíðunarvin í steinsteyptum frumskógi fjármálahverfisins. Þegar gengið er inn tekur á móti þér stórt og opið rými með lofthæðarháum gluggum, flauelssófa, plöntum og drapplituðum veggjum. 

Vinalegt starfsfólkið tekur á móti þér með bolla af ilmandi te og útskýrir fyrir þér þær meðferðir sem í boði eru. Meðferðirnar sem er í boði eru allt frá hefðbundnu svæðanuddi upp í ísbað, kuldameðferðir og infrarautt gufubað. Einnig er boðið upp á heita jógatíma og flot.

Ljósmynd/Renessence

House of Rituals, Centrum

House of Rituals er einstök fegurðar- og vellíðunarmiðstöð í miðbæ Amsterdam, en Rituals er hollenskt vörumerki sem var stofnað þar í borg. 

Hér getur þú fundið frið frá iðandi borginni, annaðhvort með því að skoða hið fjölbreytta vöruúrval sem Rituals býður upp á eða með því að fara í mismunandi meðferðir í heilsulindinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert