Fáfarin leið í mögnuðu landslagi

Hlaupagarpar í Pósthlaupinu í fyrra.
Hlaupagarpar í Pósthlaupinu í fyrra.

Skráning er hafin í Pósthlaupið sem haldið verður í Dalabyggð þann 29. júlí næstkomandi. Fuglasöngur í dalnum og niðurinn í Haukadalsá munu fylgja hlaupagörpum frá Hrútafirði yfir í Búðardal eftir gamalli póstleið. Þátttakendur hafa val um þrjár vegalengdir: 7 km, 26 km eða 50 km.

Skráningin fer fram á hlaup.is en þátttökugjald rennur óskipt til Björgunarsveitarinnar Óskar og Ungmennafélagsins Ólafs pá í Búðardal. Þetta er í annað sinn sem Pósthlaupið er haldið. Ingibjörg Jóhannsdóttir og Kristján Ingi Arnarsson í Dalabyggð sjá um viðburðinn fyrir vestan í samstarfi við Póstinn.

„Svona stór hlaup eru nýjungar á okkar svæði og virðumst við hafa hitt á frábæra leið. Leiðin sem er farin býr einnig yfir mikilli sögu og farið er um svæði þar sem er landslagið er magnað. Eins er þessi leið ekki í alfaraleið eða í mikilli notkun í dag og því ekki margir sem hafa farið hana áður. Pósthlaupið er því tilvalið tækifæri til að berja hana augum. Þetta er ekki erfið leið, þ.e. hækkunin er samtals um 600 metrar og hæsti punktur í Haukadalsskarði, eftir það liggur leiðin að mestu niður á við.

Þá eru styttri vegalengdir hlaupsins ekki síðri upp á útsýni og umhverfið að gera. Það er því einnig nokkuð úrval í boði í Pósthlaupinu fyrir hlaupara eftir reynslu og getu hvers og eins, með öðrum orðum eitthvað við allra hæfi. Á svæðinu sjálfu, það er í sveitarfélaginu Dalabyggð, er einnig að finna marga sögustaði, ýmsa afþreyingu og fallega staði til að heimsækja.“

Hlaupaleiðin er glæsileg.
Hlaupaleiðin er glæsileg.

Þátttökugjöldin renna annars vegar til Björgunarsveitarinnar Óskar og hins vegar Ungmennafélagsins Ólafs pá. Hvernig verður styrkurinn nýttur?

„Styrkurinn í fyrra var nýttur upp í kaup á nýjum björgunarbíl af gerðinni Dodge RAM3500 hjá Björgunarsveitinni Ósk og til uppbyggingar á aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í heilsueflingarhúsnæði Ungmennafélagsins Ólafs pá. Það hefur verið á döfinni að endurnýja ýmsan búnað hjá björgunarsveitinni svo að öllum líkindum færi næsti styrkur í tækja- og búnaðarkaup hjá þeim. Varðandi ungmennafélagið er vilji til að styðja frekar við íþróttastarfsemi barna og ungmenna í héraðinu og því yrði styrkurinn nýttur til þessa.“

Hvernig verður dagskráin?

„Við fengum styrk úr Menningarmálaverkefnasjóði Dalabyggðar til að standa fyrir viðburði til minningar um landpósta í héraðinu. Þá verður m.a. þrautabraut þar sem keppnisþrautir herma eftir vinnulagi landpósta fyrr á tímum, s.s. bera eða lyfta ákveðnum þyngdum. Einnig verður sett upp sögusýning í húsnæði Póstsins í Búðardal þar sem segir og sýnir frá hlutverki og störfum landpósta í Dalabyggð. Tækjabúnaður björgunarsveitarinnar verður til sýnis að hlaupi loknu og þennan dag verður einnig leitað til íþróttafélaga varðandi þátttöku í dagskránni svo það verður ýmislegt um að vera.“

Hvað stendur upp úr í ykkar huga í tengslum við Pósthlaupið?

„Það var einstaklega skemmtilegt að koma að skipulagi hlaupsins með Póstinum og frábær endapunktur verkefnisins að taka á móti hressum þátttakendum í marki og gleðjast með þeim og öðrum gestum. Það gaf öllum þátttakendum í héraði, hvort sem þeir stóðu í gæslu á leiðinni eða hlupu með, mikið að fá að vera partur af þessu verkefni. Gott veður, skemmtilegt fólk og mikil ánægja með hlaupið í heild er það sem stendur klárlega upp úr.“

mbl.is