Sala hefst á fyrstu rafknúnu flugferðunum

Skandinavíska flugfélagið SAS.
Skandinavíska flugfélagið SAS. AFP

Skandinavíska flugfélagið SAS mun á morgun hefja sölu á farmiðum í fyrstu flugferðir sínar með rafknúnum flugvélum. 30 sæti verða í boði í fyrstu þremur flugferðunum en miðaeigendur munu hvorki vita hvaðan né hvenær þeir fljúga því flugvélarnar hafa ekki enn verið smíðaðar.

SAS áætlar að fyrstu rafknúnu flugvélarnar fari í loftið árið 2028. Þó er enn nokkur óvissa þar sem vélarnar eru enn á hönnunarstigi. Flugfélagið segist vera með mörg verkefni í gangi í átt að kolefnislausum flugferðum og enn á eftir að taka endanlega ákvörðun um hvernig flugvélar verði á endanum notaðar í fyrstu rafknúnu flugferðir félagsins.

Flugmiðana verður hægt að bóka á vefsíðu SAS og verða þeir seldir í gjaldmiðlum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Upphæðin er sú sama, 1.946 krónur, og óháð því hvort greitt sé í norskum, sænskum eða dönskum krónum. Er upphæðin valin til að minnast ársins sem SAS byrjaði að fljúga. Dagsetningar og staðsetningar flugferðanna verði tilkynntar með tölvupósti þegar ákvörðun hefur verið tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert