Ferðalangurinn Jonathan Kubben fann sniðuga leið til að fullvissa móður sína í Mexíkó að það væri í lagi með hann, en hann hefur verið á spennandi ævintýraför um heiminn síðastliðin sjö ár. Uppátæki Kubben hafa vakið mikla athygli netverja enda mjög skemmtileg leið til að róa taugar áhyggjufullra mæðra, feðra og forráðamanna.
Árið 2016 hélt Kubben af stað í ferðalag sem átti eftir að breyta lífsstefnu hans, en daginn eftir 27 ára afmælisdaginn hans var hann mættur til Kúbu og tilbúinn að sjá og upplifa allt sem lífið hefur upp á að bjóða.
Þar fékk hann þá hugmynd að stofna Instagram-reikning fyrir ljósmyndaseríuna „Mamma, það er í lagi með mig“, frumlega leið til að láta móður sína vita að hann væri öruggur. Instagram-síðan fór á flug og á innan við ári voru hátt í 300.000 fylgjendur að fylgjast með ævintýrum Kubben.
Á þessum sjö árum hefur Kubben ferðast út um allan heim og látið móður sína, Imeldu Quinonez, vita að hann sé öruggur frá nær öllum heimshornum. Tæplega 200.000 manns hafa bæst í fylgjendahóp Kubben en hann státar af 580.000 fylgjenda á samfélagsmiðlum í dag.