Hvað má og hvað má ekki taka af hótelherberginu?

Ljósmynd/Pexels/Pixabay

Hefur þú gerst sek/ur um að taka litlu sjampóflöskurnar með þér heim af hótelherberginu? Ef svo er þá ert þú ekki ein/n um það, en um 73% bandarískra ferðamanna viðurkenna að hafa tekið snyrtivörur með sér heim eftir dvölina.

Nýverið fór Mehmet Erdem, dósent í hótelrekstri við háskólann í Nevada, í viðtal hjá Travel + Leisure þar sem hann fór yfir hvað má og hvað má ekki taka með sér heim af hótelherberginu.

Erdem segir að það sé í lagi að taka snyrtivörur eins og sápu og sjampó með sér heim. Þá sé einnig í lagi að taka einnota inniskó, penna, blýanta og minnisblöð af hótelherberginu. 

Hins vegar er ekki í lagi að taka hluti eins og rúmföt, handklæði og koddaver. „Einnig gera sumir gestir ranglega ráð fyrir því að þeir megi taka bækur og tímarit sem eru á herbergjunum, en það má í flestum tilfellum ekki,“ sagði Erdem.

Sturtuhausar og ítalskar marmaraflísar

Hann segir einnig algengt að gestir pakki „óvart“ með sér hlutum eins og hárþurrku og straujárni sem megi ekki taka af herberginu. 

En það eru ekki bara hárblásarar og handklæði sem hótel þurfa að hafa áhyggjur af að gestir taki með sér, en að sögn Erdem hefur hann heyrt um gesti sem hafa fjarlægt sturtuhausa og jafnvel ítalskar marmaraflísar úr herbergjum fyrir brottför, en það telst einfaldlega sem þjófnaður.

Það eru dæmi um það að gestir hafi þurft að afplána fangelsisdóm fyrir þjófnað, en það var til dæmis kona sem sat inni í fangelsi í þrjá mánuði fyrir að stela tveimur handklæðum frá Transcorp Hilton Abuja-hótelinu í Nígeríu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert