Hvernig á að gerast vínbóndi í Frakklandi?

Sally Evans ákvað að gerast vínbóndi um fimmtugt. Nú á …
Sally Evans ákvað að gerast vínbóndi um fimmtugt. Nú á hún farsælt fyrirtæki Chateau George 7. Skjáskot/Instagram

Sally Evans starfaði í markaðsgeiranum en ákvað í kringum fimmtugt að breyta lífi sínu. Hún keypti sér vínekru í Frakklandi og 52 ára lærði hún allt um vín og um 58 ára var hún komin með fyrsta árganginn sinn. Nú er hún komin á sjöunda árgang vínsins og á mikilli velgengni að fagna.

„Þegar yngsti strákurinn minn fór að heiman þá vantaði mig verkefni. Það hafði alltaf blundað í mér mikill áhugi á víngerð. Ég keypti mér sveitasetur í Fronsac sem er í 35 mínútna akstursfjarlægð frá Bordeaux. Þar voru einnig vínekrur og skúrar sem voru í slæmu ásigkomulagi,“ segir Evans í viðtali við The Times.

Byrjaði frá grunni með lágmarksþekkingu

„Ég flutti þangað án þess að þekkja sálu fyrir utan fasteignasalann. Ég byrjaði frá grunni, með engin tæki, enga reynslu og lágmarksþekkingu á víngerð,“ segir Evans en þess má geta að víngerð hennar Chateau George 7 framleiddi 18 þúsund flöskur af rauðvíni og hvítvíni sem seld eru um allan heim. 

„Að byrja með ekkert í höndunum þýðir að ég tók allar ákvarðanirnar. Allt frá nafni fyrirtækisins og hvernig ég nálgaðist viðfangsefni á borð við sjálfbærni. Bordeaux státar af fólki sem hefur mikla sérþekkingu á þessu sviði. Ég leitaði til þeirra og fann tvo ráðgjafa sem ég treysti.“ 

Krefjandi en gefandi

Veturinn 2017 var mjög krefjandi en þá skall á mikið frost sem skemmdi uppskeruna. Hún varð því að fresta framleiðslu um eitt ár. „2018 var frábært ár og fyrsti árgangurinn sló strax í gegn hjá kaupmönnum í London.“

„Fyrirtækið mitt snýr bæði að víngerð og ferðamennsku. Það hefur vaxið vonum framar. Vín er svo margslungið það felur í sér náttúru, listir, vísindi og viðskipti. Svo eflir það félagsleg tengsl.“

Ævintýri sem getur endað illa

Alexander Hall ráðgjafi segir að það að eignast vínekru sé viðskiptatækifæri sem felur líka í sér ákveðinn lífsstíl sem heillar marga.

„Fólki finnst aðlaðandi að rækta eitthvað og gera úr því vöru sem hægt er að selja byggt á eigin hugmyndafræði eða persónuleika. Auðvitað geta slík ævintýri endað illa ef t.d. fólk á ekki nægan pening til þess að fjárfesta í nauðsynlegum þáttum framleiðslunnar. Þá vanmetur fólk oft hversu mikil vinna og áskorun það er að selja afurðina.“ 

Nokkur góð ráð fyrir byrjendur

„Það þarf að byrja á að rannsaka markaðinn. Ákveða ef þar leynast einhver viðskiptatækifæri og vinna út frá því. Það þarf að halda væntingum í lágmarki og gefa sér að minnsta kosti tíu ár. Gott er að byrja smátt, t.d. að kaupa minni landareign sem er gæðajörð frekar en stóra landareign af illa ræktaðri jörð. Þá má ekki hika við að læra af heimamönnum,“ segir Evans.

Marga dreymir um að flytja til Frakklands og rækta eigið …
Marga dreymir um að flytja til Frakklands og rækta eigið vín. Skjáskot/Instagram
mbl.is