Það getur verið þrautinni þyngri að bóka hótel í Lundunum. Jafnvel þótt þú teljir þig vera sérfræðing þegar kemur að ferðalögum og skipulagningu þeirra. Á dögunum gerði ég þau mistök að panta herbergi á einu slakasta hóteli sem Lundúnaborg hefur upp á að bjóða.
Ég og eiginmaður minn vorum á ferðalagi á dögunum og þurftum að gista eina nótt í Lundúnum vegna millilendingar. Ferðasérfræðingurinn sem ég tel mig vera magalenti illilega þegar við tékkuðum okkur inn á The Z Hotel Soho. Við vorum reyndar búin að fá aðvörun frá vini okkar sem hafði gert þau mistök að gista í þessum hryllingsbústað ásamt fjölskyldu sinni. Ég hlustaði ekkert á það. „Hvaða, hvaða. Það hafa nú ekki allir sama hótelsmekkinn,“ hugsaði ég með mér.
Á Booking.com fær þetta hótel alls ekkert verstu einkunn sem hægt er að fá. Það fær einkuninna Good eða 7,5. Allir sem hafa fengið einkunnir í tölustöfum vita að 7,5 sleppur alveg. Það er engin toppeinkunn, en allt í lagi þannig lagað séð. Það að gefa The Z Hotel Soho 7.5 er ofmat. Það ætti að fá 3.5 og nóttin á hótelinu ætti alls ekki að kosta um 50.000 kr.
Staðsetningin á hótelinu fær hinsvegar 9,5 sem er í lagi. Það er við 17 Moor Street og því stutt frá Covent Garden, Piccadilly Circus og Leicester Square. Ef þig langar að skemmta þér, fara í skemmtilegar litlar verslanir og borða góðan mat án þess að þurfa að ferðast um í lest eða leigubíl þá ertu á réttum stað.
Þegar myndirnar af The Z Hotel Soho eru skoðaðar á Booking er ekki laust við að hugurinn reiki aftur til djammáranna þegar skemmtistaðinn REX þótti hvað heitastur í kringum aldarmótin. Hönnunin minnir svolítið á Philippe Starck og Terence Conran sem hannaði REX á sínum tíma. Þar má sjá glervegg sem aðskilur salerni og herbergið sjálft. Glerið er sandblásið og svo laumast sjónvarp niður úr loftinu eins og þótti töff árið 2000. Það er þó engin Starck áferð á hótelherberginu í raunveruleikanum. Þetta er meira eins og sýnishorn frá Ali Express, allt spónlagt - ekki gegnheilt.
Dýnan í rúminu virkar hnausþykk og koddarnir líta út fyrir að vera nokkuð þægilegir. Það skiptir náttúrlega máli fyrir fólk á miðjum aldri að sofa vel en sú var ekki alveg raunin. Rúmdýnan var meira eins og tjalddýna með hörðu undirlagi. Niðurstaða þessar magalendingar er eitthvað á þessa leið: Ef þig langar að eyða peningum í rugl og sofa illa þá er þetta hótelið fyrir þig!