Fjallgöngubann á Balí mögulega í vændum

Mögulega verður ekki lengur hægt að njóta sólsetursins á Balí …
Mögulega verður ekki lengur hægt að njóta sólsetursins á Balí af fjallstindum eyjunnar. Unsplash

Yfirvöld á indónesísku eyjunni Balí íhuga að setja bann á allar fjallgöngur á eyjunni. Ástæðan er vanvirðing og ruddaleg framkoma ferðamanna á eyjunni og er nýjum reglum sem kynntar voru af yfirvöldum ætlað að taka á áralangri slæmri hegðun ferðamanna á eyjunni.

Ef reglurnar verða samþykktar er áætlað að ferðamenn sem koma til Balí muni fá skjal þar sem þeim er ráðlagt að klæðast viðeigandi fatnaði í musterum eyjunnar, ásamt því að forðast að snerta heilög tré, blóta á almannafæri eða trufla hefðbundnar athafnir. Áhrifamesti þáttur reglnanna yrði eflaust bann við fjallgöngum sem eru vinsæl afþreying. Á eyjunni er umsvifamikil ferðamannastarfsemi sem gengur út á að fara með ferðamenn í slíkar göngur.

Í viðtali við National Geographic segir dósent í ferðamálafræði við háskólann á Balí að margir ferðamenn skilji ekki hversu mikil áhrif þeir geta haft á eyjuna með hegðun sinni, en samkvæmt indónesískri trú eru fjöll talin heilög og heimili hindúaguða. Meðal þess sem heimamönnum líkar ekki er frjálslegur klæðnaður ferðamanna, hávær samtöl þeirra og að þeir virði ekki helga staði eyjunnar og trufli þar með andlegt jafnvægi eyjunnar. 

mbl.is