„Ef þú lendir þessari flugvél ekki bráðum mun ég deyja“

Jack Fowler lenti í alvarlegu atviki á leiðinni til Dúbaí.
Jack Fowler lenti í alvarlegu atviki á leiðinni til Dúbaí. Samsett mynd

Love Island-stjarnan Jack Fowler birti færslu á Instagram-reikningi sínum þar sem hann sagðist vera heppinn að vera á lífi eftir að kjúklingakarrí með hnetum olli ofnæmislosti (e. anaphylaxis) í flugi til Dúbaí. 

Fowler flaug með flugfélagi Emirates og segist hafa látið flugfreyjurnar vita nokkrum sinnum að hann væri með hnetuofnæmi. 

Gerði nokkrum sinnum grein fyrir hnetuofnæminu

„Ég trúi ekki að ég þurfti að setja þetta inn. OG ég er að skrifa þetta vegna þess að fólk ætti að vera meðvitað um alvarleika þess að vera með slæmt fæðuofnæmi og algjört gáleysi Emirates flugfélagsins. Ég flaug nýlega með Emirates þar sem mér var gefin kasjúhneta. Ég gerði flugfreyjunni grein fyrir hnetuofnæminu tvisvar sinnum áður en mér var gefið kjúklingakarrí. Ég fékk ekki matseðil til að velja úr, í staðinn var ég spurður beint hvort ég vildi kjúkling eða fisk.

Ég valdi kjúklinginn. Þegar ég bað um kjúklinginn sagði ég flugfreyjunni að ég væri með alvarlegt ofnæmi fyrir öllum hnetum. Mér var þá sagt að það væru engar hnetur í kjúklingakarríinu. Þegar ég fékk máltíðina bað ég sömu flugfreyju aftur um að ganga úr skugga um að það væru engar hnetur og aftur var mér sagt að það væru ekki hnetur í réttinum. 

Ég treysti flugfreyjunni og byrjaði að borða kjúklingakarríið. Samstundis lokaðist hálsinn á mér og það varð mjög erfitt að ná andanum. Ég sagði flugfreyjunni að ég gæti ekki andað og spurði aftur hvort það væru hnetur í matnum. Mér var þá sagt að það væru engar hnetur í kjúklingakarríinu AFTUR. Það var ekki fyrr en vinur minn krafðist þess að fá að sjá matseðilinn sem ég áttaði mig á því að þetta var „Creamy Cashew Nut Chicken Curry,“,“ skrifar Fowler í færslu sinni. 

Fluttur með harði á næsta sjúkrahús í Dúbaí

Fowler segir þetta hafa valdið því að hann hefði mögulega getað dáið í flugvélinni þar sem hann vissi að hann þyrfti bráðameðferð strax. „Ég fékk fimm tanka af súrefni, auk þess var mér gefinn adrenalínpenni (e. Epi Pen). Ég sagði við flugumsjónamanninn: „Ef þú lendir þessari flugvél ekki bráðum mun ég deyja í þessari flugvél“,“ bætti hann við. 

Þegar vélin hafði lent var Fowler fluttur með hraði á næsta sjúkrahús í Dúbaí þar sem hann fékk áframhaldandi meðferð. 

Fram kemur á vef BBC að talsmaður Emirates hafi beðist afsökunar á atvikinu og sagt að öryggi og heilsu viðskiptavina flugfélagsins sé tekið mjög alvarlega. „Þó að Emirates stefni að því að koma til móts við viðskiptavini með sérþarfir með því að bjóða upp á margs konar sérmáltíðir sem uppfylla læknisfræðilegum, næringarfræðilegum og trúarlegum þörfum, getum við ekki ábyrgst hnetulaust flugumhverfi,“ segir í yfirlýsingu flugfélagsins.

View this post on Instagram

A post shared by JACK FOWLER (@_jackfowler_)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert