„Snýst meira um ferðalagið sjálft en áfangastaðinn“

Hjónin Ásdís Rósa Baldursdóttir og Kristján Gíslason keyrðu um Ísland …
Hjónin Ásdís Rósa Baldursdóttir og Kristján Gíslason keyrðu um Ísland á mótorhjóli sumarið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Þegar hann kom heim úr einni mótorhjólaferð sinni var Kristján Gíslason breyttur maður. Eftir 48.000 kílómetra akstur um allan heim, sem nánast allir voru keyrðir án ferðafélaga, upplifði hann auðmýkt og þakklæti gagnvart lífinu. Í kjölfarið komst hann að því að það er ferðalagið sjálft en ekki endilega áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli.  

Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á ákváðu Kristján og kona hans, Ásdís Rósa Baldursdóttir, að fara í mótorhjólaferð um Ísland. Þetta var sumarið 2020 og eftir 7000 kílómetra á 40 dögum höfðu hjónin séð land og þjóð í nýju ljósi.

Fyrsti þáttur í nýrri þriggja þátta heimildamyndaröð þeirra hjóna um ferðalagið verður sýndur um hvítasunnuna á RÚV, nánar tiltekið þann 28. maí næstkomandi, og verða hinir tveir sýndir tvo sunnudagana þar á eftir.

Hringfarinn verður frumsýndur á RÚV um Hvítasunnuna.
Hringfarinn verður frumsýndur á RÚV um Hvítasunnuna. Ljósmynd/Aðsend

Nálægðin við náttúruperlurnar sérstaða Íslands 

Eftir öll ferðalög sín um heiminn segist Kristján vera búinn að átta sig á afgerandi sérstöðu Íslands.

„Hér búum við í svo mikilli nálægð við náttúruperlurnar okkar; fjöllin, fossana, jöklana, árnar, brimið, hverina og jafnvel eldgosin. Þú getur séð nánast allar tegundir af náttúrufyrirbrigðum á einum degi. Það er ekki hægt á mörgum stöðum í heiminum. Önnur sérstaða er að hér eru skógar ekki að byrgja okkur sýn. Það getur verið mjög þrúgandi að ferðast um heilu landssvæðin sem eru skógi vaxin og eina leiðin til að njóta náttúrunnar er frá ákveðnum útsýnisstöðum. Þetta óhefta sjónræna aðgengi á náttúruna okkar er vanmetin auðlind að mínu mati.“

Ljósmynd/Aðsend

Þakklát fyrir frelsið eftir strangar takmarkanir

„Við ákváðum að taka góðan tíma í að ferðast um landið þetta sumarið eftir að sóttvarnaryfirvöld heimiluðu það. Við ákváðum líka að ef veðurspáin fram undan væri ekki góð myndum við koma hjólinu í geymslu, fljúga til Reykjavíkur og koma svo til baka þegar veðrið yrði orðið gott. Þetta gerðum við á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri,“ segir Kristján.

Varð þetta til þess að þau hjónin fengu aðeins einn rigningardag af þeim 40 dögum sem þau voru á ferð um landið. Sáu þau því landið og náttúruperlur þess í kjöraðstæðum og segir Kristján að það hafi gert heildarupplifunina einstaka.

Ásdís og Gunnsteinn Rúnar Gíslason, fyrrverandi kaupfélagsstjóri í Norðurfirði á …
Ásdís og Gunnsteinn Rúnar Gíslason, fyrrverandi kaupfélagsstjóri í Norðurfirði á Ströndum. Ljósmynd/Aðsend

Allir hafa einhverja sögu að segja

„Frelsið sem fólst í því að fá að ferðast eftir strangar samkomutakmarkanir um veturinn var svo þakkarvert og kallaði fram töfrandi andrúmsloft meðal allra,“ segir Kristján. Lýsir hann því að það hafi þótt eðlilegt að byrja að spjalla við ókunnugt fólk og á einum tímapunkti hafi þau hjónin verið komin heim til fólks í kaffi og veitingar.

„Þar lærðum við að allir hafa sögu að segja.“

Kristján segir að ein af eftirminnilegustu sögunum sem hann heyrði var sú af hjónum sem sögðu þeim frá því að maðurinn hafði eignast þrjú börn með þremur konum á sama árinu. „Hvernig þau sögðu frá þessu og hvernig þau unnu úr málinu var svo aðdáunarvert. Þarna var öllu lífi fagnað og verið að dvelja við mál sem engu skipta í heildarmyndinni - lífinu,“ segir Kristján og bætir því við að þessi saga verði þeim ógleymanleg.

Ferðalagið er oft meiri upplifun en áfangastaðurinn sjálfur.
Ferðalagið er oft meiri upplifun en áfangastaðurinn sjálfur. Ljósmynd/Aðsend

Tilhneiging sé að einblína á áfangastaðinn en ekki ferðalagið

Kristján segir að fólk hafi þá tilhneigingu að koma sér sem fyrst á áfangastað þegar það ferðast.

„Fyrir mörgum árum, þegar við Ásdís vorum á leiðinni norður á Akureyri í sumarfrí, stoppuðum við á Blönduósi til að nærast. Allt í einu áttuðum við okkur á því að við þekktum Húnavatnssýsluna ekkert. Við fórum aldrei alla leið norður heldur eyddum sumarfríinu í Húnavatnssýslunni þar sem við uppgötvuðum marga merkilega staði.“

Kristján segir að þarna hafi þau lært gildi þess að hægja á sér þegar þau ferðast og að eftir þessa reynslu megi segja að öll þeirra ferðalög snúist núna um ferðalagið sjálft en ekki áfangastaðinn.

Sumarið 2020 ákváðu hjónin svo að fara sér enn hægar yfir og njóta. Kristján tekur sem dæmi þegar þau voru komin á Stykkishólm hafi þau hjónin ákveðið að keyra til baka fyrir Snæfellsnesið því sólin þar skein svo skært. Með því að keyra til baka sömu leið og þau voru nýbúin að fara fengu þau nýja sýn á landslagið og lýsir Kristján því að oft og tíðum er eins og maður sé á öðru landsvæði bara við það að aka í gagnstæða átt.

„Um leið og maður einbeitir sér að því að njóta ferðalagsins, frekar en að koma sér alltaf beint á áfangastað, breytist hugsunin og skilningarvitin opnast. Þú ferð að sjá hluti sem þú hefðir aldrei áður tekið eftir, jafnvel heyrt ný hljóð eða fundið nýja lykt,“ segir Kristján.  

 Kristján tekur sem dæmi þegar þau hjónin fylgdust með stórum ísjökum á Jökulsárlóninu í nokkrar klukkustundir brjóta sig lausa og fljóta niður lónið út á haf. “Þeir kútveltust og mynduðu kyngimögnuð form sem gerði mann agndofa af hrifningu,” lýsir Kristján. Einnig segir hann að við það að stoppa og virða fyrir sér mosa opnist annar undraheimur. 

 „Allt þetta gerist við það eitt að hægja á sér.“

Kristján og Guðjón Halldórsson frá Mjóafirði.
Kristján og Guðjón Halldórsson frá Mjóafirði. Ljósmynd/Aðsend

Ferðalögin ákveðin andleg upplifun 

Eftir að hafa hjólað 48.000 kílómetra á framandi slóðum um heiminn, að mestu leyti einn með sjálfum sér, leið Kristjáni eins og ferðin hafi orðið að eins konar pílagrímsferð. Alls kyns hugsanir spruttu upp í höfðinu á honum og fylltist hann óumræðanlegu þakklæti fyrir lífinu, fjölskyldunni, foreldrunum, systkinunum, tengdaforeldrunum, vinum og svo framvegis. Lýsir Kristján þessu sem eins konar andlegri upplifun. 

„Það varð ákveðin uppljómun hjá mér þegar ég áttaði mig á því hversu stórkostlegur heimurinn er, svo ég tali nú ekki mannfólkið sem í honum býr. 99,9% af öllu því fólki sem ég hafði hitt var ekki bara gott fólk, það var hreint út sagt frábært. Eftir þetta heimsferðalag mitt, þar sem ég hafði farið í gegnum 35 lönd í fimm heimsálfum, kom ég heim breyttur maður, auðmjúkur og þakklátur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ferðalög mín um heiminn hafa þroskað mig og aukið lífsgæði mín á svo margan hátt.“

Ásdís Rósa við Klifbrekkufossa.
Ásdís Rósa við Klifbrekkufossa. Ljósmynd/Aðsend

Öll innkoma rennur til góðgerðamála

Kristján hefur skrifað tvær bækur og framleitt 13 heimildamyndarþætti um ferðalög sín um heiminn. Allt andvirði, ekki bara hagnaðurinn, af sölu bókanna og sýningarréttarins fer í Styrktarsjóð Hringfarans. Sjóðurinn er góðgerðarsjóður sem hefur úthlutað 17 milljónum króna til forvarnarverkefna vegna eiturlyfjaneyslu íslenskra ungmenna og fimm milljónum til Broskalla-verkefnsisins svokallaða. Það verkefni er háþróað kennslukerfi sem er upprunnið í Háskóla Íslands og stuðlar að menntun afrískra barna.

„Bráðlega munum við fara í nýja úthlutun því það hefur gengið vel að selja bækur á fyrirlestrum sem ég held hjá fyrirtækjum og alls kyns félagssamtökum,“ segir Kristján.

Kristján lýsir því að það hafi verið þeim hjónunum mjög gefandi að starfa með öllu þessu góða fólki sem lætur gott af sér leiða á þessum sviðum. Þetta sé þeirra umbun og trúin að það sem þau gera skipti máli.

mbl.is