Lúsafaraldur í Las Vegas

Veggjalúsin hefur tekið sér bólfestu á nokkrum af helstu hótelum …
Veggjalúsin hefur tekið sér bólfestu á nokkrum af helstu hótelum í Las Vegas. Samsett mynd

Syndaborgin Las Vegas á við vandamál að stríða sem gæti haft í för með sér umtalsverða röskun á ferðaþjónustu á þessum vinsæla ferðamannastað eyðimerkurríkisins Nevada í Bandaríkjunum. 

Hinn hvimleiði bólfélagi, veggjalús (e. bed bug), hefur tekið sér bólfestu á nokkrum af helstu hótelum sem staðsett eru á frægustu götu borgarinnar, Las Vegas Strip, og hefur bókunum farið hraðfækkandi. Þau hótel sem há nú baráttu við skordýrið eru Circus Circus, Caesars Palace, Planet Hollywood, Palazzo, Tropicana, MGM Grand og Sahara. 

Veggjalúsar verður einkum vart á hótelum og öðrum gististöðum, en hún breiðist mjög hratt út með ferðamönnum sem gista ef til vill á mörgum stöðum á skömmum tíma. Samkvæmt American Hotel & Lodging Association (AHLA) þá tekur veggjalús sér gjarnan bólfestu í farangri eða fötum. 

Skordýrið getur valdið mikilli truflun á rekstri og eru aðgerðir til þess að losna við það oft ansi kostnaðarsamar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert