Ákvað að lifa lífinu eftir að hafa greinst með æxli

Elísa­bet Reyn­is­dótt­ir nær­ing­ar­fræðing­ur, betur þekkt sem Beta Reynis, fór í ógleymanlega ferð til Kúbu nýlega. Fólk á Kúbu búa margir við erfiðar aðstæður en þrátt fyrir það segir Beta hafa fundið sitt himnaríki á jörðu.                                                                 

„Þegar reynir verulega á seigluna er gott að nýta þá krafta sem eftir eru til að spyrna fast í botninn; horfa síðan upp á við og fram á við og skipta um umhverfi. Útspil sem við fyrstu sýn virðist algjör afleikur getur orðið til þess að okkur eru færð á silfurfati alveg hreint sturluð ævintýri sem lifa áfram í minningunni,“ segir Beta og heldur áfram að segja frá ferðinni:

„Árið 2022 reyndist mér erfitt og krefjandi. Ég hafði fyrr um sumarið lent í því að í húðinni á bakinu á mér uppgötvaðist æxli. Þeirri uppgötvun fylgdi að sjálfsögðu álag, hræðsla og áhyggjur. Sem reyndust þegar til kom sem betur fer óþarfar, því skömmu síðar var æxlið fjarlægt í aðgerð þar sem allt gekk vel. Ég lofaði sjálfri mér því, að ef ég kæmist nokkuð heil frá þessum raunum, myndi ég nýta lífið framundan til að lifa því til fulls og njóta.

Ánægðir ferðalangar á Kúbu.
Ánægðir ferðalangar á Kúbu. Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Með salsahópnum til Kúbu

Þessi ákvörðun varð m.a. til þess, að þegar ég sneri aftur suður í lok sumars eftir sumardvöl á Flateyri, lét ég gamlan draum rætast og skellti mér á salsanámskeið. Á námskeiðinu kynntist ég frábæru fólki og eignaðist góðan dansfélaga sem dansaði með mér í gegnum erfiðan vetur og í átt að betri líðan. Veturinn var síðan toppaður með frábærri ferð til Kúbu með félögunum úr salsanu, þar sem við nutum leiðsagnar undir styrkri stjórn Jóa úr „Salsamafíunni“. Það að fara á þetta salsanámskeið og hvað þá að fara í þessa ferð til Kúbu, var ein sú besta ákvörðun sem ég hef tekið í mörg ár.

Fyrir ferðina til Kúbu kom upp sú hugmynd að nýta ferðina til þess að gera heimildarmynd um Kúbu og salsamenninguna þar. Innan hópsins var kvikmyndagerðamaður sem var tilbúinn að taka það verkefni að sér.

Þegar til Kúbu var komið átti ég nokkra frábæra daga í þessu sturlaða, magnaða umhverfi. Þvílíkt land! Þvílíkir litir, líf og gleði! En púff, allt í einu fór allt loft úr mér og ég varð um tíma eins og sprungin blaðra. Fann að ég varð að fá að vera bara til, án allra skuldbindinga og í leiðinni að jafna mig á öllu því sem gengið hafði á í lífi mínu síðasta árið. Mig langaði einfaldlega bara að vera til og upplifa Kúbu, án þess að vera að vinna við gerð heimildarmyndar. Þrátt fyrir að búið væri að slaufa hugmyndinni um heimildamyndina, vorum við dugleg að ganga um allt og mynda það sem fyrir augu bar. Afraksturinn voru alveg hreint magnaðar ljósmyndir af lífi fólksins á Kúbu.

Við ákváðum að nýta þessa ferð til þess að kynnast umhverfinu þar sem allra best, ná áttum og meta hvort við gætum mögulega heimsótt Kúbu aftur seinna með þetta litla kvikmyndaverkefni okkar, reynslunni ríkari. 

Beta Reynis naut lífsins á Kúbu.
Beta Reynis naut lífsins á Kúbu. Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Ekki annað hægt en að verða ástfangin af landi og þjóð

Lífið og kúltúrinn á Kúbu er eitthvað sem erfitt er að lýsa með örfáum orðum. Þetta land er svo ótrúlega litríkt og lifandi. Hiti, litir, tónlist og dans allt umlykjandi. Ég skora á þig að prófa snöggvast að loka aðeins augunum, losa aðeins um líkamann og dilla mjúklega þessum stífu, skandinavísku mjöðmum þínum. Láttu nú hugann reika með mér suður um höf, alla leið til Kúbu. Ljúfur og heitur vindurinn strýkur vanga og hreyfir við hárinu. Sólin skín og hitar á þér húðina. Þú andar að þér stemningunni þar sem þú virðir fyrir þér umhverfið, og hlustar á suðræna og seiðandi salsatóna sem óma um alla borg. Prófaðu endilega að dansa í takt við tónlistina. Ég veit ekki með þig, en ég er alla vega strax komin aftur til Kúbu í huganum. Finn marslungna lyktina í loftinu og heyri mótorana þenjast í gömlu, litríku, amerísku köggunum sem svo einkenna umferðina á Kúbu. Ég horfi á krakkana leika sér á götunum í boltaleik eða öðrum leikjum og geng um og kíki inn á næsta kaffi- og veitingarhús. Upplifi þar mögulega aldeilis óvænt alveg hreint magnaða tónleika. Dansa jafnvel smá salsa, hlæ og er með þér hér og nú, í núinu.

Horft yfir Havana.
Horft yfir Havana. Ljósmynd/Beta Reynis

Mannlífið á Kúbu er sannarlega skrautlegt. Fólkið misjafnt svona rétt eins og gengur og gerist með einstaklinga alls staðar í heiminum, en heilt yfir alveg dásamlegt. Iðulega allir tilbúnir til að spjalla og gefa sig að manni. Allir einstaklega opnir og vingjarnlegir, án þess að vilja endilega eitthvað í staðinn frá manni. Mér hlýnaði oft í hjartanu og þótti vænt um að upplifa þessi kynni.

Oft var fólk forvitið að vita hvaðan í ósköpunum við værum. „Íslandia!“ var oft sagt með ákveðnum soghljóðum því margir vissu alveg hvar okkar ískalda eyja væri staðsett á hnettinum, og sýndu það með því að hrista sig og skjálfa líkt og þeir væru að frjósa í hel á dimmum og köldum íslenskum vetrardegi. Það var ekki hægt annað að hrífast með, verða hugfangin og ástfangin af landinu og fólkinu. Kúba heillaði mig alla vega algjörlega upp úr skónum með öllum sínum sjarma.

Mannlífið á Kúbu heillaði.
Mannlífið á Kúbu heillaði. Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Ekki lúxus á Kúbu

Það er eitt sem vert er að hafa í huga þegar maður fer til Kúbu. Það sem getur farið úrskeiðis, mun að öllum líkindum fara úrskeiðis. Og þannig var það einmitt í þessari ferð. Á ferð okkar til Trinidad sem er í u.þ.b. 4 klukkutíma akstursfjarlægð frá Havana, ferðuðumst við í einum af þessum amerísku köggum sem okkur var úthlutað fyrir ferðina þangað. Ég spurði Jóa nýlega eitthvað út í þessa ferð og bílinn sem við ferðuðumst í. „Já ertu að meina bílinn sem kviknaði í og þurfum svo að ýta í gang, meðan þú lást út í kanti og ældir af bílveiki?“ Einmitt.

Veitingarhúsin á Kúbu eru sér kapítuli. Við skulum orða þetta pent; Kúba er kannski ekki besti áfangastaðurinn ef þú ert að leita að sælkeraferð eða Michelin-stjörnu matarupplifun (eða var það allavega ekki í þessari tilteknu ferð), þó það megi örugglega finna þar hótel sem bjóða upp á góðar máltíðir. Við vildum meira vera meðal heimamanna en ekki týpískra túrista, og upplifa þannig beint í æð menningu landsmanna og sögu.

Gamlir bílar eru út um allt á Kúbu.
Gamlir bílar eru út um allt á Kúbu. Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Mér er minnisstæð ein saga sem Jói sagði okkur um ákveðinn veitingastað sem hann hafði farið á með einn hópinn. Þar tók þjóninn glaður á móti gestum, bar litríka kokteila og drykki í mannskapinn áður en hann hóf að taka á móti matarpöntunum af matseðli af miklum móð. Þegar maturinn kom loksins á borðið reyndist það aðeins vera meðlætið af matseðlinum. Þegar spurt var hvað hefði orðið um kjötið sem allir í hópnum höfðu pantað, kom í ljós að það væri því miður bara ekki til, og hafði ekki verið til þegar tekið var á móti pöntunum. Hamingja þjónsins yfir að hafa fullan veitingarstað af langt aðkomnum ferðalöngum var öllu öðru yfirsterkara, hvað þá svona smotteríi eins og að vantaði kjötið sem kúnnarnir væru að panta. Gestirnir yrðu bara að láta sér verða að góðu meðlætið, án steikarinnar.

Ástæða þess að þjónninn var ekki að gera mál úr þessum kjötskorti var einfaldlega sú, að hann fæddist inn í þessar aðstæður, sem hafa nú verið til staðar á Kúbu án hlés, allt frá byltingu Castro á sjötta áratugnum. Þessi maður þekkti þar af leiðandi ekki annað en líf með sífelldum vöru- og matarskorti, verandi íbúi í landi þar sem ríkja höft og ógnarstjórn.

Ljósmynd/Eyþór Arnar Ingvarsson

Í upphafi er allt dásamleg en svo fer allt úrskeiðis

Kúbverjar kunna að laga allt, til dæmis bílana og hjólin, þrátt fyrir skort á varahlutum. Hugfanginn horfði ég á hvernig viðgerðirnar voru oft áberandi groddaralegar, og hvernig fólkið gat gert við ótrúlegustu hluti með jafnvel lítið sem ekkert annað en eigið hugvit og hugmyndaflug til að vinna með. Nægjusemin allt um kring. Það voru t.d. ekki mörg húsgögn í íbúðinni þar sem við gistum, einungis það sem virkilega þurfti sem var sófi, stólar og eitt borð. Á hverjum morgni var yndislegt að fá morgunmatinn sem við keyptum af þeim sem leigðu okkur íbúðina. Ég elskaði þennan morgunmat. Brauð með smá smjöri og ekkert álegg nema stundum var til marmelaði; ávextir og safi að ógleymdu hrærðu eggjunum. Algjör hátíðarstund að fá svo góðan kaffibolla. Það er svo sannarlega gott að geta glaðst yfir litlu hlutunum í lífinu, og á Kúbu var maður enga stund að aðlagast umhverfinu og matnum.

Skemmtilegasta veitingarhúsaferðin var þegar ég og vinur minn fundum stað sem seldi rauðvín. Við pöntuðum okkur mat og keyptum nauta carpaccio sem með fylgdu nokkrir litlir ostbitar. Ég man ennþá eftir þessari máltíð og hversu mikið ég naut hennar, og minnir að rauðvínið hafi verið með því betra sem ég hef drukkið. En kannski fólust mestu gæðin ekki í matnum eða víninu, heldur umhverfinu, félagsskapnum, tónlistinni og gleðinni. Og af því öllu var sannarlega nóg, í þessari ferð til Kúbu.

Það besta og skemmtilegasta sem ég geri er að ferðast, upplifa og njóta. Að heimsækja land eins og Kúbu var sannkallað ævintýri og mitt himnaríki á þessari jörð (enn sem komið er alla vega, því ég er sannarlega ekki hætt að ferðast um heiminn!). Ein mantra sem gott er að hafa í huga fyrir Kúbuferð er þessi: „Í upphafi verður allt dásamlegt, svo fer allt úrskeiðis, en svo leysist allt og allt endar þetta vel!“ Og eftir sitja glimmerstráðar minningar sem aldrei gleymast.

Hasta la vista!“

mbl.is