Fólk borðar meira óhollt í flugi

Margir verða sérstaklega svangir á ferðalögum.
Margir verða sérstaklega svangir á ferðalögum. mbl.is/Thinkstockphotos

Ferðalög geta haft mikil áhrif á matarlystina. Að fljúga getur verið streituvaldandi og kolvetnaríkar máltíðir geta leitt til hormónaójafnvægis sem fær mann til þess að borða meira og tíðar en venjulega.

„Flugvélamáltíðir eru fullar af kolvetnum og sykri. Það hækkar insúlín magn í blóðinu og fær okkur til þess að borða meira. Þá getur streitan og leiðindin um borð fengið okkur líka til þess að borða,“ segir læknirinn Natasha Fernando í viðtali við The Sun. 

„Allt hefur áhrif. Bæði hvernig matur er í boði um borð og það að borða á öðrum tímum en venjulega. Til langs tíma getur þetta haft áhrif á efnaskipti okkar. Þeir sem ferðast oft eru líklegri til þess að þyngjast.“

Streituhormónið kortisól gegnir einnig stóru hlutverki í samspili ferðalaga og mataræðis.

„Kortisól er hormón sem stýrir t.d. efnaskiptum, ónæmiskerfi og hvernig við bregðumst við streitu. Það að ferðast um nokkur tímabelti getur hækkað kortisól magn í líkamanum. Oftast er streituhormónið hæst á morgnana til þess að hjálpa manni að vakna og fara á fætur.“

„En þegar innri líkamsklukkan er ekki í takt við tímabeltið þá fara streituhormónin í rugl. Við finnum fyrir þreytu, einbeitingarskorti og geðsveiflum.“

Fernando leggur áherslu á að fólk skilji hvernig ferðalög geta haft áhrif á líkamann. „Maður þarf að vera meðvitaður til þess að geta gripið til einhverra ráða á ferðalögum sem styðja við heilsuna. Þegar öllu er á botninn hvolft eru frí frábær pása frá rútínu hversdagsins. Maður vill njóta frísins eins mikið og mögulegt er.“

Nokkur góð ráð:

1. Forgangsraðaðu svefn:

Reyndu að aðlaga svefninn að nýju tímabelti nokkrum dögum fyrir brottför. Þá er gott að takmarka kaffineyslu og áfengi áður en maður fer að sofa til þess að vera viss um að sofa vel.

2. Drekktu nóg vatn

Vökvaskortur getur ýtt undir streitu og þreytu. Vertu viss um að þú sért að drekka vatn á meðan á ferðalagi stendur. Líka fyrir og eftir flug.

3. Borðaðu af meðvitund

Vandaðu valið þegar kemur að matnum sem þú innbyrðir. Reyndu að forðast að borða á milli mála. Hormónin eru stöðugri ef þú viðheldur góðu mynstri. Það er gott að byrja daginn með kolvetnisríkri máltíð en forðast slíkan mat eftir því sem á líður daginn og alls ekki fyrir svefn.

4. Streitustjórnun

Ef þú ert undir álagi á ferðalagi þá er gott að venja sig á að gera öndunaræfingar, hugleiða og léttar teygjur til þess að hafa stjórn á streituhormónum.

5. Birta

Það er gott að sækja í náttúrulega birtu eins mikið og maður getur á daginn og dempa alla lýsingu á kvöldin. Það hefur jákvæð áhrif á melóntónín sem er svefnhormón.

6. Líkamsrækt

Það að gera léttar æfingar geta hjálpað til við að stilla innri líkamsklukku og minnka streitu. Um leið og maður lendir á áfangastað þá er gott að hreyfa sig á daginn og taka því rólega 90 mínútum fyrir svefninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert