Góð leið til að kynnast nýju fólki

Gönguhátíðin í Reykjavík verður haldin í þriðja sinn dagana 30. …
Gönguhátíðin í Reykjavík verður haldin í þriðja sinn dagana 30. maí – 3. júní. Samsett mynd

Gönguhátíðin í Reykjavík verður haldin í þriðja sinn dagana 30. maí – 3. júní. Lýðheilsuhátíðin státar af fjölbreyttum göngum um og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið en í ár verður hátíðin með aðeins öðru sniði en áður. 

„Það var ákveðið að hafa enga fasta dagskrá í ár enda hefur veðrið leikið okkur grátt undanfarið. Það verða bæði léttari göngur innan höfuðborgarsvæðisins og svo örlítið erfiðari með meiri hækkun, kannski í kringum Esjuna eða eitthvað af þessum fellum í upplandinu,“ segir Einar Skúlason, göngustjóri hátíðarinnar. „Við þurfum að meta aðstæður eftir veðri og vindum.“

Eitthvað fyrir alla 

Boðið verður upp á fjölbreyttar göngur og kostar ekkert að taka þátt. Fyrirvari á göngur verða einn til tveir dagar og það er búist við um átta til tíu pop-up göngum og eitthvað fyrir öll getustig. „Við erum að reyna að auka hreyfingu fólks og sömuleiðis kynna það fyrir nýjum stöðum.“

„Það var ákveðið að hafa enga fasta dagskrá í ár …
„Það var ákveðið að hafa enga fasta dagskrá í ár enda hefur veðrið leikið okkur grátt undanfarið,“ segir Einar Skúlason, göngustjóri hátíðarinnar. „Við þurfum að meta aðstæður eftir veðri og vindum.“ Ljósmynd/Einar Skúlason

Einar leiðir í kringum fimm til sex göngur á viku og segir þetta frábæra leið til þess að kynnast fólki. „Maður hefur kannski enga sérstaka yfirsýn þegar kemur að paramyndun þegar maður leiðir margar göngur í hverri viku. Ég hugsa að það sé betra að líta á þetta sem góða leið til þess að eignast vini og kunningja. Maður veit samt aldrei hvert það getur leitt,“ segir hann. 

„Tengslamyndun er aldrei betri en úti í náttúrunni. Að deila reynslunni og upplifa eitthvað fallegt saman. Þá verða til mjög sterk tengsl.“ Ef einhverjir göngugarpar enda á að finna ástina, þá segir Einar það einfaldlega vera bónus. 

„Tengslamyndun er aldrei betri en úti í náttúrunni.“
„Tengslamyndun er aldrei betri en úti í náttúrunni.“ Ljósmynd/Einar Skúlason

Kíktu endilega

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er á bak við Gönguhátíðina í Reykjavík og vilja endilega sjá sem flesta. „Alls ekki vera feiminn, það er skemmtilegast að mæta bara einn. Ekki látra það aftra þér ef að vinur eða fjölskyldumeðlimur hefur ekki tíma eða tök til að koma með þér. 

Ef þú kemur þá kynnistu fleirum og ég hvet alla til þess að stíga yfir þröskuldinn og mæta. Við lifum bara einu sinni og það er bara að láta vaða,“ segir Einar. 

Nánari dagskrá má finna á Facebook–síðu hátíðarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert