Hlupu 10 kílómetra til að auka matarlystina

Kötturinn Jósúa fær að vera með í eldhúsinu.
Kötturinn Jósúa fær að vera með í eldhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður, segir að hann og eiginkona hans, Rósa Sigrún Jónsdóttir, hafi einfaldað jólin með aldrinum. Hann er þó alltaf jafnduglegur að hreyfa sig yfir hátíðirnar og segir það afbragðsráð þegar gott ket og smákökur eru á boðstólum.

„Jólin eru eldforn hátíð sem markar upphaf nýs lífs þegar sólin fer að hækka á lofti á ný. Jólin eru því eldri en öll trúarbrögð, jafngömul búsetu mannsins á jörðinni og snerta þess vegna sérstakan og frumstæðan streng í hjörtum okkar. Mín tengsl við jólin eru hlýjar bernskuminningar litaðar fölskvalausri tilhlökkun, spennu og gleði. Þau eru minning um einfaldan heim, öryggi og festu en ekki síst minningar um fólk sem nú er farið frá okkur. Þau hafa því fyrst og fremst þýðingu sem fjölskylduhátíð í mínum huga,“ segir Páll Ásgeir.

Hvað gerir þú á aðventunni?

„Fyrir mér er aðventan tilhlökkun og tilefni til að gera sér dagamun. Ég hef í seinni tíð smættað mínar jólahefðir og venjur talsvert í þeirri trú að einfalt lif sé best. Í þeim anda baka ég aðeins eina tegund af smákökum á aðventunni en gæti þess að hafa skammtinn ríkulegan því markmiðið er að borða helst allar smákökurnar fyrir jól. Á aðventunni eru jólaljósin sett upp. Þau minna á andstæður ljóss og myrkurs og jólin eru hátíð ljósanna. Þannig minnumst við forfeðranna sem drukku jól til að fagna hækkandi sól.“

Mikið lagt í skötuveisluna

Hvaða jólahefðir heldur þú fast í?

„Jólahald er margs konar og ég á í rauninni engar jólahefðir sem hafa fylgt mér lengi. Jól speglast best í augum barnanna en þegar þau vaxa úr grasi og fara út í heiminn þá fara jólahefðir með þeim. En svo verða til aðrar, uppskriftir fara úr tísku og aðrar koma í staðinn eftir sem lífsstíll manns breytist. Einu sinni gerði ég alltaf konfekt fyrir jólin en er löngu hættur því og er hættur að borða sykur í því magni sem áður var. Að sama skapi dró úr áhuga mínum á jólaglöggi og aðventuboðum þegar ég hætti áfengisneyslu.“

Voru þær svipaðar þegar þú varst barn?

„Ég ólst upp vestur í Ísafjarðardjúpi á sjötta áratugnum við rafmagnsleysi og mikla einangrun. Jólin í sveitinni voru því lík þeim jólum sem alltaf höfðu verið haldin á Íslandi frá landnámi með kertaljósum, hangikjöti, nýjum fötum, sálmasöng og göngu kringum jólatré. Mér finnst þær minningar tilheyra svo löngu liðnum tíma að ég sé varla lengur yfir það fljót tímans sem streymir milli mín og æskunnar.“

Eru einhverjar vestfirskar hefðir sem þú heldur í?

„Kæst skata með vestfirskum hnoðmör er talinn vestfirskasti matur sem til er. Ég ólst upp við þessa einstöku samsetningu en þótti þetta eiginlega aldrei gott. Stórfjölskyldan kom lengi vel saman einu sinni fyrir jól og borðaði þennan ramma forneskjumat. Við bræður aðstoðuðum þá aldraðan föður okkar við að útvega mör af heimaslátruðu. Því fylgdu ávallt leiðbeiningar um að mörinn ætti að liggja í köldu fjárhúsi, helst á gamalli fjárhúshurð á garðaböndum þar til hann væri orðinn nægilega „fiðraður“. Það orð er notað til að lýsa myglunni sem sest í mörinn og þegar hann er svo tekinn og hnoðaður á aðventu eða seint í nóvember þá sjást allir helstu litir jólanna, rauður, grænn og gulur, í skurðsárinu. Svo er þetta hnoðað í töflu og krossmark dregið á að fornum sið. Þetta lærðum við af föður okkar en nú er hann fallinn frá og skötuveislur og hnoðmörsát lagt af. En þetta var skemmtilegt meðan það varði og minningarnar lifa um menn og konur sem háma í sig sjóðheita skötu svo kæsta að þeir fullvissa hver annan tárfellandi að þetta sé nú bara rétt mátulegt.“

Skata er hluti af aðventunni.
Skata er hluti af aðventunni. mbl.is/Árni Sæberg

Útivist vekur matarlystina um jólin

Finnst þér mikilvægt að stunda útivist um jólin?

„Lykillinn að góðri líðan er að fara út og hreyfa sig helst á hverjum degi. Jólin eru alls ekki undanskilin og fátt betra og meira lystaukandi en að fara út í vaska gönguferð áður til þess að vekja matarlystina og stilla samviskuna áður en maður sest aftur við hangikjötið og smákökurnar. Ég vil helst halda mínum hreyfivenjum yfir hátíðarnar og finnst það reyndar alveg sérstaklega mikilvægt. Útivist er skemmtileg fyrir fjölskyldur og gaman fyrir kynslóðirnar að fara saman út að baksa í snjónum.

Meðan foreldrar mínir lifðu var jólaboð á heimili þeirra fastur liður á jóladag. Þá lögðu menn metnað í að hlaupa ekki minna en 10 km fyrir hádegi til að auka matarlystina. Þetta er góður siður og kemur í veg fyrir að menn verði húsúldnir af innistöðum um hátíðarnar. Í dag er ég hættur að hlaupa svo ég býst við að rösk gönguferð, hjólatúr (á nöglum) eða skíðaganga verði hreyfing jólanna.“

Rósa Sigrún og Páll Ásgeir eru útivistarfólk og stunda líka …
Rósa Sigrún og Páll Ásgeir eru útivistarfólk og stunda líka útivist yfir jólahátíðina. Ljósmynd/Aðsend

Fær kjötið eftir krókaleiðum austan af Héraði

Hefur jólahald ykkar breyst með aldrinum?

„Það hefur orðið einfaldara með aldrinum og tekur mið af breyttum lífsstíl okkar. Meðan tengdaforeldrar mínir lifðu héldum við alltaf jól með þeim og jólahaldið tók mið af því. Svo þegar kynslóðir hverfa þá breytist hlutverk manns og undanfarin ár þá höfum við verið með stórfjölskyldunni á aðfangadagskvöld í mismunandi útgáfum. En við höfum líka stundum verið bara tvö á jólum svo við þekkjum allar útgáfur af þessu.“

Hvað borðar þú á aðfangadag?

„Ég hef ekki fastan jólamat heldur hefur það breyst í áranna rás eftir smekk og lífsstíl. Lambakjöt í einhverri mynd er sennilega fastur liður en í seinni tíð höfum við haldið jól með stórfjölskyldunni og þá hefur stundum verið fjórréttað svo allir fái það sem þeir helst vilja. Mér finnst hangikjöt á jóladag vera ómissandi og vil helst að það sé af veturgömlu og reykt heima hjá einhverjum sem kann til verka. Ég á því láni að fagna að þekkja mann og annan í ýmsum sveitum og fæ því kjötið ekki alltaf á sama stað. Um þessi jól kemur til mín vænt læri af veturgömlu austan af Héraði eftir krókaleiðum. Ég smakkaði kjöt úr þessum reykkofa í fyrra og fannst það sérlega gott og hlakka því eins og barn til jólanna.

Á mínu heimili er verkaskipting með þeim hætti að ég sé um alla matargerð. Í mínu eldhúsi ríkir því einveldi en þegar mikið gengur á eins og stundum um jól þá er aðstoðarkokkur kallaður til ásamt starfsmanni í salati en Rósa Sigrún eiginkona mín gegnir þessum störfum báðum. Á þeim jólum sem nú fara í hönd verður stórfjölskyldan öll saman í húsi úti í sveit og þar verður líklega meiri samvinna og lýðræði í eldhúsinu. Sá hluti afkomendanna sem býr í Danmörku kemur til landsins og það hlakka allir óskaplega til.“

Hvernig er jóladagur á þínu heimili?

„Venjulega er komið saman á jóladag og borðað hangikjöt, spilað og leikið. Að þessu sinni verða allir saman í húsi svo ég veit ekki alveg hvernig þetta verður en eflaust verður hangikjötið í aðalhlutverki. Svo munum við sjálfsagt fara út í snjókast eða gönguferð.“

Hjónin Páll Ásgeir og Rósa Sigrún á fjöllum.
Hjónin Páll Ásgeir og Rósa Sigrún á fjöllum.

Hugsar um dóttur sína þegar hann setur upp svuntuna

Hvað er besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég er orðinn gamall og meyr og þegar ég hugsa til baka þá man ég eftir jólunum í sveitinni. Þá var stundum erfitt að bíða eftir því að klukkan yrði nógu margt og þau kæmu loksins þessi jól. Í sveitinni magnaðist spenningurinn þegar pabbi fór í fjósið vegna þess að þá vissi maður að þegar fjósverkum væri lokið væri stutt í kvöldmat á aðfangadag. Ég minnist þess að við bræður fengum að opna einn pakka hvor fyrir mat og þess hefur eflaust verið gætt að það væri bók í pakkanum. Svo sátum við í útprjónuðum peysum sem mamma hafði gert fyrir jólin og grúfðum okkur yfir bækurnar. Þannig leið tíminn hraðar og mamma fékk sem því nam meiri frið fyrir rellinu í okkur. Svo kom pabbi loksins inn úr fjósinu, þvoði sér og rakaði og fór í hvíta skyrtu og jólin voru komin. Þetta voru frábærar jólagjafir.

Af jólagjöfum nú á seinni árum verð ég að nefna forláta leðursvuntu sem eldri dóttir mín lét sauma handa mér í Fritz Hansen Republik í Kaupmannahöfn. Hún er úr sama leðri og er notað á Arne Jacobsen-stólana og er mikill kjörgripur og ég hugsa um gefandann í hvert sinn sem ég set hana upp í eldhúsinu.“

Dóttir Páls Ásgeirs gaf honum þessa fínu svuntu frá Fritz …
Dóttir Páls Ásgeirs gaf honum þessa fínu svuntu frá Fritz Hansen í jólagjöf. mbl.is/Árni Sæberg

Hafa jólagjafirnar breyst í gegnum árin?

„Ég er löngu kominn á þann stað í lífinu að mig vantar ekkert og ég þekki eiginlega engan sem vantar neitt. Hér áður fyrr reyndi maður stundum að gefa fólki eitthvað sem það vantaði eða átti ekki en í seinni tíð er stundum best að reiða sig á gjafabréf eða reiðufé þótt það spilli dálítið gleðinni af því að velja af kostgæfni gjöf handa viðtakanda sem manni finnst vænt um.“

Hefur þú hitt vel í mark með pakka til konunnar?

„Ég hef stundum gefið henni verkfæri sem ég veit að hana langar í eða vantar. Þar má nefna hluti eins og slípimús, borvél eða límbyssu. Það hefur undantekningarlítið glatt hana. Svo hefur hún fengið silkiflíkur sem hún er ánægð með.“

Jól í Tyrklandi

Áttu uppáhaldsjólaminningu?

„Fyrir rúmum 30 árum eyddum við Rósa Sigrún jólum í Istanbúl í Tyrklandi. Við bjuggum á hosteli og höfðum verið þarna í nokkrar vikur þegar jólin runnu skyndilega upp. Tyrkir gefa jólum lítinn gaum því þeir eru ekki kristnir og þess vegna fór þessi hátíð mjög lágt í borgarlífinu. Þarna á hostelinu bjuggu alls konar flakkarar frá ýmsum heimshornum sem voru vanir jólahaldi og á aðfangadagskvöld borðuðum við öll saman, drukkum mikið af ódýru tyrknesku rauðvíni og átum spaghetti alla vongole til hátíðabrigða. Þetta var afar litríkt samkvæmi og skemmtilegt en við þetta tækifæri varð manni ljóst hvað það getur verið erfitt að vera fjarri fjölskyldu og ástvinum um jól þótt trúarsannfæringu vanti. Þannig má segja að við svona aðstæður komi í ljós hvað jólin raunverulega þýða fyrir mann,“ segir Páll Ásgeir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka