„Eins og ferðalög geta verið gefandi og skemmtileg þá geta þau líka verið erfið. Ég hef gert mörg mistök í gegnum tíðina en þessi standa uppúr. Vonandi geta aðrir lært af minni reynslu,“ segir Margo Winton Parodi í pistli sínum á The Ascent.
„Í ár komst ég loks í langþráða ferð til Íslands. Ég og eiginmaður minn höfðum upphaflega bókað ferðina rétt fyrir heimsfaraldur og urðum því að fresta ferðinni. Þetta þýddi þó að við höfðum þrjú ár til þess að undirbúa okkur vel fyrir draumaferðina. En það skiptir engu máli hversu vel undirbúinn maður er, lífið minnir mann á að enginn er fullkominn.“
„Flugið okkar var þannig að við fórum af stað á fimmtudegi en lentum á föstudegi. Ég hafði bókað bílaleigubílinn fyrir fyrsta dag ferðalagsins, á fimmtudeginum! Við föttuðum þetta þegar við vorum að fara um borð í flugvélina og rétt náðum að hafa samband við bílaleiguna sem gat fullvissað okkur um að bíllinn biði eftir okkur. Við hins vegar töpuðum peningum á þessum eina degi sem við notuðum hann ekki.“
„Í fyrstu hélt ég að þetta væri eitthvað sem gæti ekki klikkað. Við vorum í sólarlandafríi og við héldum að það yrði góð hugmynd að fá kynningu um orlofshús þar í landi. Við myndum fá ókeypis mat á flottum veitingastað og svo gjafabréf í siglingu síðar í vikunni.
Við héldum að kynningin myndi vara stutt en okkur skjátlaðist. Þetta ætlaði engan enda að taka. Sölumennirnir voru mjög ýtnir og þetta eyðilagði daginn. Ég hélt að ég væri að gera góðan díl en raunin var sú að við eyddum heilum degi af fríinu okkar í eitthvað leiðinlegt. Vissulega töpuðum við engum peningum en við töpuðum dýrmætum frítíma í þessu frábæra fríi sem við höfðum sparað fyrir og skipulagt í langan tíma.“
„Þetta eru mistök sem ég endurtók aftur og aftur á á yngri árum en er nú vaxin upp úr. Eftirminnilegt er það þegar ég fór í dásamlega reisu um Írland og Skotland. Ég vildi fá sem mest úr ferðalaginu þannig að ég bókaði flug heim á sunnudegi og ætlaði að mæta hress til vinnu á mánudegi.
Það gekk ekki alveg upp. Fluginu var seinkað og svo aflýst og ég þurfti að græja rándýra hótelgistingu og taka auka frídag til að bæta þetta allt saman upp. Þetta kenndi mér að allt getur gerst á ferðalagi og það er betra að gefa sér góðan tíma til þess að komast heim ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Í dag reyni ég að skipuleggja ferðalögin þannig að ég hef einn til tvo daga til þess að koma mér fyrir og hvílast áður en ég fer aftur í vinnuna.“