Það er óhætt að segja að bandaríska leikkonan og sæti litli lygarinn, Shay Mitchell, kunni að ferðast með stæl. Leikkonan kann einnig að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama en hún hleypti af stokkunum vörumerkinu BÉIS árið 2018. Vörumerkið inniheldur ómissandi hluti fyrir ferðalagið.
Nýjasta vörulína BÉIS, Commuter Collection, kom út á þriðjudag og í tilefni þess gaf Mitchell nokkur góð pökkunarráð enda getur það reynst mörgum algjör hausverkur að pakka niður í tösku fyrir ferðalagið.
„Ég hef mikla trú á skiptipokum (e. packing cubes). Þegar ég prófaði þá fyrst, breyttist allt og hef ég aldrei litið til baka eftir það,“ sagði leikkonan. Skiptipokar eru hjálplegir til að skipuleggja farangurinn fyrir ferðalögin og flokka fatnað, skó, nærföt og fleira. „Kynntu þér vel staðinn sem þú ert að fara að heimsækja. Þá getur þú pakkað í samræmi við aðstæður og ekki tekið endalausan óþarfa með,“ útskýrir Mitchell.
Vörumerki leikkonunnar hefur náð gífurlegum vinsældum á síðastliðnum árum. Meðal viðskiptavina BÉIS eru Hollywood-stjörnurnar Jessica Alba, Meghan Trainor, Ariana Madix og Hailey Bieber, en þær hafa allar sést með ferðatöskur úr vörulínum BÉIS.