Svona eru herbergin sem þjóðarleiðtogarnir gista á

Samsett mynd

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram í miðborg Reykjavíkur í dag og á morgun. Þá verður svæðið næst Hörpu lokað almenningi auk víðtækra götulokana í miðborginni, en háttsettustu gestirnir gista á Reykjavík Edition-hótelinu við Hörpu. Hótelið var valið eitt besta hótelið í Reykjavík af CNN Travel. 

Reykjavík Edition er fimm stjörnu lúxushótel sem var opnað haustið 2021. Það var hannað undir leiðsögn ISC design í samstarfi við íslensku arkitektastofuna T.ark og Roman and Williams í New York.

Alls eru 253 herbergi og svítur á hótelinu, barir, veitingastaður, kaffihús, næturklúbbur og heilsulind svo eitthvað sé nefnt. Þá eru 13 mismunandi herbergi og svítur í boði, en látlaus og fáguð hönnun einkennir þau öll. 

Stílhreint og fágað yfirbragð

Hlýleg litapalletta og náttúrulegur efniviður eru í forgrunni herbergjanna sem skapar afslappaða lúxusstemningu. Þar má sjá ljósgráa eik, kopar, listaverk og sérsmíðuð húsgögn sem falla einstaklega vel inn í rýmin. 

Gólfsíðir gluggar ljá herbergjunum mikinn glæsibrag, en frá sumum herbergjanna er stórkostlegt útsýni yfir nærliggjandi umhverfi eins og Reykjavíkurhöfnina og glæsilegan glerhjúp Hörpunnar sem Ólafur Elíasson hannaði.

Baðherbergin eru afar stílhrein þar sem ljósir litir eru í aðalhlutverki. Þá gefa dökk blöndunartæki rýmunum skemmtilegan karakter.

Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
Ljósmynd/Editionhotels.com
mbl.is