Bestu matarmarkaðir Lundúna

Camden-markaðurinn í Lundúnum er einn sá vinsælasti.
Camden-markaðurinn í Lundúnum er einn sá vinsælasti. Ljósmynd/Unsplash/Javier Martinez

Enginn skortur er á matarmörkuðum í höfuðborg Bretlands, Lundúnum.

CN Traveller tók saman lista yfir bestu markaðina og hér er brot af því besta. Ef þú ert matgæðingur mikill máttu ekki láta þessa markaði fram hjá þér fara í næstu ferð þinni til borgarinnar.

Berwick Street, Soho-hverfinu

Ekki eru margir matarmarkaðir eftir í miðbæ Lundúna en markaðurinn við Berwick-stræti hefur verið starfandi í um 200 ár. Núna samanstendur hann að mestu leyti af matarbásum sem selja fjölbreytt úrval af mat til að njóta á staðnum. Er markaðurinn þó enn einn besti staðurinn í West End-hverfinu til að kaupa ferskt grænmeti og safaríka ávexti. Einnig er hægt að finna bás sem selur vistvæn egg og lífrænar mjólkurvörur.

Markaðurinn er opinn mánudaga til laugardaga.

Markaðurinn í Berwick-stræti.
Markaðurinn í Berwick-stræti. Ljósmynd/Wikipedia.org/lighterthief

Borough Market, hjá London Bridge

Borough-markaðurinn er einn sá þekktasti í Lundúnaborg. Heimildir eru fyrir því að hér hafi verið matarmarkaður síðan á 12. öld. Núna er þetta einn sá stærsti og besti í borginni til að kaupa ýmsar vörur beint frá handverksframleiðendum. Þar er einnig að finna fjölbreytt úrval veitingabása og bara. 

Hvort sem þú ert í skapi fyrir veganosta, sveppapaté, handveiddan hörpudisk, ís úr geitamjólk eða ítalskar möndlur, þá finnur þú það á Borough-markaðinum. Auk þess að geta fengið breskt grænmeti, osta og kjöt þá er gönguferð um markaðinn eins og ferðalag um heiminn.

Markaðurinn er opinn alla daga.

Borough-markaðurinn.
Borough-markaðurinn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Josep Renalias

Portobello Road, Notting Hill-hverfinu

Markaðurinn við Portobello Road er vel þekktur fyrir antikmuni sína og föt fyrri tíða. Heimamenn vita þó að markaðurinn er einnig frábær matarmarkaður. Hann er opinn alla daga vikunnar en besta úrvalið af matvælum er að finna á föstudögum og laugardögum.

Hér er hægt að versla allt frá brauðmeti og sjávarfangi upp í handgerða osta. Einnig er þar að finna markað sem sérhæfir sig í spænskum matvælum. 

Markaðurinn er opinn mánudaga til laugardaga, auk þess sem á sunnudögum er þar flóamarkaður.

Portobello Road-markaðurinn.
Portobello Road-markaðurinn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Broadway Market, Hackney-hverfinu

Síðan markaðurinn var endurvakinn árið 2004 hefur þessi laugardagsmarkaður orðið að vikulegum áfangastað svangra Lundúnabúa. Ásamt góðu úrvali af blómum, bókum, fatnaði, kertum og skartgripum er þar að finna frábært úrval af básum sem selja fjölbreyttar afurðir. Sem dæmi má taka ólífuolíu, breska osta, kjöt og fisk og brauðmeti.

Markaðurinn er opinn alla laugardaga.

Bás á Broadway-markaðnum.
Bás á Broadway-markaðnum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ridley Road Market, Dalston-hverfinu

Ridley Road-markaðurinn er sannkölluð fjársjóðskista framandi matvæla. Hér er meðal annars hægt að finna heimagert indverskt naan, karabíska og afríska ávaxta- og grænmetisbása, suður-asísk krydd og ýmis konar brauðmeti. Á góðum degi er jafnvel hægt að fá hér risastóra afríska snigla, sem þykja lostæti í Vestur-Afríku.

Markaðurinn er opinn mánudaga til laugardaga.

Ridley Road-markaðurinn.
Ridley Road-markaðurinn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Fin Fahey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert