Æskudraumurinn rætist í sumar

Ragga Holm er spennt fyrir sumrinu.
Ragga Holm er spennt fyrir sumrinu. Aðsend mynd

Rapparinn og útvarpsstjarnan Ragga Holm ætlar að láta æskudrauminn rætast í sumarfríinu en hún er á leið á Beyoncé-tónleika í Póllandi í júní með kærustunni sinni. Það gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig að kaupa miðana.

Ragga lýsir því að þegar miðasalan hófst hafi hún strax farið í rafrænu röðina til að ná miðum. Fékk hún upp að hún væri númer 1500 í röðinni og hafði áhyggjur af því að draumurinn væri nú úti. Þegar hún frétti hins vegar að vinkona hennar, sem fór í röðina nokkrum mínútum á eftir Röggu, væri númer 30 þúsund í röðinni hafði Ragga litlar áhyggjur af því að fá ekki miða.

Mikið tónleikasumar fram undan

Þetta verða þó ekki einu tónleikarnir sem Ragga ætlar sér á því hún ætlar að ljúka sumrinu með Blink 182 tónleikum í september. „Sumarið á Íslandi verður kannski búið en ég þurfti að fá að kasta þessu með,“ segir Ragga og hlær.

Þar fyrir utan verður Ragga meira og minna að spila í brúðkaupum í allt sumar. „Það er brúðkaupsvertíð og því mikið að gera í slíkum giggum, sem eru alltaf mjög skemmtileg,“ segir Ragga.

mbl.is