Fyrsta áætlunarflug Icelandair til Prag

Í morgun fór fyrsta áætlunarflug Icelandair til Prag í Tékklandi.
Í morgun fór fyrsta áætlunarflug Icelandair til Prag í Tékklandi.

Fyrsta áætlunarflug Icelandair til Prag í Tékklandi fór í loftið frá Keflavíkurflugvelli í morgun. Við lendingu í Prag fengu farþegar höfðinglegar móttökur þar sem slökkvibílar sprautuðu hinum hefðbundna heiðursboga yfir flugvélina þegar hún ók upp að flugstöðinni.

Prag er sögufræg borg og sívinsæl fyrir borgarferðir og bætist því við áhugaverður áfangastaður í sterkt leiðarkerfi Icelandair bæði fyrir tengifarþega og Íslendinga. Flogið verður til borgarinnar fjórum sinnum í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum út október 2023.

„Prag er spennandi viðbót við okkar öflugu sumaráætlun. Borgin hefur upp á margt að bjóða meðal annars hvað varðar menningu, listir, sögu og matargerð. Við sjáum mikil tækifæri í að bjóða morgunflug til Prag sem tengist vel inn í Norður-Ameríku flugið okkar.

Sem stendur eru fáar flugtengingar frá Prag til Bandaríkjanna og Kanada og munum við því stórbæta tengingar á milli þessara markaða auk þess að bjóða upp á þægilega brottfaratíma milli Íslands og Prag,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert