Fréttir af erlendum ferðamönnum í ógöngum hafa verið áberandi síðustu ár enda hefur erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands fjölgað mikið á síðustu árum.
Oft eru á ferðinni óvanir ökumenn sem þekkja ekki aðstæður á íslenskum vegum og geta því hæglega lent í vandræðum.
Talia Lakritz varð vitni af ógöngum erlendra ferðamanna í fjörunni við Vík í sumar, en hún birti nýverið grein á vef Insider þar sem hún deildi reynslu sinni af því að keyra um Ísland.
Hún varaði aðra ferðalanga við algengustu mistökum ferðamanna sem keyra um Ísland og undirstrikaði mikilvægi þess að ferðamenn kynni sér aðstæður vel fyrirfram.
„Ég lærði að stærstu mistökin sem þarf að forðast á Íslandi er að keyra vegi sem bíllinn er ekki búinn fyrir,“ skrifaði Lakritz og útskýrði að á Íslandi séu þrjár tegundir af vegum – bundið slitlag, malarvegir og F-1 eða fjallavegir.
Á ferð sinni um Ísland síðastliðið sumar rakst Lakritz á hóp ferðamanna sem voru á bíl sem sökk hægt og rólega í svartan sandinn á ströndinni við Vík.
„Einbreiður malarvegur lá að ströndinni, en svo virtist sem þessi hópur hafi reynt að leggja of nálægt ströndinni og endað í sandinum,“ útskýrði hún.
„Ég reyndi að hjálpa þeim að ýta ökutækinu upp úr holunni, en því meira sem þau gáfu í, því lengra grófust hjólin ofan í mjúka jörðina. Það minnti mig á viðvörunina sem ég fékk þegar ég sótti bílaleigubílinn minn við lendingu á Íslandi: Ekki aka á vegum sem bíllinn þinn er ekki búinn fyrir,“ skrifaði hún.
Í greininni útskýrði Lakritz að ómalbikaðir vegir og fjallavegir á Íslandi krefjist sérstakra faratækja sem séu búin fyrir slíkar aðstæður, og að á fjallavegum þurfi fjórhjóladrif til að komast á leiðarenda.
„Mér var ráðlagt að passa mig að skoða vel allar vegamerkingar sem gefa til kynna gróft landslag og vista símanúmer fyrir vegaaðstoð í símann minn, svona til öryggis,“ bætti hún við.