Osló er spennandi, falleg og blómleg borg með óteljandi margt í boði fyrir ferðaglatt fólk. Fjölbreyttir veitingastaðir, mikilfengleg hótel, skemmtileg söfn og fallegir garðar lita borgina og getur úrvalið gert mörgum ferðalagið erfiðara. Hvar skal borða, gista og hvað skal gera í höfuðborg Noregs?
Ferðavefur mbl.is gerði samantekt sem ætti að vera gagnleg í næsta Oslóar-stoppi.
Sommerro-hótelið tekur þig aftur til þriðja og fjórða áratugarins með veglegum herbergjum og veitingastöðum í fyrsta gæðaflokki. Á hótelinu eru 231 herbergi og svítur sem allir ferðamenn munu einfaldlega falla í stafi yfir og þá sérstaklega söguunnendur. Á Sommero er að finna fyrstu þaksundlaug og hótelverönd Oslóar.
Morgunverður:
Kaffihúsið Kumi er unaðsleg leið til þess að byrja daginn í Osló. Lífræni matsölustaðurinn er bjartur og aðlaðandi og býður upp á ómótstæðilegan mat, svo góðan að þú vilt panta rétt eftir rétt. Belgísku vöfflurnar og panko-steikta blómkálið er ómissandi.
Hádegisverður:
Í hjarta miðbæjar Osló er að finna mathöllina Oslo Street Food. Þar er hægt að velja á milli mismunandi matarbása með brögðum frá öllum heimshornum. Auk þess býður Oslo Street Food upp á fjölbreytta menningarupplifun og síbreytilegt skapandi umhverfi.
Í mathöllinni eru 16 matarbásar og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda úrval af grænmetis-, vegan-, og glútenlausum valkostum. Mathöllin er líka einn fjölsóttasti næturklúbbur borgarinnar á föstudags- og laugardagskvöldum.
Kvöldverður:
Þeir sem eru í leit að hinni fullkomnu blöndu af afslöppuðu andrúmslofti og heimsklassa matreiddum réttum þurfa ekki að leita lengra en á veitingastaðinn Brutus. Staðsettur í Tøyen, Brutus er náttúruvínbar og veitingastaður undir norrænum áhrifum. Yfirmatreiðslumaðurinn er Arnar Jakob Guðmundsson.
Gufubað er lífstíll í Osló. KOK er alveg einstök upplifun en þau bjóða upp á fljótandi gufuböð út á firðinum og leyfa gestum sínum að hitna eins lengi og þau hafa tök á. Gestir kæla sig niður með stökki í kalda vatnið sem liggur rétt út fyrir dyrnar.
Samgöngusafnið í Osló (e. Oslo Transportation Museum) hýsir stærsta safn þjóðarinnar af gömlum sporvögnum og strætisvögnum og geta því allir bílaáhuga- og sögumenn fundið ýmislegt áhugavert þar.