Magdalena Margrét Kjartansdóttir er listamaður sem hefur ferðast víða. Japan er í sérstöku uppáhaldi hjá henni og hefur verið draumaland hennar frá árinu 1953.
Í september opnar sýning Magdalenu á Hlöðulofti Korpúlfsstaða. Magdalena er grafíklistamaður og vinnur mest með pappír sem hún þrykkir á af tré- og dúkristum. Verk hennar eru í eigu Alþingis Íslendinga, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs og fleiri stofnana á Íslandi, auk safna í Svíþjóð, Japan, og Finnlandi.
„Ég vinn verkin mín útfrá eigin reynsluheimi er einhvers konar áhorfandi að lífskapphlaupinu. Fæ innblástur að öllu mögulegu, stundum getur eitt orð eða heil setning kveikt á minningu sem þarf að komast á blað.“
Síðasta ferðalagið sem þú fórst í?
„Undanfarin tuttugu ár hef ég vanið mig á að fara til Spánar á vorin. Ég dvel oftast í Andalúsíu héraði nærri Jerez borg. Þar hef ég hitt á hátíð hestsins (Feria del Caballo) sem er í maí og er þá hluti Jerez borgar skreyttur fagurlega og færður aftur í tíma.“
„Eitt sinn dvaldi ég á golfvelli þegar einn stærsti mótórhjólahittingur í Evrópu átti sér stað á Circuito de Jerez sem er nágrannalóð golvallarins. Auðu malbikuðu svæði var breytt í stórt partíþorp á svipstundu og hótelið fylltist af mótorhjólaköppum og glæsipíum.“
Eftirminnilegasta ferðalagið?
„Ein eftirminnilegasta ferð og sem stendur uppúr er ferð til Malmberget í Norbotten Svíþjóð árið 2008. Þar hafði heilt þorp, á stærð við Kleppsholtið og Sundin þar sem ég ólst upp í, verið rifið niður. Eftir stóðu tómir húsgrunnar sem minntu á risagrafir og mörg hálfrifin og auð hús sem biðu niðurrifs. Heimilistæki eins og ísskápar, eldavélar, þvottavélar voru í stórum haug.“
„Maðurinn minn, íþróttamaður, hafði dvalið þarna árið 1965 og var ferðin farin til að líta gamla íþróttahúsið augum áður en það yrði rifið og hitta gamla félaga.“
„Íbúum bauðst nýtt húsnæði sömu stærðar á nýjum stað í Gällevari næsta þorpi sem var að mestu lokið við að reisa. Ef þeir óskuðu eftir stærra húsi þá þurftu þeir að greiða fyrir mismuninn.“
„Gífurlegar járnnámur í Malmberget sem ná undir þorpsbyggðina valda því að undirstöður húsa eru ekki lengur tryggar, yfirborðinu hefur því verið breytt í útivistarsvæði. Enn er verið að flytja til þorpshluta á Norbotten svæðinu t.d. í Kiruna.“
„Náttúrufegurðin er mikil þarna; skógar, vötn og Tundran auk hæsta fjalls Svíþjóðar Kebnekaise sem er í sjónmáli en námurnar setja því miður sterkan svip sinn á umhverfið.“
Áttu þér draumaferðalag?
„Draumaland mitt er Japan en þangað hef ég ferðast og gæti svo vel hugsað mér að fara aftur.“
„Japan hefur verið mitt draumaland frá árinu1953 en þá fékk ég sendingu frá tveim föðursystrum mínum er dvöldu í Japan. Önnur gift íslenskum lækni hin bandarískum hermanni. Sendingin innihélt barna kímonó og japanska styttu, hlutir sem ég á enn.“
Árið 2000 kom hópur listamanna frá Saitama í Japan á vinnustofu mína. Ári seinna fékk ég boð frá Saitama fylki um þátttöku í sýningu Ísland/Japan C.A.C. (Contemporary Artist Club) í 0-Art Museum Shinagava og að vera gestur viðburða í tengslum við opnun sendiráðs Íslands í Tokío.
Frá Tokío var farið til Saitama á tónleika karlakórs Saitama sem söng íslensk lög og síðan í matarveislu þar sem mér fannst áhugaverðast töfrandi litblær úldinna eggja.
Ég fór í heilagt musteri og tók þátt í hugleiðslu. Einnig skoðaði ég heimssýningu (Biennial) í Yokohama borg á verkum margra kunna listamanna.
Loks tók ég hraðlest til Kyóto dvaldi þar nokkra daga í yndislegu Ryokan gistingu og naut japanskrar gestrisni í frið og ró. Með í för var leiðsögumaður hún Kristín Ísleifsdóttir listakona og fræddi hún um siði og hefðir japana og vísaði á áhugaverða staði.“
Einhver góð ferðaráð?
Kynna sér staðina aðeins áður en lagt er í hann.
Skemmtilegustu ferðafélagarnir?
„Ég stundaði skíði frá barnsaldri á Skaftinu í Vatnagörðum siðan í Bláfjöllum, var nágranni Valdimars Örnólfssonar og hann áhugasamur að leiðbeina okkur krökkunum.
Ég fór í mína fyrstu skíðaferð erlendis með fjölskylduna til Bad Gastein í Austurríki árið 1983. Í þeirri ferð kynntumst við fjölskyldu sem næstu árin urðu okkar bestu ferðafélagar í skíðaferðum auk veiði og ótal ferða um Ísland.
Golfið tók við fyrir 20 árum og nær árlega var farið ásamt vinahóp í skipulagðar golfferðir sem nú hafa lagst af. Erum nú oftast tvö á ferð og er það lífsins gangur sem því ræður.“
Uppáhaldsstaðurinn á Íslandi?
„Skaftafellssýslur, hvergi fallegra, besta veiði áin og það að leggja sig á milli hóla í Landbroti eldsnemma að morgni og hlusta á veröldina er dásemdin ein.“
Eru einhver ferðalög framundan?
„Golfferð í október og þá til Andalúsíu, Fairplay heitir golfvöllurinn, þangað hef ég komið nokkrum sinnum. Umhverfið er fallegt og kyrrlátt, frábær völlur og verður gott að slappa af eftir eril og umstang vegna yfirlitssýningar minnar á Hlöðuloftinu Korpúlfsstöðum er opnar þann 7.september.“
Hafa ferðalög haft einhver áhrif á þig sem listamann?
„Í Kyoto skoðaði ég Sanju-Sangen-do hof og sá þar kyngimagnaðar styttur og varð dolfallin yfir kraftmikilli túlkun þeirra. Sú sjón hefur haft áhrif á það sem ég er að fást við í mínu starfi.“
„Kynni mín við fólk tengt listum á mínum ferðalögum hafa getið af sér nokkrar sýningar. Ein sú fyrsta var í Hróarskeldu safni í Danmörku 1991 eftir kynni við Dana á ferð um Ísland. Nýlegasta dæmið um slík kynni var er ég sýndi verk mín á menningarhátíðinni Münsterland Festival í Þýskalandi árið 2019 en þar kynntist ég portúgölskum safnstjóra er bauð mér einkasýningu árið 2022 í Leiria Portúgal. Það er hvetjandi, þegar maður vinnur mest einn að hafa sýningartilboð framundan.“