Á Hjalteyri, í um tuttugu mínútna fjarlægð frá Akureyri, er gömul síldarverksmiðja sem fengið hefur nýtt líf undir heitinu Verksmiðjan á Hjalteyri. Þar er nú sýningar- og verkefnarými fyrir listir af ýmsu tagi. Um helgina opnar sýningin Rúletta; Rúlluterta en þar sýna saman 18 listamenn undir sýningarstjórn Hrafnhildar Helgadóttur.
Flæði og frjáls sköpun einkennir þessa samsýningu í verksmiðjunni þar sem sumir listamannanna sem taka þátt voru ekki með fyrirfram tilbúin verk til að sýna heldur ætluðu að verða innblásin af sýningarrýminu.
Í sýningartexta eftir Lee Lorenzo Lynch er rætt við einn listamannanna, Axel Gústafsson sem er einn af driffjöðrum sýningarinnar. Hann segir að reimt sé í verksmiðjunni.
„...þegar verið var að byggja hana hafi einn verkamannanna látist á vaktinni. Sagan segir að einhver svipur frá liðnum starfsárum síldarverksmiðjunnar haldi þar enn til og ráfi um sýningarrýmið á nóttunni, í formi gúmmístígvéla sem að sjást þá eingöngu. Stundum heyrist ískra í gúmmíi, stundum sjást blaut stígvélaspor á steyptum gólfunum.
Áhugi Axels á hinu yfirnáttúrulega er þema í verkum hans og í síðasta mánuði fór hann út í Viðey til að taka upp myndband fyrir utan heimili móderníska skáldsins Steins Steinarr. Sagan segir að Steinn hafi þjáðst af svefnleysi vegna draugs sem ásótti hann. Prestur var kallaður til og illgjarn andinn var bundinn við stól í horninu á heimilinu. Lína var dregin með krít á gólfið í kringum drauginn svo að hann kæmist ekki yfir línuna. Eftir þetta átti Steinn ekki í neinum vandræðum með svefn. Fyrir sýninguna í Verksmiðjunni endurskapaði Axel þætti sögunnar með einkennandi notkun sinni á and-fagurfræði,“ segir í sýningartextanum.
Listamennirnir eru Alda Ægisdóttir, Axel Frans Gústavsson, Bjartur Elí Ragnarsson, Elín Elísabet Einarsdottir, Gabriel Backman Waltersson, Hekla Kollmar, Íris Eva Magnúsdóttir, Ísabella Lilja Rebbeck, Ívar Ölmu Hlynsson, Kata Jóhannesdóttir, Katla Björk Gunnarsdóttir, Lúðvík Vífill Arason, Quinten Vermeulen, Ráðhildur Ólafsdóttir, Saga Líf Sigþórsdóttir, Tómas van Oosterhout, Úlfur Logason, Ævar Uggason.
Sýningin Rúlletta; Rúlluterta opnar kl 14 á laugardag 3. ágúst og stendur til 8. september. Svo er opið alla daga nema mánudaga frá 14-17.