Bandaríska leikkonan Ashley Judd er á leið til Íslands í nóvember. Hún mun taka þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga (e. Reykjavik Global Forum) sem fer fram í Hörpu dagana 13. til 14. nóvember.
Þetta verður í sjötta sinn sem heimsþingið er haldið en í fyrra tóku þátt um 500 kvenleiðtogar frá 100 löndum. Women Political Leaders (WPL) standa að heimsþinginu í samstarfi við ríkisstjórn Íslands og Alþingi með stuðningi fjölmargra íslenskra og alþjóðlegra samstarfsaðila.
Ashley Judd á sér langan og farsælan feril að baki sem leikkona en síðustu ár hefur hún helgað sig jafnréttisbaráttunni og er ötull talsmaður kynheilbrigði kvenna um allan heim og réttinda þeirra í þeim málum og er Judd meðal annars Góðgerðarsendiherra UNFPA (United Nations Populations Fund). Þá var Judd mjög virk í Me-too hreyfingunni og var ein þeirra sem höfðaði mál gegn Harvey Weinstein á sínum tíma.