Ísland býr yfir ómældri fegurð sem reynist oft erfitt að fanga á filmu eða lýsa nákvæmlega með orðum og því ekki af ástæðulausu að landið okkar þykir með þeim fegurri á heimsvísu. Flestir landsmenn hafa heimsótt vinsælustu kennileiti landsins, eins og Seljalandsfoss, Geysi og Þingvelli, en færri vita af því að allt annar heimur bíður þeirra á hálendi Íslands.
Á síðasta ári hélt blaðamaður ferðavefs mbl.is í ferðalag í Hungurfit í Rangárvallarafrétt upp á hálendi yfir Verslunarmannahelgina. Eftir að hafa upplifað Ísland í sinni tærustu mynd þar sem náttúran er eins ósnortin og hún gerist er ekki erfitt að mæla með slíkri ferð, sérstaklega fyrir þá sem vilja kynnast nýrri hlið af ferðalögum og Íslandi.
Ferðin hófst við Keldur þar sem glæsikerra af tegundinni Nissan Patrol beið eftir að ferja ferðalanga upp á hálendið. Fljótlega varð ljóst að jeppi og jeppi er ekki það sama. Það virðast nefnilega vera til tvær gerðir af jeppum – venjulegir jeppar og alvöru jeppar, en Patrolinn hafði verið breyttur og bættur með allskyns græjum og settur á 40 tommu dekk sem komu manni á ótrúlegustu staði. Þeir sem þekkja lítið inn á bíla geta ímyndað sér stóra pítsu til samanburðar, en hún er vanalega 16 tommur.
Merkileg saga fylgir svæðinu öllu og hefst sögustund um leið og stigið er upp í Patrolinn við Keldur, en þar stendur elsti torfbær á Íslandi og kemur bæði bærinn og ábúendur hans fyrir í nokkrum af þekktustu Íslendingasögunum, þar á meðal Njálu.
Frá Keldum var keyrt um Syðri-fjallabaksveg í gegnum Langvíuhraun áður en komið var að skarði, en þar stóð stór steinn sem ber heitið Hungursteinn. Á árum áður þótti mikilvægt að menn myndu klífa steininn í fyrsta sinn sem þeir fóru á fjöll svo þeir gætu talist fullgildir gangnamenn, en það er gaman að stoppa við steininn þar sem frískir ferðalangar geta spreytt sig á honum.
Frá skarðinu er svo ekið inn í stórbrotinn fjallasal við rætur Tindfjalla þar sem Hungurfit blasir við og allt í einu er eins og tíminn sé ekki lengur til. Kyrrðin, fegurðin og andrúmsloftið verður þess valdandi að maður kemst ósjálfrátt í tæri við hina eftirsóttu núvitund sem fólk talar mikið um þessa dagana.
Í miðri víðáttunni stendur reisulegur fjallaskáli sem var byggður árið 2013 og þykir með glæsilegri fjallaskálum á landinu, en þar eru til staðar öll þau þægindi sem nútímamaðurinn vill hafa ásamt gistiplássi fyrir allt að 50 manns. Hungurfit hefur verið vinsæll áningarstaður meðal göngu-, hjóla-, jeppa- og hestafólks í yfir 60 ár, en þar hefur verið skálaaðstaða frá árinu 1963.
Frá Hungurfiti eru góðar göngu-, jeppa- og reiðleiðir, en um leið og bíllinn hafði verið affermdur var haldið í fyrsta leiðangurinn. Frá Hungurfiti var ekið gegnum Rangárbotna og yfir Mógilshöfða, en þaðan var svo komið niður í Dómadal á Landmannaleið.
Fyrsta stoppið var tekið undir Laufafelli með smá útúrdúr, en þar er foss í Markarfljóti sem oft er kallaður Nafnlausi fossinn sem verður að teljast með áhugaverðari nafngift á örnefni hér á landi. Umhverfið við fossinn er stórkostlegt, en þar mætast grænar mosabreiður, formfagrir klettar, litafegurð líparítfjalla og rauðleitir tindar sem skapa magnað sjónarspil.
Frá fossinum lá leiðin upp Mógilshöfða þar sem landslagið var ekki síður stórbrotið. Þar blasir sama litadýrðin við í bland við búbblandi leirhveri sem gera útsýnið enn magnaðra, en það er líkt og maður standi hreinlega á annarri plánetu. Þaðan var svo farið upp á svokallaðan Þúsundmetrahól sem er skemmtilegur útsýnisstaður.
Næsta dag var önnur skemmtileg leið frá Hungurfiti könnuð, en hún liggur að Markafljóti inn við Krók þar sem Markafljót og áin Hvítmaga mætast. Enn og aftur var landslagið stórbrotið og fjölbreytt, en það er ótrúleg upplifun að vera einn í víðáttunni og keyra í gegnum merka jarðsögu sem minnir mann á náttúruöflin sem ráða ríkjum á þessari fögru eyju okkar.
Því næst var farið niður Þverárbotna um ævintýralega vegi, yfir ár, upp hæðir og í gegnum skörð. Þaðan var síðan farið niður á Fljótshlíðarafrétt, en á þessari leið var einnig farið um hluta af Laugaveginum vinsæla, sem þykir með fegurri gönguleiðum í heimi, en rétt eins og daginn áður blasti einstök náttúrufegurð við hvert sem litið var.
Aðrar styttri ferðir sem farið var í kringum Hungurfit á þriðja degi voru í Hrútagil, en þar blasti svokallaður Dýjamosi við í allri sinni dýrð og setti svip sinn á allt í kring. Dýjamosi fer varla framhjá neinum, en hann einkennist af ljósgrænum sprotum sem grípa augað. Þá var einnig farið í göngu að Blésá og Blésárgljúfri þar sem undurfagur foss gleður augað.
Það er því engin furða að þeir sem gerast svo heppnir að upplifa töfra hálendisins bíði spenntir eftir að komast þangað aftur. Nú langar mig bara í fjallaloft og gamlan Land Rover á dekkjum sem samsvara að minnsta kosti tveimur stórum pítsum.