Lítil ráð sem skipta miklu máli á ferðalagi

Það er margt sem hægt er að gera til þess …
Það er margt sem hægt er að gera til þess að fá sem mest út úr fríinu. Unsplash.com/Elaine Tu

Það leynast oft ráð undir rifi hverju. Á ferðalögum er gott að luma á ýmsum smáráðum sem geta gert lífið eilítið þægilegra.

1. Hraðbankinn

Ef þú þarft að taka út úr hraðbanka þá skaltu velja að taka út óvenjulega upphæð sem kallar á að þú fáir þá úrval af ólíkum peningaseðlum. Það er nefnilega oft gott að hafa smærri seðla ef búðir eða götusalar geta ekki skipt stærri seðlum.

2. „Googlaðu“ glæpina

Margir mæla með því að þú aflir þér upplýsinga um þá helstu smáglæpi sem tíðkast á svæðunum. Þá er ólíklegra að þú fallir fyrir svindlurum eða vasaþjófum.

3. Taktu með regnjakka

Það er best að hafa alltaf léttan regnjakka með í för. Rigningardagar eru best nýttir til þess að sjá vinsæla ferðamannastaði sem jafnan eru pakkaðir af fólki.

4. Nestispokar

Það er sniðugt að taka með sér litla nestispoka með rennilás því maður á oft eitthvað afgangs eftir máltíðir eða kaffihúsaferðir sem hægt er þá að kippa með sér. 

5. Vegabréf 

Taktu mynd af vegabréfinu og geymdu á vísum stað í símanum. Þá geturðu geymt það á öruggum stað á hótelinu meðan þú flakkar um borgina. 

6. Aldrei taka með glænýja strigaskó

Það er mikilvægt að vera búin/n að ganga til alla skó áður en maður fer í ferðalag. Best er að taka með gömlu góðu strigaskóna svo að maður fái ekki hælsæri eða blöðrur á fæturna.

7. Klósett á bókasöfnum

Ef þú ert á flakki og þarft á klósettið þá er best að leita uppi almenningsbókasöfn frekar en almenningssalerni. Salernin á bókasöfnum eru oftast mjög hrein og fín.

8. Vaknaðu við sólarupprás

Besta leiðin til þess að upplifa annars konar stemningu er að vakna fyrir allar aldir og fá sér göngutúr um auð strætin. Þannig nýtur maður kyrrðarinnar og fegurðar borgarinnar áður en allt fer af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert