Sunneva Dögg Robertson, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í sundi, fann ástina á Smáþjóðaleikunum í San Marino sumarið 2017 þegar hún kynntist kærasta sínum, Tryggva Snæ Hlinasyni, landsliðsmanni í körfubolta. Síðan þá hafa Sunneva og Tryggvi búið í borgum eins og Santiago de Compostela, Zaragoza og Bilbao. Hún útskrifaðist fyrir ári síðan úr hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri og er að vinna í því að komast inn á vinnumarkaðinn á Spáni.
„Sagan í rauninni byrjar á Smáþjóðaleikunum í San Marino árið 2017, en þar kynntist ég manninum mínum. Við byrjum saman í júní það ár og í blábyrjuninni af okkar sambandi lætur hann mig vita að hann sé á leið í atvinnumennsku í körfubolta á Spáni, í borginni Valencia. Við ákváðum að láta á það reyna sem varð til þess að ég flutti út hálfu ári seinna,“ segir Sunneva.
Hvað heillaði þig við Bilbao þegar þú komst þangað fyrst?
„Það sem heillaði mig mest við Bilbao er landslagið og veðráttan. Bilbao liggur á norðurströnd Spánar og erum við því við Atlandshafið, það þýðir aðeins kaldara veður en til dæmis á Suður-Spáni. Hér eru fleiri rigningadagar, grænna umhverfi og einnig mikið fjalllendi. Náttúran líkist meira okkar á Íslandi heldur en í Valencia og Zaragoza.“
Hvernig er draumadagur í borginni?
„Úff, þegar stórt er spurt. Ef við erum lukkuleg með veður þá er klassískt að fara með vinum í brunch niður í bæ og mögulega fara á ströndina og leika sér aðeins í sjónum. Við erum satt að segja lítið í því að eyða tíma niður í bæ nema það sé eitthvað um að vera.“
Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn þinn?
„Bilbao Berria, virkilega góður staður og mæli með ef fólk ætlar sér að ferðast til Bilbao!“
Hvar er best að versla?
„Það er virkilega gaman að fara niður í bæ og skoða búðirnar þar, en það fer í raun eftir hverju fólk er að leitast eftir. Annars er alltaf klassískt að fara bara í mollið, Mega Park.“
Hvað er ómissandi að sjá?
„Náttúran, án efa. Það er virkilega gaman að keyra um svæðið og þá sérstaklega norðurströndina. Sem dæmi er San Sebastian klukkutíma akstur í austur og Santander er svipað nema til vesturs. Smábæirnir í kringum okkur eru ómissandi og virkilega gaman að sjá. Við höfum allavega mikinn áhuga á að kynnast menningunni og sögu fólksins í kringum okkur.“
Eru einhverjar „túristagildrur“ sem fólk ætti að varast?
„Vasaþjófar eru því miður alltaf til staðar á vinsælum túristastöðum en annars höfum við verið lítið vör við annað.“