Reyndi að eyða undir 138.000 krónum í tveggja daga Íslandsferð

Ferðabloggarinn Kevin Droniak reyndi að eyða undir 1.000 bandaríkjadölum í …
Ferðabloggarinn Kevin Droniak reyndi að eyða undir 1.000 bandaríkjadölum í Íslandsferð sinni. Samsett mynd

Ferðabloggarinn Kevin Droniak skoraði á sjálfan sig að eyða undir 1.000 bandaríkjadölum, eða sem nemur rúmlega 138 þúsund krónum, í tveggja daga Íslandsferð á dögunum og deildi upplifun sinni á TikTok. 

„Ég skoraði á sjálfan mig að eyða innan við 1.000 bandaríkjadölum í ferðalag til Íslands til að sýna ykkur að þið getið ferðast til útlanda á sparsaman máta. Við skulum sjá hvernig mér gekk,“ segir Droniak í upphafi myndbandsins. 

Því næst sundurliðaði hann og útskýrði allan kostnað í ferðinni. Hann borgaði 356 bandaríkjadali, eða rúmlega 49 þúsund krónur, fyrir flug báðar leiðir en hann keypti ódýrasta miðann með engu auka fótaplássi.

„Ég gisti í þægilegu Airbnb í tvær nætur í sætum bæ fyrir 328 bandaríkjadali (rúmlega 45 þúsund krónur), en ég þurfti að deila baðherbergi með öðrum gestum. Skipti samt ekki máli því ég var bara þarna til að sofa,“ útskýrir Droniak í myndbandinu. 

Sprungið dekk og dýrt bensín

„Bílaleigubíllinn kostaði mig 231 bandaríkjadali (rúmlega 32 þúsund krónur) og ég tók enga aukatryggingu, en ég hefði kannski átt að hafa gert það því dekkið sprakk hjá mér og það kostaði mig 45 bandaríkjadali (rúmlega sex þúsund krónur) að laga það. Og ég gleymdi hversu dýrt bensín er hér á landinu, það kostaði mig 175 bandaríkjadali (rúmlega 24 þúsund krónur) að fylla á tankinn nokkrum sinnum,“ bætti hann við. 

Droniak útskýrir í myndbandinu að honum þyki matur á Íslandi dýr, en hann borðaði eina máltíð á matsölustað sem kostaði hann 32 bandaríkjadali, eða rúmlega fjögur þúsund krónur. „Ég endaði á því að borða á bensínstöðvum, en maturinn er miklu betri hér en á amerískum bensínstöðvum, og það kostaði mig allt í allt 56 bandaríkjadali (tæplega átta þúsund krónur),“ segir hann. 

Heildarupphæð Droniak endaði í 1.233 bandaríkjadölum, eða rúmum 171 þúsund krónum. „Já, verkefnið mistókst en ég var ekki svo langt frá markmiði mínu. Þetta var einstaklingsferð og það að ferðast einn er alltaf dýrara. Allt í allt vona ég að þetta hafi sýnt ykkur að þið þurfið ekki að eyða þúsundum og þúsundum bandaríkjadala í að fara í ferðalag,“ segir hann að lokum. 

@kevindroniak Replying to @Garth Zader Going to Iceland for under $1,000? Let’s see how I did. #budgettravel #cheaptravel #solotravel #iceland #budgetfriendly ♬ original sound - Kevin Droniak
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert