Frá Úganda til Húsavíkur

Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Egill Bjarnason féllu hvort fyrir öðru …
Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Egill Bjarnason féllu hvort fyrir öðru og hafa búið sér og börnunum óvenjulega tilveru. Ljósmynd/Aðsend

Óhætt er að segja að hjónin Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Egill Bjarnason séu ævintýragjörn en þau hafa ferðast víða og búið meðal annars í Afríkuríkinu Úganda. Nýverið réðust þau í nýtt verkefni þegar þau festu kaup á nokkuð afskekktu hóteli á Norðurlandi

Sigrún er mannfræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði sem menningar- og fjölmenningarfulltrúi Norðurþings áður en hún tók við hótelinu Skúlagarði. Egill hefur verið lausamaður í blaðamennsku frá því að hann lauk meistaranámi frá Kaliforníuháskóla í Santa Cruz en hann hefur um árabil skrifað fréttir um Ísland fyrir heimspressuna, einkum AP-fréttaveituna og New York Times. Leiðir þeirra lágu saman á Norðurlandi fyrir nokkrum árum og börnum síðan. „Við kynntumst um borð í bát á Skjálfandaflóa fyrir ellefu árum en þá vorum við bæði að vinna sem leiðsögumenn í hvalaskoðun.“ Egill bætir við að þá hafi verið sjómannadansleikur fram undan á Húsavík. „Sigrún var á heimavelli, bæði á Húsavík og dansgólfinu, en ég með lúna fætur eftir að hafa komið hjólandi frá Selfossi alla leið norður.“

Eftir sumarið sem þau felldu hugi saman lágu leiðir þeirra hingað og þangað um heiminn. „Við bjuggum um hríð í Úganda og stuttu eftir að við fluttum aftur heim kom elsta barnið af þremur í heiminn. Hann heitir Valur og er nýorðinn sex ára gamall. Við þetta foreldrahlutverk fannst okkur tilvalið að breyta til og láta verða af því að flytja norður á Húsavík, að minnsta kosti til reynslu. Svo fór að við keyptum okkar fyrstu fasteign í miðbæ Húsavíkur, sem Þingeyingar telja mikla miðju á heimskortinu, og allir sem þekkja leikreglurnar í Monopoly vita hvað kemur á eftir húskaupum,“ segja þau kímin.

Fyrir ári keyptu hjónin hótelið Skúlagarð.
Fyrir ári keyptu hjónin hótelið Skúlagarð.

Eina hótelið á 120 kílómetra kafla

En hvers vegna skyldu þau hafa ráðist í að festa kaup á hóteli langt uppi í sveit? „Sveitahótelið Skúlagarður er í Kelduhverfi, stutt frá Ásbyrgi. Það er eina hótelið milli Húsavíkur og Raufarhafnar, á ríflega 120 kílómetra kafla um Norðausturland, þó að vissulega sé aðra gistingu að finna á svæðinu. Við höfum alltaf haldið mikið upp á Jökulsárgljúfur og þessa fallegu sveit allt í kring, án þess þó að ímynda okkur að við myndum einn daginn horfa yfir landið sem hótelhaldarar. En sumar beygjur geta verið afdrifaríkar!“

Hótelið hafði verið til sölu um nokkurt skeið þegar þau fóru að skoða það. „Þegar við renndum í hlað í fyrsta sinn, fyrir ári, hafði staðurinn verið til sölu nokkuð lengi og sjálfsagt fyrir því ýmsar ástæður: íbúafjöldi í Kelduhverfi er innan við eitt hundrað og hótelið talsvert stór biti fyrir einyrkja en um leið heldur lítil eining fyrir fyrirtæki í leit að fjárfestingu,“ segja þau svo og bæta við að hótelið sé 1.100 fermetrar að stærð með sautján herbergjum, öll með baðherbergi, ásamt veitingastað og félagsheimili. „Lengi vel taldist Skúlagarður talsvert utan alfaraleiðar en árið 2020 lauk loksins framkvæmdum við svokallaðan Dettifossveg sem tengir Jökulsárgljúfur við þjóðveginn. Þessi vegur breytir öllu fyrir okkar rekstur því með honum tilheyrum við í raun ferðalagi um Húsavík og Mývatn; stór hluti ferðamanna á Norðurlandi ekur hinn vinsæla Demantshring og þá skiptir í raun ekki öllu máli hvar maður gistir á þeirri leið.“

Draumur þeirra er að geta haft hótelið opið allan ársins …
Draumur þeirra er að geta haft hótelið opið allan ársins hring.

Langaði í sterkari tengingu við sitt samfélag

Egill segist hafa verið spenntur fyrir að finna sér eitthvað svæðistengt að gera eftir mörg ár í fjarvinnu. „Störf án staðsetningar eru frábært fyrirbæri, risastórt stökk í byggðamálum, en með tímanum vill maður, held ég, sterkari tengingu við sitt samfélag. Þegar við keyptum hótelið bjó í raun frekar lítil hugsun að baki, önnur en sú að þetta gæti verið skemmtilegt verkefni sem ætti vel við okkur. Svona fjölskyldufirma, sem síðan styrktist enn frekar þegar foreldrar Sigrúnar, Aðalgeir Bjarnason og Jónína Hermannsdóttir, ákváðu að taka þátt í þessu með okkur.“

Egill og Sigrún hafa einungis rekið hótelið í rúmt eitt ár en þau tóku við lyklunum vorið 2023. „Þetta fyrsta sumar lukkaðist merkilega vel þrátt fyrir að við hefðum lítið gert annað en að taka úr lás og kveikja ljósin, því má auðvitað mest þakka frábæru starfsfólki. Það hefur komið okkur skemmtilega á óvart hversu margir vilja vinna á afskekktu sveitahóteli.“

Hjónin hafa varið drjúgum tíma í að mála og gera …
Hjónin hafa varið drjúgum tíma í að mála og gera fínt á hótelinu. Í hinum fullkomna heimi gætu þau haft hótelið opið allan ársins hring en þau eru ekki komin þangað ennþá.

Vildu halda nafninu – Skúlagarður

Þau vildu ekki breyta nafninu á hótelinu þar sem húsið á að baki langa sögu sem heimamenn þekkja vel og hafa taugar til. „Þegar við tókum við Skúlagarði voru margir sem spurðu hvort til stæði að skipta um nafn, í takt við ríkjandi strauma í nafngift veitinga- og gististaða. Við hugleiddum slíkt en vorum fljót að átta okkur á hversu rómað og þýðingarmikið nafnið er í hugum Norðlendinga og allra sem til þekkja. Heimamenn reistu Skúlagarð árið 1959 sem félagsheimili og heimavistarskóla, að hluta til í krafti sjálfboðavinnu og framlaga frá félagasamtökum. Nafnið vísar til hins nafnkunna Keldhverfings Skúla fógeta sem eitt sinn drakk úr Litluá og því vel við hæfi að Þingeyingafélagið í Reykjavík hafi fært staðnum merkustu gjöfina við vígslu staðarins: Örn á súlu eftir Guðmund frá Miðdal. Örninn er í fullri stærð og gnæfir enn yfir lóðina.“

Gönguleiðin meðfram Jökulsárgljúfrum ein sú skemmtilegasta á landinu

Ýmsar áskoranir og vinna fylgir því að kaupa og reka hótel segja Egill og Sigrún. „Okkar fyrsti vetur fór í að mála og endurnýja húsgögn. Herbergin eru í dag talsvert frábrugðin fyrra horfi en verkefnalistinn samt áfram langur. Okkar stærsta áskorun er að lengja tímabilið sem hótelið er opið og fá fólk til að stoppa lengur en í eina nótt. Svæðið hefur upp á margt að bjóða, margar frábærar dagleiðir en langflestir láta sér nægja að skoða Dettifoss,“ segja þau og Egill bætir við: „Ég hef skrifað tvær ferðahandbækur um Ísland fyrir Lonely Planet og fullyrði að gönguleiðin meðfram Jökulsárgljúfrum sé ein sú skemmtilegasta á landinu utan hálendisins, mátulega erfið og aðgengileg, samtals 33 kílómetrar frá Dettifossi í Ásbyrgi. En maður mætir mjög fáum á göngustígunum og hér á hótelinu eru það fyrst og fremst íslenskir ferðamenn sem gefa sér tíma í slíka göngu.“

Af öðrum uppáhaldsstöðum á Norðurlandi nefna þau Ásbyrgi og Langanes. „Að ferðast milli þessara tveggja staða um Melrakkasléttu er ávísun á góðan bíltúr. Landslagið skiptist í andstæður og það ríkir einstök kyrrð sem magnar upp fuglalífið. Yfir sumartímann er hægt að sjá súluvarp við Rauðanúp og Skoruvík og ganga út á nyrsta odda Íslands á Rifstanga.“

Norðlenskt sólsetur í sinni tærustu mynd.
Norðlenskt sólsetur í sinni tærustu mynd.

Veitingar með hráefni úr héraði

Í Skúlagarði er boðið upp á meira en bara gistingu. „Þetta sumar ætlum við að hafa veitingastað opinn í júlí og ágúst, þar verðum við með áherslu á hráefni úr héraði svo sem lambakjöt og lax úr landeldi við Kópasker. Veitingareksturinn er kannski skemmtilegasti hlutinn af þessu ævintýri en líka sá erfiðasti.“ segja þau og bæta við að auðvitað séu þau líka með góðan morgunmat fyrir gesti hótelsins.

Eins og staðan er núna þá er hótelið ekki opið allt árið en draumurinn hjá þeim er að breyta því. „Helst af öllu myndum við auðvitað vilja reka heilsárshótel en þar er á brattann að sækja meðan Dettifossvegur fær enga vetrarþjónustu. Þess í stað ætlum við að einbeita okkur að innlendum hópum yfir veturinn. Vinahópar, fjölskyldur og fyrirtæki geta þannig leigt allt hótelið líkt og risastóran sumarbústað. Húsnæðið er mjög heppilegt að stærð til að ná utan um 15 til 30 manna hópa, hvorki of stórt né of lítið og allir með næði inni á sínu herbergi.“

Egill og Sigrún Björg kunna að meta íslenskar náttúruperlur.
Egill og Sigrún Björg kunna að meta íslenskar náttúruperlur.

Börnin fara í Öxarfjarðarskóla á Lundi

Í haust ætla þau að flytja í gamla skólastjórabústaðinn með börnin þrjú; Val, Frey og Unu. „Þessa dagana erum við að einbeita okkur að íbúðarhúsinu, gamla skólastjórabústaðnum, til þess að geta flutt þangað inn í lok sumars. Þannig getum við tvinnað þetta verkefni betur saman við fjölskyldulífið. Þó að Húsavík sé lítill bær þá verða þetta án efa talsverð viðbrigði fyrir alla. Börnin eiga eftir að ganga í Öxarfjarðarskóla á Lundi, en þar hefur börnum fjölgað talsvert á öllum skólastigum og greinilega margt spennandi að gerast. Verður maður ekki að prófa að búa í sveit einhvern tímann á lífsleiðinni?“

Ísland hefur upp á margt áhugavert að bjóða.
Ísland hefur upp á margt áhugavert að bjóða.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert