Jaana-Marja Rotinen er frá Joensuu í Finnlandi en hefur búið að Íslandi síðastliðin 28 ár. Hún er landfræðingur og þýðandi að mennt og hefur sérstaka ástríðu fyrir fjöllum og náttúrufegurð Íslands. Jaana-Marja, ávallt kölluð Jaana, byrjaði að ganga á fjöll fyrir nokkrum árum og í dag líður vart vika án þess að hún fari á fjöll enda kemur Jaana ávallt endurnærð heim eftir góða fjallgöngu þar sem útiveran nærir bæði líkama og sál.
Jaana kom fyrst til Íslands árið 1995 og ætlaði sér að vera á landinu í þrjá mánuði og kynnast landi og þjóð áður en hún héldi aftur heim til Finnlands. En eins og við vitum öll þá er lífið ófyrirsjáanlegt og gat Jaana ómögulega vitað að eyríkið í Norður-Atlantshafi yrði að heimili hennar næstu áratugina.
„Ég kom í gegnum Nordjobb, prógramm sem aðstoðar norræn ungmenni á aldursbilinu 18-25 ára að finna sér sumarstarf á Norðurlöndunum og kynnast þannig einu af nágrannalöndum sínum. Sjálf valdi ég Ísland þar sem ég hafði kynnst íslenskri stúlku í Svíþjóð þar sem við bjuggum báðar á sama tíma og langaði mig því að kynnast heimalandi hennar og jú, hitta hana á ný,“ segir Jaana.
Hvenær byrjaði áhuginn á fjallgöngum?
„Fjöllin hafa heillað mig alla tíð, en þar sem það er lítið af þeim í Finnlandi þá byrjaði ég ekki að stunda fjallamennsku fyrr en ég var búin að vera búsett á Íslandi í fleiri ár. Barneignir, barnauppeldi og atvinna voru sett í forgang.
Í dag er ég fráskilin 53 ára móðir tveggja uppkominna barna og get þar af leiðandi sett sjálfa mig og áhugamál í frekari forgang.“
Hvað varð til þess að þú fórst að ganga á fjöll?
„Ég byrjaði að stunda fjallgöngur af einhverri alvöru fyrir rúmlega þremur árum síðan, eða 2020. Það var á þeim tíma sem líf mitt breyttist á marga vegu, en það slitnaði upp úr langtímasambandi og stuttu síðar voru settar á samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar.
Sjálf var ég vön að mæta í sund nánast daglega en þegar sundlaugarnar lokuðu vegna vírussins varð ég að finna mér nýtt áhugamál og hreyfingu og var það þá sem ég fór að labba á fjöll.“
Hvað ferðu í margar göngur á mánuði?
„Það er mjög misjafnt, en ég hugsa að ég fari í þrjár til fjórar fjallgöngur í hverri viku, eða 12 til 16 sinnum í mánuði. Það fer þó eftir veðri og vindum sem er óútreiknanlegt allt árið um kring.“
Með hverjum ferðast þú reglulega, ef einhverjum?
„Í byrjun gekk ég ein, en fljótlega fór ég að treysta mér í göngur með gönguhópum þrátt fyrir að þekkja engan. Maður er fljótur að kynnast fólki á svona fjallabrölti.
Árið 2021 flæktist ég af hálfgerðri tilviljun inn í gönguhópinn Toppfarar og hef gengið með þeim mjög reglulega alla tíð síðan. Það er frábær hópur uppfullur af eintómum snillingum sem ég algjörlega elska að ganga með.“
Myndast góð hópstemning á fjöllum?
„Ó já! Stemningin er frábær! Það skiptir engu máli hvert maður er að fara eða hvernig veðrið er, það er félagsskapurinn sem skiptir öllu máli og ég held að allir í okkar frábæra hópi séu sammála um það.“
Gengur þú mikið ein á fjöll, ef svo, hvernig líður þér?
„Já, ég hef líka mikla þörf á að ganga ein. Að ganga einn hreinsar hugann og maður fær öðruvísi útrás. Ég nýt þess alveg í botn enda hef ég aldrei verið hrædd við það að vera ein.
Ég hef verið með ljósmyndadellu nánast frá unga aldri og þegar ég geng ein þá er myndavélin, göngufélaginn minn. En eins og flestallt annað í lífinu þá er það jafnvægið sem virkar best, maður þarf að hitta fólk og njóta samneytis en stundum þarf maður hreinlega að vera einn með sjálfum sér.“
Kemst þú í betra jafnvægi þegar þú gengur á fjöll?
„Já, ekki spurning! Eftir erfiðan dag er ekkert betra en að klöngrast upp á fjall, helst í roki og rigningu.“
Hvernig undirbýrðu gönguferð á fjöll?
„Nú til dags er það nokkuð auðvelt. Það er nánast allt tilbúið í bakpokanum, eina sem vantar er nestið. Það er gott að kanna veðurspánna og mikilvægt að vera vel sofinn. Annars skiptir bara mestu máli að vera vel stemmdur og fullur tilhlökkunar.“
Hvað er mikilvægt að taka með á fjöll?
„Það fer eftir fjalli og lengd ferðar, en það skiptir án efa mestu máli að taka slatta af fötum þar sem veðrið á það til að breytast á örskotsstundu. Það þarf alltaf að pakka aukasetti af vettlingum og húfu enda ekki ólíklegt að vindurinn steli einhverju af þér.
Gott nesti skiptir einnig miklu máli en það þarf sérstaklega að passa upp á að vera með nóg að drekka og athuga hvort það sé hægt að fylla á vatnsbrúsa á leiðinni upp fjallið.
Nauðsynlegt er að hafa allan öryggisbúnað meðferðis, sérstaklega þegar maður ferðast einn, þá er mikilvægt að hafa GPS-tæki, fullhlaðinn síma, hleðslubanka með snúru og skyndihjálparkassa. Á veturna þarf einnig að hugsa fyrir því að hafa höfuðljós, jöklabrodda og ísexi, en svo mætti lengi telja. Það mikilvægasta sem þarf að taka með á fjöll er góða skapið.“
Hvað er erfiðast við að ganga á fjöll?
„Ha, ha! Ætli það sé ekki bara að þurfa að koma sér niður og fara heim.“
Hver er uppáhalds gönguleiðin?
„Það er ómögulegt að segja en hér á höfuðborgarsvæðinu eru það án efa Móskarðshnúkarnir, „Vinafjallið mitt“ í áskorun Toppfara. Áskorunin gengur út á það að ganga á „fjallið sitt“ allavega einu sinni í viku þ.e.a.s. 52 sinnum yfir árið. Mér tókst að fara 90 sinnum á hnúkana mína á síðasta ári, mismunandi leiðir og mislangar.“
Hver er „leiðinlegasta“ leið sem þú hefur gengið?
„Það er nú ekki hægt að kalla neitt leiðinlegt í sambandi við fjallgöngur. Leiðirnar er margs konar en aldrei leiðinlegar.“
Eftirminnilegast ferðalagið?
„Það er svo margt eftirminnilegt sem gerist í fjallgöngunum og varla hægt að velja einstakt atvik eða augnablik, en það sem mér dettur einna helst í hug er þegar ég kleif hæsta tind á Íslandi, Hvannadalshnjúk.
Ég fékk tækifæri til þess að ferðast þangað með gönguhóp frekar snemma og var alls ekki viss um það hvort ég væri tilbúin, en svo kom það bara í ljós að þetta var ekki eins erfitt og ég hafði óttast og bara algjörlega einstök upplifun.“
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
„Ísland er paradís fjallgöngumanna og það er ómögulegt að velja einn stað, en hálendið er mjög sérstakt svæði sem togar alltaf í mann og það sama á við um Snæfellsnesið. Ég var líka mjög heppin að fá að ferðast á nokkur fjöll á bæði Aust- og Vestfjörðum í sumar og eru það bæði fallegar náttúruperlur.“
Hvert dreymir þig um að fara?
„Mig langar að ferðast um allt, en á „to-do“ listanum, það er ef heilsa og fjármál leyfa, eru Alparnir, grunnbúðir Everest og Kilimanjaro.“
Hvaða ferðalög eru á dagskrá?
„Það er verið að skipuleggja ferð á Mont Blanc á næsta ári, en í millitíðinni er margt á dagskrá Toppfara og bíðum við nú eftir veðri til að komast á Stórkonufell og Jarlhettur á hálendinu.“