Skúli undirbýr einn skemmtilegasta viðburð lífs síns

Gríma Björg Thorarensen og Skúli Mogensen reka sjóböðin í Hvammsvík.
Gríma Björg Thorarensen og Skúli Mogensen reka sjóböðin í Hvammsvík. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Það verður fjör í Hvammsvík í Hvalfirði á sunnudaginn kemur, 8. september, þegar Hvammsvíkursundið fer fram. Hraustir sundgarpar leggja af stað við sjóböðin í Hvammsvík og synda 1,2 km leið að Hvammsey og aftur til baka. Gert er ráð fyrir að sjávarhiti verði um tíu gráður og munu þátttakendur ylja sér með hinni frægu sjávarréttasúpu Hvammsvíkur ofan í heitu laugunum að sundi loknu.

„Heitu laugarnar okkar eru stórkostlegar en ég vil fullyrða að Hvammsvík búi yfir bestu köldu laug landsins, sjálfu Norður-Atlantshafinu. Hvammsvíkursundið er alltaf einn skemmtilegasti viðburður ársins þar sem þátttakan hefur verið frábær og gleðin allsráðandi. Það er líka fátt sem rammar inn andstæðurnar í íslenskri náttúru, að synda í köldum sjó og hlýja sér síðan í heitum laugum með stórglæsilega fjallasýn,“ segir Skúli Mogensen, einn stofnandi Hvammsvíkur Sjóbaða.

Hvammsvíkursundið er haldið í samstarfi við Sjóbaðsfélag Reykjavíkur og munu meðlimir björgunarsveitarinnar Ársæls hlúa að öryggi þátttakenda í sjónum og tryggja að þeir sem lenda í volki verði ekki meint af. Einnig verða læknir og bráðatæknir á svæðinu. Skilyrði fyrir þátttöku eru að fólk hafi áður tekið þátt í sams konar sundviðburði.

Þátttakendur hafa eina klukkustund til að ljúka sundinu. Þátttakendur sem munu enn vera í sjónum eftir þann tíma verða teknir upp í báta og skutlað í land.

Skúli Mogensen rekur sjóböðin í Hvammsvík og sækir sjóinn sjálfur.
Skúli Mogensen rekur sjóböðin í Hvammsvík og sækir sjóinn sjálfur. Ljósmynd/GT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert