Er það góð hugmynd að ferðast með fyrrverandi?

Það geta ekki öll fyrrverandi pör ferðast saman. En ef …
Það geta ekki öll fyrrverandi pör ferðast saman. En ef það er hægt þá þarf að gæta að vissum hlutum. Getty Images/iStockphoto

Það eru ekki allir sem geta hugsað sér að fara í sumarfrí með fyrrverandi en sumir geta það. Juliet Kinsman, ferðablaðamaður, segir frá því í pistli sínum á Stylist Magazine hvernig hún og fyrrverandi eiginmaður hennar eru enn að ferðast saman sjö árum eftir skilnað.

„Fyrirmyndirnar eru til staðar. Fyrst voru það Gwyneth Paltrow og Chris Martin, svo Kourtney Kardashian og Scott Disick of fleiri fyrrverandi Hollywood pör. Nútímafólk virðist ekki láta skilnað trufla gott ferðalag,“ segir Kinsman sem þótti ekkert athugavert við að halda áfram að ferðast með sínum fyrrverandi.

„Við vildum bæði bjóða dóttur okkar upp á það að eiga foreldra sem væru vinir. Foreldrar mínir voru það svo sannarlega ekki þegar þau skildu og ég held að það hafi mikil áhrif á mann og hvernig maður nálgast sambönd.“ 

„Okkur kemur vel saman. Þegar maður þekkir einhvern svona vel þá gengur allt eins og smurt. Maður er afslappaðri en þegar maður ferðast með ókunnugum.“

„Á vissan hátt er það auðveldara að ferðast núna þegar rómantíkin er ekki inni í myndinni. Þá er pressan minni og margt í fari hans angrar mig ekki jafnmikið og áður. Þegar öllu er á botnin hvolft þá vill maður ekki sleppa öllum fjölskylduhefðunum og halda áfram að safna í fjölskyldualbúmið. Þetta snýst um að varðveita þessa samfellu í lífinu sem fjölskylda.“

Mikilvægt að leggja línur fyrir ferðalagið

Sérfræðingar hafa bent á að slík frí virki best ef ferðalögin snúast um að gera eitthvað saman, eins og til dæmis að skella sér á skíði.

„Mikilvægast er að fólk setji viss mörk áður en farið er í ferðalagið. Sérstaklega ef fólk er komið í nýtt samband,“ segir Michelle Bassam sálfræðingur.

„Verið skýr um að ferðalagið snúist um fjölskylduna. Ræðið hvernig þið viljið haga kvöldunum. Kannski vill annar aðilinn vera út af fyrir sig. Viljið þið skiptast á að vera með börnunum? Það er mikilvægt að búið sé að ræða þetta áður en farið er af stað til þess að koma í veg fyrir núning.“

Þá segja sérfræðingar það mikilvægt að forðast að ræða nýja maka á ferðalögunum og alls ekki fara í það að rifja upp gamla tíma, sambandsslitin eða sjálft sambandið á meðan á því stóð.

Kinsman segir það vera áskorun að ferðast þegar nýir makar eru komnir til sögunnar.

„Ef maður er byrjaður að hitta einhvern þá geta hlutirnir orðið flóknir. Ég hef átt kærasta sem þótti það skrítið að við fyrrverandi hjón værum að ferðast saman. En staðreyndin var sú að við erum alltaf foreldrar barns okkar og setjum það í fyrsta sætið. Sambandið entist ekki og núverandi kærasti minn er miklu skilningsríkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert